Kalifornía brennur enn
Þúsundir hafa neyðst til að yfirgefa heimili sín í dag og á fjórða þúsund slökkviliðsmanna er að störfum við erfiðar aðstæður, en svæðið er fjöllótt og víða torfært. 15 hús hafa þegar brunnið til grunna, mun fleiri hafa skemmst og yfir sex þúsund mannvirki eru talin í hættu. Engin dauðsföll eða slys hafa þó orðið í þessum nýjasta stórbruna þar vestra.
Eldar sem kviknuðu í lok júlí loga enn í Sequoia- og Kings-Canyon þjóðgörðunum, sem frægir eru fyrir ævafornar risafurur sínar, þar á meðal risafuruna General Sherman, sem talin er heimsins stærsta tré. Eldarnir eru farnir að teygja sig ansi nærri General Grant-trjálundinum þar sem fjöldi risafura vex, þar á meðal tréð sem lundurinn er kenndur við og telst þriðja stærsta tré jarðar. Risafururnar eru allt að 2.700 ára gamlar.
Um 2.500 slökkviliðsmenn berjast við eldinn, sem logar á ríflega 500 ferkílómetra svæði í þjóðgörðunum.
Spáð er töluverðri rigningu í suðurhluta Kaliforníuríkis á sunnudag. Það er kærkomin tilbreyting frá þeim gríðarlegu hitum og þurrkum sem þar hafa geisað að undanförnu. Það dugar þó skammt gegn þeim mikla vatnsskorti sem herjar á Kaliforníubúa og slær ekekrt á eldhafið mikla norðar í ríkinu.
Það er stærsti kjarreldurinn sem nú brennur í Bandaríkjunum. Hann gengur undir nafninu Sóda-eldurinn og er í suðvesturhluta Idaho-ríkis, nærri ríkjamörkum Idaho og Oregon. Vindar hafa verið slökkviliðsmönnum óhagstæðir um helgina, sérstaklega í norðvesturhéruðunum og í norðurhluta Kaliforníu, þar sem hiti hefur einnig verið með mesta móti.
Stórir eldar loga enn í Washington-ríki, Oregon, Idaho, Montana og Kaliforníu. Sumir eldanna hafa logað vikum saman. Fjöldi elda hefur verið slökktur en nýir kvikna jafnharðan í einhverjum mestu þurrkum sem geisað hafa á þessum slóðum um árabil. Tugir íbúðarhúsa hafa brunnið, þúsundir manna hafa þurft að yfirgefa heimili sín í lengri og skemmri tíma og her slökkviliðsmanna leggur nótt við dag við slökkvistörf.
13 milljarðar á viku í slökkvistörf
Skógræktarstofnun Bandaríkjanna ver um eitt hundrað milljónum bandaríkjadala, ríflega þrettán milljörðum króna, í baráttuna við eldana á viku hverri, og nú er svo komið að fjárveitingin sem stofnunin fékk til slökkvistarfa á árinu mun klárast í næstu viku.
Landbúnaðarráðherra Bandaríkjanna, Tom Vilsack, segir að stofnunin neyðist því til að seilast í fjármuni sem ætlaðir eru til eldvarna og annarra verkefna.Hann vinnur nú að tillögu sem hann hyggst leggja fyrir þingið, um að settur verði á fót sérstakur hamfarasjóður á alríkisgrundvelli, sem ætlað er að standa straum af þeim kostnaði sem hlýst af allra stærstu eldunum.
Fulltrúadeild þingsins samþykkti í síðustu viku að heimila Skógræktarstofnuninni að sækja í sérstaka hamfarasjóði þegar hún hefur tæmt sína eigin sjóði. Vilsack segir það fyrirkomulag ekki fullnægjandi, því slökkvistörfin eti upp æ stærra hlutfall þess fjár sem stofnunin hefur til ráðstöfunar. Ríflega helmingur alls fjár sem stofnunin fær fer nú þegar í baráttu við eld. Miðað við þróunina á undanförnum árum gæti það hlutfall hækkað í þrjá fjórðu hluta á næstu tíu árum, að mati ráðherrans, ef ekki verður að gert.
Heimild: RÚV