Bygging þriggja turna í Túnunum að hefjast
Framkvæmdir eru að fara af stað við þrjá turna í Túnunum í Reykjavík og er byggingarkostnaður ekki undir 12 milljörðum króna. Hluti húsnæðisins er þegar kominn í útleigu.
Áformað er að hefja framkvæmdir við 8 hæða fjölbýlishús í Mánatúni í Reykjavík í október. Framkvæmdin þéttir byggð á þessu eftirsótta svæði
Það er verktakafyrirtækið Dverghamrar sem byggir húsið. Það verður 8 hæðir og með 34 íbúðum. Fimm íbúðir verða á hverri hæð á fyrstu 6 hæðunum en á 7. og 8. hæð verða tvær stærri íbúðir, alls fjórar íbúðir. Húsið mun tengjast bílakjallara sem fyrir er á lóðinni. Umsókn um framkvæmdina bíður afgreiðslu hjá byggingarfulltrúa í Reykjavík.
Fram kemur í umsókninni að svonefnd A-rými í húsinu verði 4.300 fermetrar. Miðað við að ferm. á svæðinu kosti 375 þús. ætti að kosta um 1,6 milljarða að byggja húsið.
Guðmundur R. Guðmundsson húsasmiður er annar eigenda Dverghamra. Hann segir Mánatún 1 verða tilbúið vorið 2017 ef allt gengur að óskum. „Þetta verða að mestu leyti tveggja og þriggja herbergja íbúðir og þær verða minni en almennt gerist á svæðinu.“
Höfðatorgsreitur byggður upp
Skammt frá eru að hefjast miklar framkvæmdir á Höfðatorgsreitnum.
Félagið Höfðatorg hefur þannig sótt um leyfi hjá byggingarfulltrúa í Reykjavík til að byggja 12 hæða fjölbýlishús með 94 íbúðum í Bríetartúni. Verður turninn við hlið Fosshótelsturnsins sem var tekinn í notkun í júní í sumar. Þá hefur annað félag, Höfðavík, sótt um leyfi til að byggja 7-9 hæða verslunar- og skrifstofuhús, auk kjallara á þremur hæðum og tengibyggingu yfir í H1, hæstu bygginguna á reitnum.
Bæði félögin tengjast Eykt.
Pétur Guðmundsson, forstjóri Eyktar, segir þegar samið um leigu á þremur hæðum í fyrirhuguðum skrifstofuturni. Hann áætlar að samanlagður kostnaður við íbúða- og skrifstofuturninn sé á annan tug milljarða. Verklok við skrifstofuturninn séu áformuð haustið 2017 og verklok við íbúðaturninn í lok árs 2017, eða um vorið 2018.
Pálmar Kristmundsson, arkitekt hjá PK arkitektum, hannar húsin.
Þegar þessu lýkur verður einn áfangi eftir í uppbyggingu Höfðatorgsreitsins. Sá mun kalla á niðurrif núverandi húsnæðis WOW Air, á horni Bríetartúns og Katrínartúns
Heimild: Mbl