Jarðhitasvæði Reykjanesvirkjunar og Svartsengi eru ekki ofnýtt

Rúv

Reykjnesvirkjun

Mynd Víkurfréttir

HS Orka ofnýtir ekki orkulindina á Reykjanesskaga líkt og sérfræðingar hafa haldið fram. Þetta segir forstjóri fyrirtækisins sem boðar frekari orkuvinnslu á svæðinu.

Stefán Arnórsson, prófessor í jarðeðlisfræði og Gunnlaugur H. Jónsson eðlisfræðingur, hafa báðir gagnrýnt á síðustu dögum að verið sé að ofnýta jarðhitasvæði á Hengilssvæðinu og á Reykjanesskaga. Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, hefur tekið undir að Hellisheiðarvirkjun hafi verið byggð of hratt og of stór. Forstjóri HS Orku, sem rekur Reykjanesvirkjun og Svartsengi, telur ekki að jarðhiti sé ofnýttur á þeim slóðum.

„Það er alls ekki okkkar mat, það er eðli svona vinnslu og rannsókna að það þarf að læra á eiginleika hvers svæðis fyrir sig og þau eru ólík. Vinnslusagan á Reykjanesi er tiltölulega stutt og við erum enn að læra og rannsaka hvernig svæðið bregst við vinnslu,“ segir Ásgeir Margeirsson, forstjóri HS Orku.

Ásgeir Margeirsson

Ásgeir Margeirsson

Hann telur að orkuvinnsla eigi eftir að aukast á Reykjanesi í framtíðinni þegar frekari rannsóknir hafa verið gerðar. Sérfræðingar hafa bent á að verið sé að taka meira úr borholum heldur en rennur að. Ásgeir telr að svo geti verið á tilteknum svæðum. Hann líkir jarðvarma við bleikjustofn í stöðuvatni.

„Þú getur veitt ákveðið magn á ári og haldið því inni í langa framtíð, en ef þú veiðir of mikið þá minnkar það en kemur svo upp aftur. Ef þú nýtir jarðhitasvæði of mikið í einhverjum skilningi þá jafnar það sig og kemur upp aftur. Og það er ekki verið að eyðileggja þau eins og tæma námu með neinum hætti miðað við þann varma sem er í jörðinni undir okkur. Þetta snýst um að finna varmann og síðan vökvann til að flytja varmann til yfirborðs,“ segir Ásgeir.

En er næg gufa til fullnýta virkjanirnar?

„Það er aðeins sveiflukennt. Stundum er það og stundum ekki, það fer eftir því hvaða holur eru í vinnslu, hvaða holur þarf að hreinsa og síðan þarf jú stundum að bora nýjar holur til þess að bæta við, ekki endilega vegna þess að auðlindin sé að gefa eftir heldur vegna þess að holur geta hreinlega stíflast af útfellingu sem ekki hægt er að hreinsa úr þeim,“ segir Ásgeir.

 

Heimild: RÚV+VF

Fleira áhugavert:

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *