Draga meira úr vatnsnotkun
Íbúum Kaliforníuríkis tókst að draga meira úr notkun vatns en ríkisstjórinn Jerry Brown hafði kallað eftir í júní, fyrsta mánuðinn þar sem neyðarreglur um vatnsnotkun voru í gildi.
Vatnsnotkun dróst saman um 27,3%, en reglurnar kölluðu eftir 25% samdrætti. Þetta verður að teljast mikið afrek, því mikill hiti og þurrkur var í júní í Kaliforníu.
„Kaliforníubúar skilja hversu alvarlegir þurrkar þetta eru, og þeir hafa gripið til aðgerða, eins og sést af þessum árangri,“ segir Felicia Marcus, yfirmaður nefndar sem ber ábyrgð á að tryggja að nægt vatn sé til taks í ríkinu.
„Þessar tölur súna að fólk vissi að það þyrfti að halda áfram að fara sparlega með vatn, jafnvel þegar sumarhitinn færðist yfir. Þetta er rétti andinn, núna þegar stefnir í mikla þurrka í ágúst og september í þessum versta þurrki aldarinnar, sem ekki er vitað hvenær lýkur.“
Heimild: Mbl