Sigurður Grétar Guðmundsson 1934-2013

Lagnafréttir eru vinsæll pistill í Fasteignablaði Morgunblaðsins sem Sigurður Grétar Guðmundsson pípulagningameistari hefur skrifað af mikilli list árum saman. Guðrún Guðlaugsdóttir heimsótti Sigurð og konu hans Helgu Harðardóttur á heimili þeirra í Þorlákshöfn og spunnust af miklar umræður m.a.um pípulagnir og pólitík, leiklist og eignamissi.

Þeir sem hafa lesið Lagnafréttir í Fasteignablaði Morgunblaðsins hafa stundum undrast þann frjóa huga sem sífellt finnur nýja og nýja fleti á þessu málefni. Lagnakerfi virðast í fljótu bragði ekki það sem stundum er kallað „ilmandi efni“ en í meðförum Sigurðar Grétars Guðmundssonar pípulagningameistara er ótrúlegt hve líflegur þessi efnisflokkur getur orðið. Marga hefur fýst að vita hver sá maður er sem á bak við þessi skrif býr. Nú er ég komin mitt inn á heimili hans í Þorlákshöfn, búin að koma mér fyrir við sjálft borðstofuborðið í stofunni og set upptökutækið í gang.“Það liggur ljóst fyrir að ég byrjaði að skrifa Lagnafréttir í ágúst 1992,“ segir Sigurður þegar ég inni hann eftir upphafi þessara pistla.

„Maður heitir Kristján Ottósson, framkvæmdastjóri Lagnafélags Íslands, og gefur út lítið rit sem heitir Fréttir af lögnum. Hann bað mig að skrifa í þetta rit en ég sagði við hann að ég vildi ekki skrifa fyrir kollega mína eða aðra fræðinga. „Mér finnst að það ætti að uppfræða almenning meira um þessi mál. Ég vil komast inn í almennilegan miðil, – Morgunblaðið,“ segi ég við Kristján. Hann er maður atorkusamur og eftir nokkra daga hafði hann gengið frá því við blaðið að ég myndi skrifa fimm pistla. Síðan var hugmyndin sú að fleiri kæmu inn í þetta til að skrifa. Eftir að mínir fimm pistlar höfðu birst varð hlé, hinir sem höfðu fengið boð um að skrifa gerðu það ekki. Það endaði með því að ég tók að mér að skrifa fasta pistla um þetta efni, – fyrst ætlaði ég að skrifa í eitt ár og svo annað og þannig koll af kolli – og ég er enn að skrifa vikulega í Fasteignablaðið.“

– Áttu aldrei erfitt með að finna nýja fleti á lagnamálunum?

„Stundum segi ég við konu mína, Helgu Harðardóttur, „nú veit ég ekkert hvað ég á að skrifa um“, og hún svarar: „Æ, láttu ekki svona, þú finnur eitthvað,“ og það er eins og við manninn mælt, mér dettur eitthvað í hug.

Reyndar fæ ég góðar ábendingar frá lesendum, bréf og hringingar. Það merkilega er að um 80% af þeim sem hafa samband við mig eru konur – samt er engin mynd af mér með þessum pistlum.“ Nú hlæja þau Sigurður Grétar og Helga, sem situr mér á hægri hönd við borðið og hlustar brosleit á lýsingar eiginmannsins á skrifum sínum.

„Ég hef komist að því á þeirri hálfu öld sem ég hef verið í þessu fagi að það er miklu betra að ræða um lagnamál við konur. Lagnamál eru oft í ólagi á heimilum og það bitnar verulega á konunum. Þær eru ekki með neina fyrirfram skoðun á málinu, en karlarnir svara kannski: „Ég gerði nú þetta og þetta við þessu og þessu… Konurnar taka með opnari huga því sem maður segir. Líklega lesa þó kollegarnir allra síst það sem ég er að skrifa, og eru ekki endilega sammála mér.“

Hvers vegna pípulagnir?

Mér leikur hugur á að vita hvað hafi beint Sigurði Grétari inn á braut pípulagna?“Pípulagnir eru ekki fag sem menn fæðast með löngun til að stunda. Þeir „lenda“ þar venjulega fyrir röð tilviljana. Mig dreymdi stóra drauma um háskólanám en ég sá fljótt að ekki myndi hlaupið að því að láta þá rætast, engin námslán voru á þeim tíma, ég hafði misst föður minn og móðir mín sá fyrir heimilinu með sinni vinnu.

Það vildi mér þá til happs að nemandi nágranna okkar úr sveitinni lenti í ástarsorg og stökk út í Breiðafjarðareyjar til að jafna sig. Þá vantaði mann í hans stað í verk við pípulagnir. Nágranninn hafði verið beðinn að taka mig í nám, nú var tækifærið – og ég greip það.“

Sigurður nefnir þarna til sögunnar sveitunga – úr hvað sveit spyr ég.

„Ég er fæddur 1934 á því gamla höfuðbóli Sandhólaferju sem er ferjustaðurinn gamli yfir Þjórsá og er í Djúpárhreppi sem hét þá.

Ég gekk í barnaskóla í Þykkvabænum.

Faðir minn Guðmundur Halldórsson var bóndi á Sandhólaferju, sem þá var afskekkt og varla í vegasambandi. Þegar hann var 42 ára kom til hans tvítug kaupakona, Anna Sumarliðadóttir, og þau fóru að eiga börn saman, ég er sjötta barn þeirra af þeim sjö sem á legg komust. Ættingjar mömmu komu einu sinni á ári í heimsókn og þá í júlí því þá var hægt að komast í námunda við bæinn á bíl. Við höfðum það eigi að síður gott og ekki man ég eftir neinu sem kalla mætti skort.

Ég átti góða að, m.a. ömmu og stjúpafa og heiti nöfnum þeirra beggja – en fékk þau þó eftir nokkurri krókaleið. Áður hafði borið þessi nöfn drengur sem drukknaði ellefu ára gamall út frá bryggju á Seltjarnarnesi. Ég var þá nýfæddur og var skírður eftir þessum dreng og naut þess alla tíð hjá þeim og hjá uppeldissystur pabba, sem hafði átt drenginn sem drukknaði.

Ég var ellefu ára þegar faðir minn dó og þá brá mamma búi, mér til mikilla vonbrigða. Ég vildi ekki fara frá Sandhólaferju, umhverfinu þar og samfélaginu í sveitinni.

Eitthvert mesta „sjokk“ sem ég hef fengið var þegar ég kom út í bjartan haustdaginn, morguninn eftir að við komum í Kópavog, og leit yfir eyðilega melana þar. Það umhverfi var mikið ólíkt gróandanum í Rangárþingi og fjallahringnum þar, með Heklu og Eyjafjallajökul, og Vestmannaeyjar fljótandi í tíbránni. Ég leit á Esjuna, þótti hún slaga upp í Ingólfsfjall, en Reykjanesfjallgarðurinn og Bláfjöll – mér fannst þetta ekki fjöll heldur hrúgur.

Síðar breyttist sýn mín á umhverfið í Kópavogi heldur betur. Við bjuggum í litlu húsi, beint niður af Meltröðinni, það stendur ennþá, eina gamla húsið við Digranesveginn sem ekki er búið að rífa.

Eina leiðin fyrir mömmu til þess að koma yfir okkur þaki á þessu svæði var að kaupa þennan tveggja herbergja sumarbústað í Kópavogi. Mamma fékk vinnu hjá Kjöti og rengi og þar fékk ég líka vinnu á vorin við að sjóða rengi. Síðan finnst mér brot á mannréttindum að ekki megi veiða hval hér. Síðar vann mamma lengi við ræstingar hjá lögreglunni í Kópavogi.

Kópavogur – skemmtilegur útnári

Það bráði fljótt af mér ólundinni því mannlífið í Kópavogi var alveg einstakt. Ég varð að vísu að vera í barnaskólanum í einn vetur því langir biðlistar voru við framhaldsskólana í Reykjavík, en ég hef þó aldrei séð eftir barnaskólavistinni, þar kynntist ég öllum jafnöldrum mínum í Kópavogi. Þetta var þriðja starfsár Kópavogsskóla, sem þá var í húsinu sem Málning var lengi í og brann síðar. Ég gekk líka í skátafélagið og Breiðablik – ekki leið á löngu þar til ég var orðinn formaður þar. Síðan hef verið í félagsmálum allt mitt líf. Við bjuggum þröngt heima og ég lærði snemma að láta mér lynda við systkini mín, það var góður undirbúningur.Ég man aldrei eftir í skóla neinu sem kalla mætti einelti, ef einhverjir ætluðu að ráðast á einhvern einn þá komu hinir á vettvang og stóðu með honum. Því er ekki að neita að Kópavogur var útnári á þessum tíma og það var litið niður á þá sem þar bjuggu. En við bárum höfuðið hátt krakkarnir í Kópavoginum þótt á ýmsu gengi. Ég var formaður í Breiðabliki þegar félagið háði sinn fyrsta kappleik í Mosfellssveit. Leiknum lauk 9-0 – því miður með sigri Aftureldingar.

Sjálfur var ég ekki í fótbolta en lagði þess í stað stund á frjálsar íþróttir um tíma, þá kom sér vel að ég var fljótur að hlaupa, hafði æfinguna frá því að eltast við skepnur í sveitinni á víðlendri jörð.

Það settist enginn að í Kópavogi á þessum árum nema sá sem ætlaði að bjarga sér. Það var mikið um harðduglegt barnafólk í Kópavogi en eitt og annað skorti, t.d. vatn.

Við áttum jeppa og bróðir minn, sem þá vann í Héðni, kom alltaf með vatn heim í glerkút í grind. Það vatn notuðum við til drykkjar og matar en vatn af þakinu höfðum við til þvotta. Ekkert vatnsklósett var af þessum sökum í húsinu heldur kamar. Mér fannst þó mikil framför að kamarinn var niðri í kjallara og innangengt á milli, í sveitinni urðum við að fara út til að komast á kamarinn. Annað fannst mér enn stórkostlegra, við höfðum rafmagn í Kópavogi, það höfðum við ekki haft fyrir austan.

Ég segi stundum að við frumbyggjarnir höfum komið gróandanum af stað á melunum í Kópavogi með því að hella úr kamarfötunum yfir þá. Þetta skapaði mikið frjómagn. Við breyttum örfoka melum í aldingarð.

Ég var þó búinn að leggja klósett í húsið með bróður mínum áður en ég fór að læra pípulagnir.

Forsendan var að Finnbogi Rútur Valdemarsson og Gunnar Thoroddsen sömdu um í bróðerni, þrátt fyrir ólíkar skoðanir í þjóðmálum, að Kópavogur fengi vatn úr lögn í Blesugróf. Vatnið var mælt og svo borgað fyrir notkunina og þannig er þetta enn, Vatnsveita Kópavogs kaupir vatn af Vatnsveitu Reykjavíkur.

Áður en rennandi vatn kom í Kópavog var farið með hvern vatnsdropa eins og hann væri úr gulli. Mamma var mjög nýtin og passaði upp á að engu væri skvett, vatn sem maður þvoði sér um hárið úr var svo notað til að skúra gólfið o.s.frv.

Þegar vatnið kom lögðum við bróðir minn inn pípu. Við létum renna í fötu þegar við opnuðum fyrst fyrir kranann, svo fylltist fatan og bróðir minn bað mig að skvetta úr henni. Þá kom mamma hlaupandi og kallaði: „Nei, nei – haldið þið að það sé ekki hægt að skúra úr þessu?“

Ég hóf pípulagninganámið 1952 og fór svo í Iðnskólann í Reykjavík í Lækjargötu, ég tók tvo bekki í einu og var í kvöldskóla en vann allan daginn. Þetta var mikil vinna og langur vinnutími. Allir ofnar voru úr potti og níðþungir og það voru engin tæki sem léttu manni vinnuna, við bárum ofnana sjálfir upp á fjórðu hæð og engar borvélar voru til þess að bora fyrir lögnum, við urðum að höggva steininn með stjörnubor. Þetta komst maður í gegnum þótt ég væri svo grannur að ég sást varla fyrr en komið var að mér.

Það þótti ekki fínt fag að fara í pípulagnir. Þegar ég sagði einni vinkonu minni hvað ég væri að fara að læra sagði hún: „Oj.“ Ég var því ekkert að koma því á framfæri við dömur fyrr en ég þurfti hvað ég ynni við.

Ég hafði verið á danskvöldum hjá Þórði á Sæbóli á laugardagskvöldum eins og fleiri ungmenni í Kópavogi en færði svo út kvíarnar og tók að stunda með vini mínum gömlu dansana sem þá voru í Breiðfirðingabúð og í Silfurtunglinu í Austurbæjarbíói sem nú er talað um að rífa.“

Vonandi að það frjósi vel um jólin

Þótt Sigurður færi ekki af hugsjón að læra pípulagnir fór það svo að hugur hans hneigðist að hinni fræðilegu hlið lagna, svo sem lesendum Morgunblaðsins er kunnugt.“Mér fannst áhugavert að komast dýpra inn í þau fræði sem ég var að fást við, í pípulögnum er verið að fást við t.d. varmafræði sem er mjög áhugaverð, einnig þurfti að læra á kerfin, hvernig þau virka. Pípulagnir eru í raun saga um siðmenningu. Um 400 f.Kr. voru menn farnir að leggja frárennslisrör og Rómverjar komu sér upp lofthitakerfi, höfðu kanala undir gólfi og eldstæði fyrir neðan þannig að gólfið hitnaði. Vatnssalernið hefur haft mikil áhrif á heilbrigðisástand í löndum, það er raunar mun eldra en haldið var, nokkuð víst er að Kínverjar, sú gamla menningarþjóð, fundu vatnssalernið upp. Það er með pípulagnir eins og önnur fræði. Það þarf að halda áfram að mennta sig. Hvernig færi t.d. fyrir lækni sem skellti aftur bókum eftir læknapróf og liti ekki í fræðin meir? Ég er fylgjandi símenntun.

Fyrstu árin sem ég var í pípulögnum gerðist fátt eitt en svo varð bylting í þessum efnum, en eftir 1970 fóru plaströrin að koma sterkar inn. Ég er nýjungagjarn og tók þessu fegins hendi en ýmsir aðrir eru íhaldssamir og plaströrunum hefur verið haldið í heljargreipum sérfræðinga, ef svo má segja, alltof lengi. Það er ekki langt síðan Orkuveita Reykjavíkur tók af skarið og ákvað að nota plaströr í allar sínar heimaæðar.

Ég gekk langt í að kynna mér þessar nýjungar. Ég fór til Svíþjóðar til að læra plastsuðu og ég innleiddi snjóbræðsluna. Ég lærði þá tækni í Svíþjóð en svo kom olíukreppan og Svíar urðu að hætta við snjóbræðsluna, en við með heita vatnið getum nýtt okkkur þetta og gerum óspart.

Heitt vatn er ekki allt jarðvarmi, í Kópavogi er t.d. kalt upphitað vatn, það kemur frá Nesjavöllum og þar er hitinn gufa sem er notuð til að framleiða rafmagn. Síðan er hún sett í varmaskipta og hitar upp kalt vatn sem sent er til Kópavogs. Það getur þó fundist hitaveitulykt af vatninu vegna þess að í það er látið blæða svolítið af brennisteinsvetni til að halda súrefni í skefjum svo það skemmi ekki lagnir.

Um tíma tóku menn upp á að blanda saman upphitaða vatninu og borholuvatni. Þessi efnablanda stíflaði mörg rörin og olli miklu fári, en atvinnuskapandi var hún fyrir pípulagningamenn.

Gömlu mennirnir sögðu stundum í hljóði hver við annan: „Það er vonandi að það frjósi vel um jólin,“ – þá fór fólk seint á fætur og kveikti seint upp, þá fraus í rörum og allt var vitlaust að gera hjá pípulagningamönnunum eftir hátíðarnar.“

Um tíma var lítill áhugi hjá ungu fólki á að læra pípulagnir en það er að breytast. Ég hef komið að endurmenntun pípulagingamanna á seinni árum, útvegað bækur og vann við að semja nýja námskrá, sem nú er kennt eftir. Pípulagningar eru fjölþætt iðn í dag og krefjast undirstöðugóðrar þekkingar t.d. á efnum og vatni. Það eru mörg þúsund afbrigði af vatni á Íslandi, þetta er því mikil flóra.“

Kvonfang úr klausturskóla

Ég er nú orðin óþolinmóð að frétta hvenær Sigurður Grétar hafi getað fundið sér stund til þess að kynnast eiginkonunni Helgu Harðardóttur og stofna til heimilis og barneigna með henni?

Sigurður Grétar og Helga Harðardóttur

„Árið 1959 var Félagsheimili Kópavogs vígt með viðhöfn og í tilefni af því ákvað Leikfélag Kópavogs að ráða til sín danskan leikstjóra, Gunnar Róbertsson Hansen, fjölhæfan heimsborgara, til að leikstýra kínverskum ævintýraleik. Meðal þeirra sem léku var Guðrún Þór og ég. Guðrún lék forsætisráðherrafrú og ég garðyrkjumann hennar sem flekaði dóttur hennar og varð í framhaldi af því tengdasonur forsætisráðherrahjónanna. Einhvern tíma varð Guðrúnu að orði að ég hefði gert þetta vel og hún gæti sem best hugsað sér að eignast mig fyrir tengdason. Ég sagði að hún ætti bara svo unga dóttur að það kæmi vart til greina. Þá sagðist Guðrún eiga eldri dóttur sem hún geymdi í klausturskóla í Írlandi, enda kaþólsk.

„Ég lít á gripinn þegar hún kemur heim,“ sagði ég og gleymdi þessu svo.

En þegar Músagildran eftir Agöthu Christie var sýnd kom ung stúlka í miðasöluna sem mér leist bráðvel á. Þar var þá komin elsta dóttir Guðrúnar Þór og Harðar Þórhallssonar viðskiptafræðings. Hann var mikill sjálfstæðismaður og um tíma ritstjóri Voga, blaðs sjálfstæðismanna í Kópavogi. Ég kynntist honum lítillega. Hann var berklaveikur og dó áður en við Helga giftumst,“ segir Sigurður.

„Ég hafði búið í Kópavogi frá tveggja ára aldri. Amma mín Abelína var kaþólsk og hún hafði áhrif á að ég var send í klausturskólann, sem mér líkaði reyndar svo vel í að ég var um tíma að hugsa um að ganga í klaustur,“ skýtur Helga inn í og hlær.

„Sú ráðagerð rann endanlega út í sandinn þegar við giftum okkur í mars 1961 og mátti ekki seinna vera því dóttir okkar fæddist í júní. Það var raunar kaþólski biskupinn í Landakoti sem gifti okkur, Jóhannes Gunnarsson, hann var ömmubróðir minn.

Ég er afkomandi „hins drengsins“, Gunnars Einarssonar, sem fór með Nonna, Jóni Sveinssyni rithöfundi, út í skóla,“ bætir Helga við.

„Það hefur verið sterkari kynhvöt í honum en Jóni,“ segir Sigurður Grétar og hlær.

„Abelína giftist Þórhalli Árnasyni sem var kvennagull bæjarins á þeim tíma og glæsimenni mikið. Þau eignuðust einn son, föður Helgu, og skildu síðan,“ bætir hann við.

Stofnun fyrirtækis og eignamissir

„Við Helga settumst að í bílskúrnum hjá tengdamömmu og fyrr en varði vorum við orðin áhyggjuefni fjölskyldunnar því við eignuðumst þrjú börn á þremur árum. Þegar þröngt var orðið í 30 fermetra skúrnum brugðum við á það ráð að reisa okkur hús efst við Bjarnhólastíg og bjuggum þar með börnin okkar fimm, Kolbrúnu, Hörð, Fjalar, Sváfnir og Erp, til ársins 1985 – en þá fór illa fyrir okkur. Við misstum húsið vegna þess að við töpuðum öllu sem við áttum. Ég hafði stofnað fyrirtæki á verðbólgutímum og hóf þá innflutning á ýmsu sem laut að pípulögnum, en ég hugsaði þar meira um nýjungar í mínu fagi en hvað væri örugglega hægt að selja. Ég var ekki nógu mikill peningamaður, – var of lengi að átta mig á hvað verðtryggingin þýddi, enda alinn upp við það að lán væri eins og happdrættisvinningur og afborganirnar brynnu upp í verðbólgunni. Þetta, ásamt því að spila fulldjarft í innflutningnum, olli því að fór sem fór.Það var mikil og erfið reynsla að missa eigur sínar. Við lá að við yrðum gjaldþrota en við neituðum að gangast undir það, þrátt fyrir að sumir teldu það léttari leið fyrir okkur. Við tók annan pól í hæðina, sömdum og sömdum og höfum fram undir þetta verið að greiða niður skuldir. Því er farsællega lokið núna. Í svona stöðu má aldrei gefast upp.

Á þessu tímabili varð ég var við hvað heimurinn getur verið miskunnarlaus við þá sem fara flatt. Eitt situr sérstaklega í mér. Ég hafði gefið út fræðibók um snjóbræðslu sem ég var að innleiða á Íslandi. Ég teiknaði hana sjálfur og samdi hana sjálfur og Helga pikkaði inn textann á stensla á ritvél. Ein virt opinber tæknistofnun gaf svo út lítinn blöðung og stal frá mér öllum teikningunum og meirihlutanum af textanum. Mín var ekki einu sinni getið þótt nöfn ýmissa dauðra karla úti í heimi væru tíunduð. Ég talaði við einn af yfirmönnum þessarar stofnunar. Svari hans gleymi ég ekki. „Nú? Ég hélt að þú hefðir farið á hausinn?“ Mér verður sjaldan orðfall en við þessu átti ég engin svör og gekk í burtu.

Í Þorlákshöfn er þægilegt að vera

Við fluttum hins vegar ekki hingað í Þorlákshöfn vegna þessara atburða, það gerðist miklu seinna. Eftir húsmissinn leigðum við um tíma en gátum svo með góðra manna hjálp keypt litla íbúð. Þannig unnum við okkur upp og fyrir rösku ári keyptum við einbýlishús hér í Þorlákshöfn. Þetta er kannski óþarflega stórt hús en við það er góður garður og það líkar Helgu, sem hefur „græna fingur“.“Helga Harðardóttir er blómaskreytingakona.

„Móðir mín hafði lært blómaskreytingar á yngri árum en hún vann stutt við það fag. Ég aftur á móti lenti í þessu fyrir tilviljun. Þegar ég kom af írska klausturskólanum fékk ég góða vinnu enda hafði ég lært m.a. hraðritun og ensku. Ég hætti að vinna utan heimilis meðan börnin voru lítil en var svo boðin vinna í blómabúð nokkuð löngu síðar. Ég tók því og hafði gaman af að spreyta mig á að raða saman blómum í vendi og fór á námskeið. Síðar vann ég í annarri blómabúð og þetta vatt upp á sig. Ég fór svo út til Danmerkur 1990 til þess að læra blómaskreytingar,“segir Helga.

„Við ætluðum svo sem ekki að fara úr Kópavoginum og höfðum gert tilboð í eignir þar sem við misstum af. En svo sá Helga þetta hús auglýst. Við fórum að skoða og ákváðum að taka stökkið og flytja hingað. Börnin okkar héldu að við værum orðin skrítin og vinirnir voru tortryggnir líka. Þannig er að Þorlákshöfn virðist hafa á sér eitthvert það orð sem minnir helst á orðspor Kópavogs í gamla daga. Ég segi kannski kunningja mínum að ég búi fyrir austan fjall. „Í Hveragerði?“ Nei. „Á Eyrarbakka,“, „Stokkseyri,“ Selfossi?“ nei – í Þorlákshöfn. Þorlákshöfn? og svo er horft á mig eins og ég hafi flutt upp á öræfi.

En sannleikurinn er sá að það er yndislegt að búa í Þorlákshöfn og hér er ýmislegt að gerast, til stendur m.a. að byggja stóra kaupskipahöfn og þannig mætti telja. Hér er mikil nánd milli fólks, við skreytum t.d. sjálf götuna okkar með öðrum íbúum hennar fyrir jólin og á sumrin tökum við okkur til og grillum öll saman einn dag. Helga syngur í Kyrjukórnum og fólk er duglegt að heimsækja okkur – sumir hafa ekki farið aftur, heldur keypt sér hús hér og sest að. Í Þorlákshöfn er þægilegt að búa.

Ég vinn á verkfræðistofu og Helga í Blómavali. Við ökum saman í bæinn hvern virkan dag og förum saman heim aftur – þetta gengur afar vel.

Við Helga lifðum lengst

Einn er sá þáttur í lífi þeirra hjóna Helgu og Sigurðar Grétars sem ástæða er til að fjalla sérstaklega um, það er samstarf þeirra á leiksviðinu.“Við gátum leikið saman í mörgum leikritum vegna vasklegrar hjálpar tengdamóður minnar og mágkonu sem alltaf tóku við börnunum þegar í nauðirnar rak,“ segir Helga.

„Helgu fannst mest gaman að æfa, henni hefði verið alveg sama þótt leikritið væri aldrei sýnt,“ segir Sigurður og hlær.

Hann hafði verið við leiklistarnám hjá Ævari Kvaran og hugsaði til þess um tíma að fara í frekara leiknám.

„En það var bara engin framtíð í því þá, þetta var áður en kvikmyndabylgjan skall á,“ segir hann.

Sigurður var lengi formaður Leikfélags Kópavogs og Hörður sonur þeirra Helgu er formaður þess félags nú.

„Leikfélög eru oft byggð upp af fjölskyldum mjög svipað og mafían á Sikiley. Ég rak mig á það að þar sem aðeins annar makinn var í leikstarfi urðu vandamál og þau stundum mikil.

Minn uppáhaldskarakter í leik er Óli í Fitjakoti í Bör Börsson. Það er dýrðlegt hlutverk í söngleik sem við settum upp. Einnig er mér kær Madsen klæðskeri úr Leynimel 13, sem er skikkanlegur í upphafi en leggst svo í drykkjuskap,“ segir Sigurður.

„Mig hefur aldrei langað að leika hetju, ég hafnað því meira að segja að leika Fjalla-Eyvind. „Sykopatarnir“ eru mínir menn. Mitt besta hlutverk er líklega Ankersen sparisjóðsstjóri og trúarleiðtogi í hinu snjalla verki Glötuðum snillingum eftir William Heinesen.

Við Helga lékum fyrst saman í Tíu litlum negrastrákum eftir Agöthu Christie, við lékum þær persónur tvær sem komust af. Í síðasta leikritinu sem við Helga lékum í saman lékum við hjón í Syni skóarans og dóttur bakarans eftir Jökul Jakobsson – yndislegu verki.“

Það var einmitt á leiðinni í leiklistarsamkvæmi sem Sigurður slasaðist og var lagður á spítala, í fyrsta og eina sinn á ævinni.

„Það var haldið partí eftir 50. sýningu á Þorláki þreytta. Við hjónin vorum á leið inn er ég rann til á hálku á tröppum leikhússins og höfuðkúpubrotnaði. Það þótti mörgum kyndugt að snjóbræðslusérfræðingurinn skyldi höfuðkúpubrotna í hálku,“ segir Sigurður og hlær. Ekki átti hann þó lengi í þessum veikindum.

„Ég reif mig upp og er svo hraustur að ekkert fannst að mér þrátt fyrir nákvæma leit bandarísks fyrirtækis sem skoðaði mig í krók og kring í tengslum við athugun Hjartaverndar á slembiúrtaki sem tekið var fyrir 25 árum og ég lenti í,“ segir hann, nokkuð hróðugur.

Fékk ekki að vinna á Vellinum

Síðast en ekki síst er ástæða til að ræða við Sigurð Grétar Guðmundsson um þátttöku hans í pólitík.“Ég var einn af stofnendum Þjóðvarnarflokksins, þá aðeins 18 ára. Ég hreifst mjög af mönnum eins og Gils Guðmundssyni og Þórhalli Vilmundarsyni. Kosningarnar 1953 eru mér eftirminnilegar.

Þetta sama ár var ég mánuðum saman að vinna á Keflavíkurflugvelli. Ég lét það ekki stöðva mig að ég var harður herstöðvaandstæðingur. Þetta starf tók hins vegar skjótan enda árið eftir. Verið var að byggja stóra flugskýlið, rétt við hliðina á gömlu flugstöðvarbyggingunni, og þar átti ég að vinna. Menn þurftu passa til að komast inn á svæðið en nú brá svo við að ég fékk ekki passa hjá sýslumanninum, sem sá um þá hlið mála. Ég fór til Hallgríms Dalbergs í félagsmálaráðuneytinu og lagði málið fyrir hann, en niðurstaðan varð ég fékk engan passa og var sagt að aldrei yrði gefið upp hvers vegna. Ég vissi það svo sem – það var vegna pólitískra skoðana minna.

Pólitík og pönnukökur í bæjarstjórn

Árið 1962 fór ég í framboð til bæjarstjórnar í Kópavogi. Þá voru furðulegi tímar í pólitíkinni þar. Finnbogi Rútur Valdemarsson mótaði mínar pólitísku skoðanir meira en nokkur annar maður. Við þessar kosningar sagði Finnbogi Rútur hins vegar skilið við þá fylkingu sem við höfðum verið saman í og fannst mér það mjög miður. Ekki aðeins mat ég hann mikils heldur var ég í góðum kunningsskap við elstu börn hans. Það fór svo að við töpuðum þessum kosningum og ég hringdi í Finnboga kosninganóttina til þess að segja honum skoðun mína. Hann tók því satt að segja furðu vel. Síðar var ég í bæjarstjórn ásamt konu hans Huldu Jakobsdóttur. Hún leit alltaf á mig sem einn af „ungu“ strákunum. Einu sinni á bæjarráðsfundi hafði ég orð á því að gott væri að fá einhvern tíma pönnukökur með kaffinu. „Finnst þér góðar pönnukökur Siggi?“ sagði Hulda. Hún kom á næsta fund með hlaðinn disk af pönnukökum. Björgvin Sæmundsson sagði: „Á bara að fara að gefa manni pönnukökur hér?“ Hulda svaraði: „Ef Siggi vill gefa ykkur eitthvað með sér þá er það allt í lagi.“Ég var á kafi í bæjarmálum í Kópavogi frá 1966 og næstu átta ár þar á eftir. Ég átti m.a. sæti í nefndinni sem lét hanna Gjána í Kópavogi. Við sameinuðum bæinn með þessari gjá, vegurinn sem áður lá yfir hæðina var mjög hættulegur og höfðu þar orðið stórslys. Þess vegna vildum við færa umferðina niður og hafa brýr yfir. Ég var líka einn af forustumönnunum sem stóðu að gerð miðbæjarins í Kópavogi, sem aldrei hefur verið lokið við.

Þrengingatímar að baki

Ég hafði mjög mikið að gera á þessum árum og þetta var skemmtilegt tímabil, ég fann að það hjálpaði mér í pólitíkinni leiklistarnámið – og póltíkin hjálpaði mér aftur í leiklistinni – hún gaf mér innsýn í alls kyns manngerðir.Eitt kjördæmabil var ég varaþingmaður og sat tvisvar á þingi, ég var einn sjö þingmanna sem greiddu atkvæði gegn inngöngu í EFTA, það gerði ég fyrir tilmæli Lúðvíks Jósepssonar og er satt að segja ekkert stoltur af.

Eins og allir sem eru í pólitík eignaðist ég óvildarmenn, ekki síður í hópi samherja, til voru þeir sem fannst ég ekki nógu mikill „kommi“. Árið 1974 ákvað ég að hætta í pólitík, ég var að reka fyrirtæki og þetta var einfaldlega orðið of mikið, eitthvað varð undan að láta. Ég var þó viðloðandi pólitíkina áfram, sat í nefndum, m.a. í fegrunarnefnd sem valdi fallegustu garðana, það var skemmtilegt.

Við Helga erum mjög sæl að hafa eignast garð aftur til að rækta hér í Þorlákshöfn. Satt að segja er þetta hús okkur afar mikils virði. Ekki aðeins vegna þess að þetta er gott hús í skemmtilegu umhverfi þar sem gaman er að taka á móti börnum og barnabörnum, sem og vinum og vandamönnum – þetta hús er augljós vottur þess að við höfum lagt að baki þrengingatímann sem reið yfir þegar við misstum eigur okkar, urðum að selja húsið sem við byggðum og borga skuldir á skuldir ofan til þess að komast hjá gjaldþroti. Við fórum leið sjálfsvirðingarinnar og erum stolt af því. Við erum ánægð innra með okkur og sátt við hlutskipti okkar.“