Ísland 25 USD/MWst – Bretland 85 USD/MWst..

Heimild:  

 

Mars 2015

Bretland samþykkir 180 USD/MWst

Breska orkumálaráðuneytið hefur nú tilkynnt um nýja samninga við orkufyrirtæki um lágmarksverð á raforku frá nýjum orkuverum. Viðamestu samningarnir eru við tvö vindorkuver, sem reisa á utan við bresku ströndina. Í þeim tilvikum er raforkuframleiðendunum tryggt lágmarksverð á bilinu 114-120 GBP/MWst. Það jafngildir um 175-180 USD/MWst. Til samanburðar má nefna að skv. síðustu ársskýrslu Landsvirkjunar var meðalverð til stóriðjunnar hér nálægt 25 USD/MWst.

Breska kerfið í mótun

Það var síðla árs 2013 sem breska þingið samþykkti lög sem leggja leikreglurnar um orkustefnu Bretlands. Eitt af grundvallaratriðunum þar er að stuðla að auknu framboði af raforku og þá einkum og sér í lagi á endurnýjanlegri eða grænni orku. Tilgangurinn er að efla raforkuframboð til að tryggja betur næga raforku og um leið stuðla að auknu hlutfalli endurnýjanlegrar orku.

Undir endurnýjanlega orku skv. orkustefnu Bretlands flokkast m.a. vindorka, vatnsorka, jarðvarmi og sólarorka. Bretarnir gera ráð fyrir því að það verði einkum nýting vindorku sem muni vaxa hratt næstu árin. Enda er t.d. lítið um jarðvarma í Bretlandi og vatnsaflskostir þar í landi flestir nýttir nú þegar.

Fyrstu samningarnir á grunni nýju orkustefnunnar voru gerðir árið 2014. Þar voru í fararbroddi norræn orkufyrirtæki, sem hyggjast reisa vindorkuver við bresku ströndina (þetta voru danska Dong Energi og norsku Statkraft og Statoil). Nú í febrúar sem leið (2015) var svo tilkynnt um niðurstöður í annarri lotu þessara samninga (Contracts for Difference; CfD’s).

Vindorka í fararbroddi

Hátt í þrír tugir verkefna voru samþykkt nú í annarri lotunni. Framlag breskra stjórnvalda til þeirra verkefna er samtals nálægt 4 milljörðum punda. Það samsvarar rúmlega 6 milljörðum USD eða vel yfir 800 milljörðum íslenskra króna! Þarna er því verið að veita miklum fjármunum til nýrra orkuverkefna.

UK-DECC-CFD-Contracts_Different-Generation-Projects-MW_Feb-2015

UK-DECC-CFD-Contracts_Different-Generation-Projects-MW_Feb-2015 – Smella á myndir til að stækka

Af öllum þessum 27 verkefnum, sem nú er verið að semja um, eru tvö langstærst. Þar er í báðum tilvikum um að ræða vindorkuver á hafi úti, þ.e. utan við ströndina. Annar þessara tveggja vindorkugarða verður 448 MW og hinn verður hvorki meira né minna en 714 MW. Lágmarksverðið sem þarna var samið um var annars vegar rétt rúmlega 114 GBP/MWst (samsvarar um 175 USD) og hins vegar rétt tæplega 120 GBP/MWst (um 183 USD). Báðir þessir samningar eru til 15 ára.

Umrætt samningsverð núna er nokkuð lægra verð en vindorkuverin í fyrstu lotunni fengu, þ.e. skandínavísku vindgarðarnir sem nefndir voru hér að ofan. Þar var hæsta verðið 155 GBP/MWst, sem jafngildir um 240 USD/MWst. Það virðist því sem skandínavísku orkufyrirtækin hafi náð alveg sérstaklega hagstæðum samningum í fyrstu lotunni snemma árs 2014. Verðið núna er um fjórðungi lægra en þá var samið um.

Ráðast hagsmunir Íslands í hanastélsboði?

Fram til þessa hefur vindorka verið langsamlega umsvifamest í þessum samningum um lágmarksverð til nýrra orkuvera, skv. orkustefnu Bretlands. Enda veitir vindorkan Bretum mestu tækifærin til að byggja upp afl til að nýta endurnýjanlegar orkuauðlindir. Það er að sumu leiti nokkuð súrt fyrir Breta, því vindorkan er ansið dýr og þar að auki óstöðug og því lítt áreiðanleg.

Í umræðu og skrifum um orkustefnu Bretlands hefur margoft komið fram að Ísland gæti mögulega boðið Bretum ennþá betri kjör en samningarnir við vindorkuverin hljóða upp á. Þar að auki er vindorkan afar ófyrirsjáanleg orkuframleiðsla og kallar á varafl, sem óhjákvæmilega gerir vindorkuna ennþá dýrari (varaaflið oft er í formi gasorkuvera). Íslensk orka er þvert á móti mjög áreiðanleg því hún byggir annars vegar á vatnsorku í miðlunarlónum og hins vegar stöðugri jarðvarmaorku. Það gæti því verið mjög áhugavert fyrir Breta að semja um kaup á íslenskri raforku (um sæstreng). Og það jafnvel þó svo verðið fyrir íslensku raforkuna væri nálægt því hið sama eins og fyrir vindorkuna.

UK-Wind-farm

UK-Wind-farm

Það myndi merkja geysilega arðsemi fyrir íslensku orkuna. Þar með er þó ekki sagt að Ísland muni standa frammi fyrir því tækifæri mjög lengi að gera slíka samninga við Breta. Bretar hyggjast einungis verja afmarkaðri upphæð í orkustefnu sína. Þess vegna er óvíst að langur tími gefist til að njóta umræddra hagstæðra samningsskilmála sem Bretar bjóða um þessar mundir. Þar að auki er nú komið í ljós að umsamið orkuverð hefur lækkað frá því sem var í fyrstu lotunni hjá þeim. Ef sú þróun heldur áfram er ekki vænlegt að bíða í rólegheitum eftir að kanna möguleika á samningum við Bretana um orkuviðskipti. Þvert á móti virðist skynsamlegra að ganga sem fyrst til slíkra viðræðna við Breta.

Fyrst og fremst er þó einfaldlega gagnslítið að vera með endalausar vangaveltur um þetta. Miklu skynsamlegra er kanna einfaldlega málið með þeim eina hætti sem veitt getur skýr svör. Þ.e. með beinum viðræðum við bresk stjórnvöld um hvaða skilmálar eru í boði vegna raforkusölu til Bretlands. Svo sem raforkuverð, raforkumagn og lengd samningstíma með bindandi lágmarksverði.

Þess vegna er afar óheppilegt og reyndar einkennilegt að iðnaðarráðherra Íslands skuli ekki t.d. hafa gripið það tækifæri sem bauðst í bréfi sem hún fékk nýverið frá breska orkumálaráðherranum (sbr. myndin hér að neðan). Þar var íslenska ráðherranum, Ragnheiði Elínu Árnadóttur, boðið til fundar til að ræða sæstrengsmálið við breskan starfsbróður sinn. Að auki bauð breski orkumálaráðherrann, Matthew Hancock, aðstoð ráðuneytis síns til að upplýsa um breska regluverkið sem um þessi málefni fjallar.

HVDC-Letter-UK-to-Iceland_2015-01-29_17-55-03_GBG_January-2015

HVDC-Letter-UK-to-Iceland_2015-01-29_17-55-03_GBG_January-2015

Slík aðstoð og/eða beinar formlegar viðræður kynnu einmitt að varpa skýru ljósi á það hvaða möguleikar eru þarna í boði. Þarna hefði verið upplagt fyrir íslenska iðnaðarráðherrann að taka jákvætt í tillögur breska ráðherrans – og þiggja boð hans um fund og upplýsingar. Þarna var sem sagt afar gott tækifæri til að þiggja boð breska ráðherrans og fastsetja viðræðufund – með það að markmiði að skýra ýmis óvissuatriði eins og t.d. raforkuverð og raforkumagn. Það varð þó ekki sú leið sem Ragnheiður Elín valdi.

Þess í stað nánast eyddi hún erindi breska ráðherrans. Því í svarbréfi sínu lét iðnaðarráðherra Íslands nægja að segja að ráðuneytið muni hugleiða boð ráðherrans. Og að hún sé tilbúin að ræða málið frekar við hentugleika – í London eða í Reykjavík eða annars staðar þar sem leiðir ráðherranna kunna að liggja saman. Af þessu má kannski álykta að það gæti sem sagt komist hreyfing á þetta mikla hagsmunamál ef iðnaðarráðherra Íslands rekst á breskan starfsbróður sinn t.d. í einhverju hanastélsboði. En það er ráðgáta af hverju Ragnheiður Elín þáði ekki boð breska ráðherrans.

Útboð Ríkiskaupa

Svo virðist sem hvorki sé raunverulegur áhugi né vilji hjá íslenska iðnaðarráðherranum til að ræða þetta mál við Breta fyrr en kannski á næsta ári (2016). Stefna íslenska iðnaðarráðherrans virðist vera sú að bíða eftir skýrslu með þjóðhagslegri kostnaðar- og ábatagreiningu á áhrifum raforkusæstrengs á íslenskt samfélag, sbr. yfirstandandi útboð á vegum Ríkiskaupa.

Rikiskaup-Saestrengur-utbod

Rikiskaup-Saestrengur-utbod

Sú umrædda skýrsla verður varla tilbúin fyrr en nú í árslok, því síðasti skiladagur hennar er 1. janúar 2016. Það er alveg viðeigandi að hrósa iðnaðarráðherra fyrir að koma a.m.k. þessari hreyfingu á sæstrengsmálið. Engu að síður er þetta ekki nægjanlega stórt skref í ljósi þeirra miklu hagsmuna sem hér er um að ræða.

Það verður áhugavert að sjá hvernig skýrsluhöfundum mun ganga að greina þjóðhagslegan kostnað og ábata af sæstreng, þegar hvorki liggur fyrir hversu mikla raforku Bretar hafa áhuga á að kaupa né á hvaða verði – og enn síður liggja fyrir upplýsingar um hvernig eignarhaldi á strengnum yrði háttað né hvað hann myndi kosta. Þetta eru allt atriði sem beinar viðræður myndu geta skýrt. Og slíkar viðræður yrðu vel að merkja einmitt viðræður – upplýsandi en án skuldbindinga. Það væri besta og skynsamasta leiðin til að fá glögga yfirsýn um málið. Í stað þess að halda bara áfram skýrsluskrifum hér heima og fabúlera um mismunandi sviðsmyndir – á meðan Bretar verja milljörðum punda í ný orkutengd verkefni.

Fleira áhugavert: