Kjarnorka – Auðgað úran til Líbýu

Heimild:  

 

Febrúar 2004

Abdul Qadeer Khan

FYRRVERANDI yfirmaður kjarnorkuáætlunar Pakistans, Abdul Qadeer Khan, sendi auðgað úran til Líbýu fyrir þremur árum og seldi Írönum hluti í kjarnaskilvindur um miðjan síðasta áratug, að því er lögregla í Malasíu greindi frá í gær.

Hefur lögreglan eftir Buhary Syed Abu Tahir, sem Bandaríkjamenn segja hafa verið milligöngumann í kjarnorkusmyglhring sem Khan hafi stjórnað, að Khan hafi beðið sig að sendi skilvindurnar frá Pakistan til Írans 1994 eða 95.

Tahir er í Malasíu og hafa yfirvöld þar yfirheyrt hann vegna starfa hans þar í landi fyrir Khan. Birti lögreglan gögn um yfirheyrsluna í gær. Hún er fyrsta frásögn innanbúðarmanns í smyglhring Khans, sem stjórnaði uppbyggingu kjarnorkuáætlunar Pakistans og játaði í síðustu viku að hafa látið Írönum, Líbýumönnum og Norður-Kóreumönnum í té kjarnorkutækni.

Tahir sagði malasísku lögreglunni að hann hefði haft umsjón með flutningum á tveimur gámum með kjarnaskilvinduhlutum frá Dubai til Íran. Voru gámarnir fluttir með írönsku fraktskipi. Í gögnum lögreglunnar segir að ónafngreindur Írani hafi greitt sem svarar rúmlega 200 milljónum króna fyrir innihald gámanna.

„Komið var með peningana í tveimur skjalatöskum sem hafðar voru í íbúð sem pakistanski kjarnavopnasérfræðingurinn gisti jafnan í þegar hann var í Dubai,“ segir í gögnum malaísku lögreglunnar, og tekið er fram að umræddur sérfræðingur sé Khan.

Tahir sagði að Khan hefði sagt sér að flogið hefði verið með „tiltekið magn“ af auðguðu úrani til Líbýu frá Pakistan í pakistanskri flugvél árið 2001, og að „tiltekinn fjöldi“ af skilvindum – háþróuð tæki sem nota má til að auðga úran til notkunar í vopn, m.a. – hefði verið fluttur flugleiðis frá Pakistan til Líbýu 2001-02.

Malasískir embættismenn segja að Tahir verði ekki hnepptur í varðhald þar sem ekki sé útlit fyrir að hann hafi brotið nein malasísk lög, en hann verði áfram undir eftirliti. George W. Bush Bandaríkjaforseti hefur sagt að Tahir hafi verið „fjármálastjóri og helsti peningaþvottamaður“ smyglhringsins sem Khan stjórnaði, en það var hann sem sá íslamska heiminum fyrir fyrstu kjarnorkusprengjunni.

Að sögn malaísku lögreglunnar verða gögn um yfirheyrsluna yfir Tahir afhent Alþjóðakjarnorkumálastofnun Sameinuðu þjóðanna í Vín, sem hefur umsjón með alþjóðlega samningnum um bann við útbreiðslu kjarnorkuvopna.

Fleira áhugavert: