Gas ferðavögnum – Kerfisbundið eftirlit?

Heimild:  

 

Júlí 2016

Engin skoðunarskylda er á gasbúnaði í ferðavögnum eða húsbílum en slíkur búnaður getur verið hættulegur ef honum er ekki viðhaldið eða leiðbeiningar virtar að vettugi. Nauðsynlegt er að koma á fót kerfi sem tryggir að eigendur láti skoða búnað sinn af og til. Það er í það minnst skoðun þingmanns og einnig deildarstjóra tæknideildar Vinnueftirlitsins.

Reykjavík Síðdegis hefur fjallað um þessi mál að undanförnu og veitt því sérstaka athygli að á meðan bremsu-, hjóla- og annars konar búnaður er skoðaður sérstaklega gildir það ekki um gasbúnað.

Fjölmargir ferðast um á húsbílum yfir sumartímann.VÍSIR/VILHELM

Eini opinberi aðililinn sem hefur í raun eftirlit með þessum búnaði á einhvern hátt er Vinnueftirlitið.  Eða hvað?

„Já og nei. Við höfum markaðseftirlit með þessum búnaði. Það er að segja, þegar hann er fluttur til landsins. Þá er það reglugerð um tæki sem brenna gasi sem við erum að fara eftir,“ útskýrir Ágúst Ágústsson, deildarstjóri tæknideildar Vinnueftirlitsins.

„Við höfum lítið eftirlit eftir að þetta er komið á markað nema náttúrulega ef þetta er á vinnustöðum. Þá höfum við ákveðið eftirlit með því.“ En um  gasbúnað í einkaeign gilda önnur lögmál.

Þyrfti ekki að vera sérstakt eftirlit með þessum búnaði? 

„Jú, ég er sammála því en þetta er svosem sett í hendurnar á eigendunum eins og svo margt annað. Eigendurnir eiga að sjá til þess að það sé farið yfir þennan búnað. Það er vert að hvetja menn til þess að gera það. Við höfum ekki sérstakt kerfi hér sem setur mönnum skorður um það að fara með þetta í eftirlit á einhverjum tímapunkti. Það myndi þá liggja hjá Samgöngustofnun, Eldvarnareftirliti eða Brunamálastofnun að gera það,“ segir Ágúst. Hann var í viðtali hjá Reykjavík síðdegis í gær. Hægt er að hlusta á viðtalið við Ágúst hér að ofan.

Ágúst segir að passa verði upp á að loftræsting í kringum búnað sem þennan verði að vera í lagi og einnig að nota verði viðurkenndar koparleiðslur eða vottaðar lagnir sem tengibúnað.

Vilhjálmur Árnason þingmaður vill gera eitthvað í eftirlitsleysinu í kringum gasbúnað.

Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hyggst beita sér fyrir því í krafti sínum sem þingmaður að gerðar verði breytingar á reglum í kringum gasbúnað.

„Ég mun gera það. Hvort sem ég þurfi að fylgja því eftir með lagabreytingu eða bara í samvinnu við viðkomandi ráðuneyti eða stofnanir. Það þaf að gera viðeigandi breytingar á reglugerðum eða verklagi,“ sagði Vilhjálmur sem var í viðtali á Reykjavík síðdegis í dag. Vilhjálmur telur vanta mikið upp á eftirfylgni ef kemur til slyss vegna gasbúnaðar og segir hann það gilda einnig önnur slys, svosem umferðarslys.

„Hvað olli þessu slysi? Hvernig hefði verið hægt að koma í veg fyrir þetta?“ Hann nefnir að það séu ýmsar rannsóknir í gangi en engar fastar skorður séu um hvernig skal fylgja úrbótum eftir sem niðurstöður rannsókna leiða í ljós að þurfi að gera. Þá nefnir Vilhjálmur að hægt væri að stuðla að  einfaldari leiðum til að auka forvarnir.

„Væri hægt að merkja þetta eins og slökkvitækin, hvenær þetta fór í skoðun og hvort þetta tæki sé ekki öruggt. Ætti ekkert að vera íþyngjandi fyrir eigandann heldur vingjarnleg áminning.“ Vilhjálmur segir löggjafann ekki hafa rætt þetta sérstaklega að sínu viti.

Þeir sem eiga gasbúnað geta látið fara yfir hann hjá umboðsaðilum. Til að mynda hjá Víkurverki, Seglagerðinni eða Útilegumanninum.

Fleira áhugavert: