Álpex – Þegar að gerviefnin komu..

Heimild:  

 

Nóvember 1999

Álpexið boðið velkomið

Það opnaðist nýr heimur fyrir lagnamenn þegar gerviefnin svokölluðu komu fram á sjónarsviðið, full ástæða til að bjóða álpexið velkomið til landsins því það bjóði upp á enn einn góðan kost í lagnamálum.

EFTIR áralangt helsi er gaman að lifa, loksins fær tækniþróun í pípulögnum að njóta sín á Íslandi. Það er víst ekki ástæða til að fara að rekja það einu sinni enn hvernig örfáum einstaklingum hefur tekist með forsjárhyggju, eða réttara sagt ofurvaldi og óréttmætu sjálfsáliti, sem auðvitað er ekkert annað en felustaður fyrir minnimáttarkennd og vanþekkingu, að halda niðri allri þróun og framförum í pípulögnum hvað varðar efnisval í meira en tvo áratugi. En þá er gusan búin, að þessu sinni. Það opnaðist nýr heimur fyrir lagnamenn þegar gerviefnin svokölluðu komu fram á sjónarsviðið og síðan inn í lagnaheiminn þegar farið var að framleiða rör og tengihluti úr plasti og fleiri gerviefnum. Það kann að hljóma eins og lítilsvirðing að tala um gerviefni, en er það alls ekki. Munurinn á gerviefnum og öðrum efnum er sá að þau sem ekki eru gerviefni finnast í frumgerð sinni í náttúrunni, s.s. járn og kopar og fleiri málmar. Plast hinsvegar er ekki til í sinni endanlegu mynd í náttúrunni heldur unnið úr öðrum efnum, þetta er að mestu afurð olíuvinnslu og aðallega framleitt úr gasi.

Plaströrin hafa marga góða kosti sem málmrörin hafa ekki, má þar nefna að þau tærast ekki á sama hátt og t.d. stálrör og eftir að tókst að framleiða plaströr sem þola bæði háan hita og mikinn þrýsting, opnuðust nýir möguleikar og skemmtilegri fyrir lagnamenn og þeirra viðskiptavini. En plaströrin höfðu ekki alla eiginleika málmröranna, stífleikinn var horfinn, þannig er ekki hægt að treysta því að plaströr haldi sér beint um langan aldur með sömu festingum og stálrör. Það kom tæknimönnum í opna skjöldu þegar þeir uppgötvuðu að plaströr eru ekki að öllu leyti þétt, súrefni getur smogið inn í gegnum rörið og sest að í vatninu sem um það rennur. Þetta getur síðan orsakað tæringu í málmhlutum kerfa, einkanlega stálofnum. Kostir felldir saman En þá fóru menn að hugsa hvort ekki mætti sameina í einu röri kosti plastsins annarsvegar og kosti málmsins hinsvegar. Þá varð álpexið til.

En hvað er þá álpexrör, það er kominn tími til að skýra það nánar. Álpexrörið er í rauninni þrjú rör í einu röri. Innsta rörið er pexplaströr, þar utan yfir kemur þunnt rör úr áli og að lokum er ysta lagið aftur plaströr, oft pexplast en stundum polyeten-plaströr, sem er sama grunnefnið og er í pexplaströrinu. Vatnið, eða hvaða vökvi sem er, rennur þá eftir pexplaströrinu sem er innst og þar með er engin hætta á tæringu á sama hátt og í stálröri, engin hætta á að ryðlitað vatn renni úr krönum að morgni. Álrörið, sem er utanum pexplaströrið, legggur tvo góða eiginleika í púkkið, gefur rörinu styrk þannig að það verður beint eins og stálrör og kemur í veg fyrir súrefnisflæði inn í vökvann sem er í pexplaströrinu.

Ysta byrðið, sem er plaströr, leggur einnig til þrjá eiginleika, einangrar að nokkru álrörið, kemur í veg fyrir að óþægilegt eða jafnvel hættulegt sé að snerta rörið vegna hita og verndar álrörið fyrir tæringu frá andrúmslofti og ýmsum efnum sem kunna að komast í snertingu við rörið. Komið til Íslands Nú eru þó nokkrir innflytjendur og verslanir farnar að bjóða álpexrör og viðeigandi tengi. Þau eru ýmist með þéttikónum og hert með róm, eða þrýstitengi sem þrykkt eru með til þess gerðri vél eins og í Mannesmannkerfinu, fer eftir því hvaða leið framleiðandinn hefur valið. Það er full ástæða til að bjóða álpexið velkomið til landsins, það býður upp á enn einn góðan kost í lagnamálum, mun fá sinn sess án þess að ýta öðrum lagnaefnum burt.

En til hvaða nota er álpexið? Það er fjölhæft lagnaefni, það hefur: hita- og þrýstiþol pexröranna og gott betur vegna álrörsins og þess vegna er hægt að nota það hvort sem er í miðstöðvarkerfi eða fyrir heitt neysluvatn. En plaströrið tærist heldur ekki þó kalt vatn renni eftir því svo það er ekki síðra fyrir kalt vatn en heitt. En eins og oft áður verða sumir kaþólskari en páfinn og nota ákveðin lagnaefni í öll möguleg lagnakerfi. Nokkur gólfhitakerfi hafa verið lögð úr álpexi sem í sjálfu sér er allt í lagi, en í gólfhitakerfi er heppilegra og þægilegra að nota plaströr, annaðhvort polyetenrör sem nefnast PEM eða polybutenrör sem nefnast PB, pexrör eru einnig góður kostur í gólfhitakerfi tæknilega séð, en alltof dýr kostur. 1. Stofnrör úr pexplasti 2. Álrör, sem gefur rörinu stífleika 3. Ysta rör, í þessu tilfelli úr polyeten plasti.

Fleira áhugavert: