Hækkandi raforkuverð og lítið framboð

Heimild:  

 

Desember 2017

Hækkandi raforkuverð og lítið framboð

Viðræður um endurnýjun orkusamning Elkem og Landsvirkjunar stóðu lengi yfir. Nú er komin niðurstaða sem ætti að tryggja rekstur járnblendiverksmiðjunnar til ársins 2029.

Ketill Sigurjónsson

Eitt­hvað erf­ið­lega gekk að ná samn­ingi um áfram­hald­andi raf­orku­við­skipti Lands­virkj­unar og járn­blendi­verk­smiðju Elkem á Grund­ar­tanga. Þarna stóðu við­ræður lengi yfir og sífellt stytt­ist í að raf­orku­samn­ingur fyr­ir­tækj­anna rynni út. En nú er loks komin nið­ur­staða í mál­inu; nið­ur­staða sem ætti að tryggja starf­semi járn­blendi­verk­smiðj­unnar a.m.k. fram til 2029.

Um leið hafa líkur auk­ist á því að innan nokk­urra ára stefni hér í það sem kalla mætti raf­orku­skort. Það eru nefni­lega horfur á því að á næstu árum verði lítið nýtt fram­boð af raf­magni, meðan eft­ir­spurnin eykst jafnt og þétt. Í þess­ari grein er athygl­inni beint að þess­ari nokkuð svo óvenju­legu stöðu, sem gæti leitt til hækk­andi raf­orku­verðs og um leið áhuga­verðra tæki­færa í orku­geir­an­um.

Raf­orkan sem járn­blendi­verk­smiðjan not­ar, er ekki að losna

Á ári hverju kaupir Elkem nálægt 1.100 GWst eða um 8% af allri þeirri raf­orku sem Lands­virkjun er að fram­leiða. Ef patt­staðan í við­ræðum fyr­ir­tækj­anna hefði dreg­ist enn meira á lang­inn, hefði það getað endað með því að járn­blendi­verk­smiðjan hefði lokað innan 2ja ára. Þar með hefði skyndi­lega orðið snöggt og mikið fram­boð af raf­magni hér strax árið 2019.

Slíkt ástand hefði haft marg­vís­leg áhrif. Að ein­hverju marki hefði þetta veikt samn­ings­stöðu bæði Lands­virkj­unar og ann­arra raf­orku­fyr­ir­tækja hér gagn­vart við­semj­endum í nýjum raf­orku­samn­ing­um. En nú er ljóst að þarna er ekki raf­magn að losna í bráð, því nú hefur verið upp­lýst að Elkem nýtti sér samn­ings­bundna heim­ild til að fram­lengja orku­samn­ing­inn um tíu ár. Sjálft raf­magns­verðið sætir svo ákvörðun gerð­ar­dóms. Sem senn mun kveða upp úr með það hvert orku­verðið skuli vera á þessu tíu ára tíma­bili; 2019-2029.

Elkem mun kaupa raf­ork­una af Lands­virkjun a.m.k. til 2029

Þar með virð­ist tryggt að Elkem mun áfram kaupa hátt í 1.100 GWst árlega af Lands­virkjun a.m.k. til árs­ins 2029. Um leið ákvað Elkem að taka áhætt­una af því að sæta nið­ur­stöðu gerð­ar­dóms um raf­orku­verð­ið. Ekki hefur verið upp­lýst hvernig sá gerð­ar­dómur er skip­að­ur.

Und­an­farin ár hefur nálægt 65-70% (!) af öllu kís­il­járni heims­ins verið fram­leitt í verk­smiðjum innan Kína og þar í landi hefur verið stór­lega offjár­fest í kís­il­járn­fram­leiðslu. Þessi iðn­aður býr því við fremur óvissar aðstæður nú um mund­ir, m.a. vegna þess að ekki er lengur eins mik­ill upp­gangur í stálfram­leiðslu og var. Í því ljósi má senni­lega vel við una að raf­orku­við­skipti Lands­virkj­unar og Elkem hafi verið fram­lengd um tíu ár.

Myndaniðurstaða fyrir járn­blendi­verk­smiðjan

Járn­blendi­verk­smiðja Elkem á Grund­ar­tanga

Teng­ing við nor­rænt mark­aðs­verð virð­ist lík­leg

Fyr­ir­fram vitum við auð­vitað ekki hver verður nið­ur­staða gerð­ar­dóms­ins um raf­magns­verðið til Elkem. Ekki er úti­lokað að kveðið verði á um hærra verð en það verð sem Lands­virkjun bauð fyr­ir­tæk­inu. Það boð hefur senni­lega hljóðað þannig að Elkem skyldi greiða nálægt því sama verð og raf­orka kostar á nor­ræna raf­orku­mark­aðnum.  Svo er mögu­legt að gerð­ar­dóm­ur­inn ákveði eitt­hvað lægra verð og/eða að verð­skil­málar verði t.a.m. tengdir afurða­verði járn­blendi­verk­smiðj­unn­ar.

Í ljósi þess hvernig raf­orku­við­skipti hafa verið að þró­ast í Nor­egi á und­an­förnum árum, sem er jú heima­land Elkem, er freist­andi að ætla að gerð­ar­dóm­ur­inn muni tengja raf­magns­verðið við nor­ræna mark­aðs­verðið, sbr. einnig nýlegur samn­ingur Lands­virkj­unar og Norð­ur­áls. Á móti kemur að járn­blendi­fram­leiðsla er alþjóð­legur iðn­aður og ef dóm­ur­inn lítur til raf­orku­verðs í þeim geira almennt gæti nið­ur­staðan orðið nokkuð óvænt.

Almennt stór­iðju­verð stefnir í 35 USD/MWst

Það er sem sagt ekki aug­ljóst hvernig gerð­ar­dóm­ur­inn mun ákvarða raf­orku­verðið til Elkem, enda ekki opin­bert hvaða for­sendur dóm­ur­inn á að miða við. Það virð­ist samt fremur lík­legt að nið­ur­staða gerð­ar­dóms­ins um orku­verðið muni leiða til veru­legrar hækk­unar á verð­inu til járn­blend­is­ins. Í ljósi þess hvernig raf­orku­verð hefur verið að þró­ast bæði hér á landi og á nor­ræna orku­mark­aðn­um, ætti nið­ur­staða gerð­ar­dóms­ins varla að verða fjarri því orku­verði sem Lands­virkjun bauð. Þarna verður m.ö.o. senni­lega tekið enn eitt skref í þá átt að raf­orku­verð hér til stór­iðju verði almennt nálægt 35 USD/MWst þegar flutn­ings­kostn­aður er með tal­inn.

Lítið raf­orku­fram­boð gæti þrýst orku­verði upp

Vegna þess hversu fáar nýjar virkj­anir eru nú í bygg­ingu hér, mun þessi þróun mála senni­lega ekki bara stuðla að hærra með­al­verði á raf­orku til stór­iðju, heldur líka verða til þess að raf­magns­verð hér til almennra not­enda þrýst­ist upp á við. Sú þróun virð­ist reyndar þegar byrjuð og er það í takt við þá sýn sem boðuð var í skýrslu sem ráð­gjafa­fyr­ir­tækið Copen­hagen Economics vann fyrir Lands­virkjun og birt var snemma á þessu ári (2017).

Hjá Lands­virkjun virð­ist reyndar álitið að of mikið sé gert úr verð­hækk­unum fyr­ir­tæk­is­ins á raf­magni gagn­vart almenna heild­sölu­mark­aðnum. Meðan aðrir virð­ast álíta verð­lagn­ingu Lands­virkj­unar „úr öllum takti við verð­lags­þróun í land­inu“. Hvað sem þessu líð­ur, þá má glögg­lega sjá í raf­orku­spá Orku­spár­nefndar og í áætl­unum um raf­orku­þörf vegna orku­skipta, að bæta þarf veru­legu magni af raf­orku inn á íslenska orku­mark­að­inn á kom­andi árum. Ef slík ný orku­verk­efni tefjast, gæti það leitt til meiri hækk­unar á almennu raf­orku­verði.

Aukin raf­orku­þörf

Sú þróun mála að raf­orku­samn­ingur Lands­virkj­unar og Elkem gildi a.m.k. til 2029 hefur tals­verða þýð­ingu fyrir íslenska raf­orku­mark­að­inn. Því nú er aug­ljóst að raf­orku­fram­boð er ekki að fara að aukast snögg­lega hér á allra næstu árum, þ.e. engin orka að losna vegna Elkem. Þetta merkir að nauð­syn­legt er að huga vel að tæki­færum til að auka raf­orku­fram­boð með hag­kvæmum og skyn­sam­legum hætti.

Ísland er ein­angr­aður raf­orku­mark­aður og ekki unnt að sækja raf­orku ann­ars staðar frá. Til að ná að mæta hér vax­andi raf­orku­notk­un, þ.e. vax­andi eft­ir­spurn, þarf því fljót­lega að reisa hér nokkrar nýjar virkj­anir eða afl­stöðv­ar. Á næstu tíu árum eða svo þarf senni­lega alls hátt í tvö þús­und GWst í við­bót inn á íslenska raf­orku­mark­að­inn. Þetta þýðir að raf­orku­fram­leiðsla á Íslandi þarf að aukast um u.þ.b. 10% á kom­andi ára­tug eða jafn­vel fyrr.

Hvert á að sækja tvö þús­und GWst?

Hluti umræddrar raf­orku mun koma frá stækk­aðri Búr­fells­virkjun og Þeista­reykja­virkjun. Þar er þó ein­ungis um að ræða um eða innan við helm­ing orku­þarfar­inn­ar. Vegna ann­arra verk­efna virð­ist Lands­virkjun einkum stefna að því að næstu virkj­anir verði Hvamms­virkjun í Þjórsá og Skrokköldu­virkjun á hálend­inu miðju.

Eftir á að koma í ljós hvort núver­andi þing­meiri­hluti og rík­is­stjórn álíti aðra kosti betri. Þar á bæ virð­ist a.m.k. sem var­lega eigi að fara í nýjar virkj­anir og þá einkum og sér í lagi á mið­há­lend­inu. Mögu­lega þarf því að finna ein­hverjar aðrar leiðir til að mæta vax­andi raf­orku­þörf á kom­andi árum en Lands­virkjun hefur stefnt að. Slíkt verður áhuga­verð og spenn­andi áskor­un, þar sem m.a. nýt­ing vind­orku gæti orðið skynsamleg lausn.

Skrokköldu­virkjun

Hvamms­virkjun í Þjórsá

Fleira áhugavert: