Óhreinsað skólp – Fer mjög víða..

Heimild:  

 

Ágúst 2013

Víða á landinu er skólpi skilað óhreinsuðu út í náttúruna samkvæmt drögum að skýrslu um vatnasvæði Íslands. Í mörgum tilvikum er óvissa um áhrif þessa en í öðrum telst vatn óheilnæmt og mengað af saurkólígerlum.

 Í fréttum RÚV í gær kom fram að allt skólp frá Selfossi rennur óhreinsað í Ölfusá. Í skýrsludrögunum sem unnin voru af Umhverfisstofnun í fyrra kemur fram að skólp fer mjög víða óhreinsað í sjó eða ár.

Á Akranesi eru aðeins 30 prósent skólps hreinsuð og aðeins 20 prósent á Grundarfirði. Á Tálknarfirði, Ísafirði og Sauðárkróki fer skólp óhreinsað í sjóinn og óvissa er um hver áhrifin af því eru. Á Blönduósi er skólp hreinsað austan árinnar en vestan hennar fer allt skólp frá íbúum, sjúkrahúsi og hóteli óhreinsað í Blönduós, þar sem eru merki um uppsöfnun lífrænna efna. Á Akureyri er engin hreinsun á íbúaskólpi og er að finna saurkólígerlamengun víða frá Krossnesi og suður í Pollinn. Áhrifin eru uppsöfnun lífrænna efna, óheilnæmt vatn og sjónmengun. Sömu sögu er að segja af Húsavík. Þó engin hreinsun sé á skólpi á Þórshöfn er það ekki talið hafa nokkur áhrif, líklega vegna þess að þar búa fáir. Óvissa eru um áhrif þess að skólp frá Vopnafirði fari óhreinsað í sjóinn en áhrifin eru engin í Neskaupsstað.

Á Egilsstöðum eru hreinsistöðvar fyrir þrjá, fjórðu hluta íbúa. Samt sýndu mælingar árið 2011 að mikið af saurkólígerlum er að finna í Lagarfljóti sem líklega stafar af lélegum rotþróm. Megin skólprás á Höfn í Hornafirði fer í gegnum svokallaða fyrsta þreps hreinsun. Þá fara nokkrar litlar útrásir beint í sjóinn. Af því óhreinsaða fer 10 til 20 prósent í Skarðsfjörð sem er á náttúruminjaskrá. Vatnið í firðinum telst óheilnæmt.
Á Hvolsvelli fer allt skólp í gegnum 2ja þrepa hreinsun og þaðan í skurð. Þrátt fyrir mikla hreinsun fannst mikil saurkólígerlamengun í skurðinum. Áhrifin eru hugsanleg mengun grunnvatns og óheilnæmt vatn fyrir búfénað. Í Vestmannaeyjum er skólp ekki hreinsað og áhrifn eru uppsöfnun lífrænna efna, óheilnæmt vatn og sjónmengun.

Engin hreinsun er á skólpi á Selfossi og í drögum Umhverfisstofnunar kemur fram að ammoníak og sarukólígerlar mælast í Ölfusá frá Kaldaðarnesi og upp að Selfossi. Óvissa eru um hver áhrifin af því eru. Við þéttbýli á Suðurnesjum er skólp almennt ekki hreinsað. Í Grindavík og Sandgerði er það ekki talið hafa áhrif. Í Garði finnst mikil saurkólímengun við Garðabryggju. Í Reykjanesbæ er sömu sögu að segja, vatnið er óheilnæmt og var sjósund til dæmis bannað á Ljósanótt í fyrra. Á Seltjarnarnesi er 81,5 prósent skólps hreinsað, restin fer í vík við Lambastaði þar sem er saurkólígerlamengun og uppsöfnun lífrænna efna.
Á Stór-Reykjavíkursvæðinu er lítið álag vegna skólps í strandsjó. Veitukerfi flytja skólp til hreinsistöðva þar sem skólpið fer í gegnun síun, sandfellingu og fitufleytingu.

Athugasemd frá Umhverfisstofnun: Stefnt er að því að leiða allt skólp frá Seltjarnarnesi í hreinsistöðvar fyrir árslok 2013. Þá er hluti skólps í Reykjanesbæ hreinsaður, þ.e. frá Njarðvík og Ásbrú, en ekki frá öðrum hluta bæjarins, þ.e. frá fyrrum Keflavík.

 

Fleira áhugavert: