Gagnaver Apple – Kolagræn

Heimild:  

 

Kolagræn gagnaver Apple

Er kolagrænan lit að finna í litrófi orkunnar? Svo mætti halda þegar skoðaðar eru fréttatilkynningar af gríðarlegri fjárfestingu Apple í gagnaverum í Danmörku.

Apple-Data-Centre-Viborg-Denmark

Apple-Data-Centre-Viborg-Denmark – Smella á mynd til að stækka

Danir eru eðlilega himinlifandi yfir fréttum af því að Apple hafi ákveðið að byggja upp geysistórt gagnaver við smábæinn Foulum (rétt hjá Viborg) á Jótlandi. Um leið var tilkynnt um byggingu annars stórs gagnavers við Athenry á vestanverðu Írlandi.

Þetta er stór ákvörðun – ekki bara fyrir Dani og Íra – heldur líka fyrir Apple. Fjárfestingin hljóðar upp á samtals 1,7 milljarða EUR (sem jafngildir um 255 milljörðum ISK).

Staðarákvörðunin viðist byggja mjög á því að umhverfisáhrif gagnaveranna verði sem minnst. Þannig á gagnaverið í Danmörku eingöngu að nýta raforku frá dönskum vindorkuverum og norskum vatnsaflsvirkjunum og þar að auki umhverfisvæna varmaveitu. Í fréttatilkynningu Apple um þessa fjárfestingu er vitnað í forstjórann, Tim Cook, og orðrétt segir í tilkynningunni: Like all Apple data centres, the new facilities will run entirely on clean, renewable energy sources from day one.

tim-cook-apple-ceo

tim-cook-apple-ceo

Ekki er hægt að komast hjá því að maður lyfti brúnum við að sjá slíka fullyrðingu. Í fréttum af ákvörðun Apple má lesa að þarna við Foulum sé spennustöð sem tryggi það að öll raforkan sem gagnaverið muni nota sé græn orka – því spennistöðin fái eingöngu raforku frá vindorkuverum og norskum vatnsaflsvirkjunum. Það er engu að síður vandséð að gagnaverið muni með þessu tengjast lokuðu kerfi sem tryggi að þar veri eingöngu nýtt græn orka.

Mest af raforkuframleiðslu Dana kemur frá kolaorkuverum. Vissulega er vindorkan þar hlutfallslega mikil. Hún er auðvitað ansið sveiflukennd, en skv. tölum frá Evrópusambandinu (ESB) nemur vindorka um fjórðungi af raforkunotkun í Danmörku. Og endurnýjanlegur hluti raforkunnar þar er alls sagður nálægt 40%. Skiptir þá mestu að auk vindorkunnar nýta dönsk orkuver mikið af lífmassa til raforkuframleiðslu.

Á Írlandi er hlutfall endurnýjanlegrar orku ennþá lægra en í Danmörku eða nálægt 20%. Sagt er að írska gagnaver Apple eigi að nýta vindorku. Það er reyndar hálfgerður blekkingarleikur, því framleiðsla vindaflstöðva er jú ansið breytileg og slík raforkuframleiðslu byggir alltaf á varafli. Sem í tilviki Írlands og Danmerkur byggist mjög á kola- og gasorkuverum.

Það er engu að síður svo að Danir framleiða mjög hátt hlutfall af raforku sinni með endurnýjanlegum hætti og Írar talsvert hátt hlutfall. Þarna hefur bæði Dönum og Írum bersýnilega tekist afar vel að kynna sig sem umhverfisvænt orku- og rekstrarumhverfi. Og sannarlega ansið súrt að Ísland skuli ekki hafa náð betur að fanga athygli Apple.

Fleira áhugavert: