Þróun lagnamála – Kæliraftur, plasthrigurinn, dælan

Heimild:  

 

Apríl 2000

Íhaldssemi er öllum í blóð borin hvort sem menn vilja viðurkenna það eða ekki, oft eru þeir sem kalla sig róttæka íhaldssamastir af öllum þegar til kastanna kemur.

Það verður ekki annað sagt en mikil og jákvæð þróun hafi orðið í lagnamálum síðustu 30-40 árin, þótt oft hafi verið farið inn á villigötur með ærnum fórnarkostnaði.

Lítum hér á þrjár nýjungar, þótt þær séu mismunandi gamlar.

Kæliraftar

Flestir þekkja miðstöðvarkerfið sem heldur á okkur hita á köldum vetrardögum, en andstæðu þess, kæliraftana, þekkja færri.

Hlutverk kæliraftanna er að kæla innihitann en hvenær höfum við þörf fyrir það hér á ísa köldu fróni?

Vissulega höfum við þörf fyrir kælingu af ýmsum ástæðum, sólarhitinn getur verið umtalsverður að sumarlagi, en ekki síður kemur of mikill hiti frá ýmsum tólum og tækjum sem við notum nú til dags og skal þar fyrst telja allar tölvurnar.

Loftræsikerfi hafa oft verið nýtt til kælingar ekki síður en til hitunar, en á undanförnum árum hefur orðið mikil aukning á notkun kælirafta og eru þeir rétt að nema land hérlendis.

Kæliraftur er vatnselement sem komið er fyrir í lofti vinnustaðar, skrifstofu, kennslustofu, skurðstofu og svo mætti lengi telja. Um þetta element rennur kalt vatn og við það kælist loftið sem um það leikur, þyngist og sígur niður, heitt loft stígur upp og kælist, þannig koll af kolli, einfalt en notadrjúgt.

Svo mikil aukning hefur orðið á notkun kælirafta, t. d. í Stokkhólmi, að þar hefur verið lagt fjarkælikerfi í miðborgina, sem dælir köldu vatni inn í byggingar til notkunar í kælirafta.

Máttugi plasthringurinn

Það eru til margar tegundir af plasti og hver tegund hefur sína eiginleika. Elsta þekkta plasttegundin hérlendis er polyeten, en Reykjalundur hóf framleiðslu á svörtum polyeten plaströrum fyrir nær hálfri öld.

Einn mikilvægur eiginleiki polyetens er að hlutir framleiddir úr því, og þar má nefna rör, leita alltaf til upphafs síns, sækja í það form sem þau voru steypt í.

Þess vegna er ekki hægt að heitvalsa múffur á rör úr polyeten þótt það sé hægt að gera við rör úr öðrum plastefnum.

Sænski röraframleiðandinn Wirsbo hefur notfært sér þessa eiginleika til að tengja pex plaströr við málmtengi. Litlum hring úr pexi (sem er polyeten) er rennt upp á pex-rör, rör og hringur þaninn í sérsmíðaðri töng, síðan er rörinu smeygt upp á málmnippilinn.

Eftir nokkrar sekúndur hefur rör og hringur dregist saman eins og þau voru fyrir þenslu og hér er komin pottþétt tenging sem þolir umtalsverðan þrýsting.

Frárennsli dælt

Frá upphafi vega hefur okkur fundist að skólp verði að renna niðurávið eftir þyngdarlögmálinu og oft leggja menn á sig mikið umstang með því að brjóta og bramla ef koma á fyrir t.d. salerni á stað þar sem ekki er frárennsli í grunni eða gólfi.

En er þetta alltaf nauðsynlegt?

Nei, aldeilis ekki. Það er hægt að fá hérlendis dælur sem tengja má við salerni, þær saxa fasta hluti og dæla frá sér um mjótt rör og hafa 5 metra lyftihæð.

Dælurnar eru algjörlega sjálfvirkar þegar skólp rennur inn í þær og það nær ákveðinni hæð fer dælan sjálfvirkt í gang og slekkur á sér þegar vatnsborðið nær ákveðnu lágmarki.

Slíkar dælur hafa verið í notkun, hérlendis sem erlendis árum saman án rekstrartruflana, en hafa samt verið ótrúlega lítið notaðar þótt oft séu þær hagkvæmasti kosturinn.

Fleira áhugavert: