Útsýnisviti Sæbraut – 110m hár

Heimild:  

 

Smella á mynd til að heyra umfjöllun

Janúar 2018

Fasteignafélagið Reitir hefur fengið góð viðbrögð við frétt Fréttablaðsins um þá hugmynd að byggja 110 metra háan útsýnisvita við Sæbraut í Reykjavík. Forstjóri Reita segir að hugmyndin hafi kviknað á fundi með Gagarín og Tvíhorfi arkitektum sumarið 2016. Hún hafi óvænt verið birt í fjölmiðlum núna og fengið meiri athygli en áætlanir um 150.000 til 170.000 fermetra byggingamagn á Kringlusvæði kynnt var í vikunni.

„Faxaflóahafnir þurfa að byggja vita við Sæbraut þar sem vitinn á Sjómannaskólanum er í hvarfi hábygginga við Skúlagötu. Það liggur fyrir, eftir því sem ég best veit, að það þurfi að byggja vita við Sæbraut. Í stað þess að byggja vita sem bara þjónar hlutverki vita og á ekki að vera neitt mikil og stór bygging þá datt okkur í hug að slá margar flugur í einu höggi og byggja þarna stóran vita,“ segir Guðjón Auðunsson, forstjóri Reita. Rætt var við hann í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun. Fyrirmyndir að vitanum eru fengnar víða að, til dæmis nálin í Seattle og sjónvarpsturnar um allan heim.Myndaniðurstaða fyrir 110 metra vita

Vilja að vitinn sýni veðrið

Meðal hugmynda er að útsýnisvitinn verði eins og risastór hitamælir og sýni hitastig hvern dag og líka sama hitastig fyrir um hundrað árum síðan. „Þannig að vitinn væri einhvers konar söguleg staðreynd um loftslagsbreytingar. Hann væri veðurviti. Hann ætti líka að spá fyrir um veður morgundagsins. Þessi tækni er öll til, þetta er ekkert nýtt,“ segir Guðjón. Þannig myndi vitinn segja sögu loftslagsbreytinga. Einnig eru hugmyndir um að neðst í vitanum verði lítill veitingastaður og jafnvel sýningarsalur.

 Margar símhringingar vegna vitans

Töluvert hefur verið hringt á skrifstofu Reita eftir að fréttin um hugmyndir um vitann var birt í Fréttablaðinu. Guðjón bendir á að í vikunni hafi Reitir gert samning við Reykjavíkurborg um byggingu á samtals 150.000 til 170.000 fermetrum af húsnæði á Kringlusvæðinu en að það verkefni hafi vakið mun minni athygli.

Engin pólitísk ákvörðun verið tekin um byggingu vitans

Ekki er ljóst hvort útsýnisvitinn eigi eftir að verða að veruleika. Guðjón bendir á að Faxaflóahafnir og Reykjavíkurborg ráði för. Samstarfsaðilar Reita hafi komið hugmyndinni á framfæri við borgaryfirvöld en að hún hafi aldrei verið tekin fyrir á pólitískum vettvangi. „Þannig að enn þá er þetta bara góð hugmynd,“ segir hann.

Hugmyndin að gefa borginni vitann eftir 25 til 30 ár

Einn liður í hugmyndinni er að Reykjavíkurborg fái vitann að gjöf eftir 25 til 30 ár. Guðjón segir að það hafi þó ekki verið reiknað í þaula hvort slíkt gangi upp. „Ég held að þetta sé viðskiptamódel sé heilbrigt,“ segir Guðjón sem telur að vitinn yrði góð viðbót við Hallgrímskirkjuturn sem er vinsæll útsýnisstaður.

Fleira áhugavert: