RG Eþíópíu – 2x520MW jarðhitavirkjanir

Heimild:  

 

Janúar 2018

Íslenska orkufyrirtækið Reykjavík Geothermal hefur samið við stjórnvöld í Eþíópíu um uppbyggingu tveggja fimmhundruð megavatta jarðhitavirkjana. Þetta eru langstærstu samningar sem Íslendingar hafa gert erlendis á sviði orkumála og skila tugmilljarða króna tekjum til Íslands á næstu árum.

Í fréttum Stöðvar 2 var rætt við framkvæmdastjóra Reykjavík Geothermal, Guðmund Þóroddsson, sem áður stýrði Orkuveitu Reykjavíkur um árabil, en innan Reykjavík Geothermal, eða RG, hefur safnast löng reynsla af jarðhitaverkefnum í um þrjátíu löndum. Samningarnir sem undirritaðir voru í höfuðborginni Addis Ababa rétt fyrir jól slá hins vegar allt annað út sem Íslendingar hafa gert til þessa í hinum alþjóðlega orkugeira.

„Afgerandi stærsta verkefni sem við höfum landað erlendis í jarðhita og virkjunum. Það er engin spurning,“ segir Guðmundur.

Eþíópía er næstfjölmennasta ríki Afríku með yfir eitthundrað milljónir íbúa og að flatarmáli tíu sinnum stærra en Ísland. Verkefnið felst í að byggja upp tvær jarðhitavirkjanir sunnan Addis Ababa, í Tulu Moye og Corbetti, sem hvor um sig verður 520 megavött.

„Hvort verkefni um sig er um það bil tvöþúsund milljónir bandaríkjadala. Þannig að þetta eru heljarstór verkefni, svona álíka stór og Kárahnjúkavirkjun, hvort um sig,“ segir Guðmundur.

Nýjasta jarðgufuvirkjun Íslendinga á Þeistareykjum bliknar í samanburðinum.

„Orkulega séð eru hvort verkefni um sig svona fimm sinnum stærra en Þeistareykjavirkjun. Og fjárfestingarlega séð heldur stærra vegna þess að það er aðeins dýrara að reisa svona í Eþíópíu heldur en á Íslandi.“

Frá fyrirhuguðu virkjanasvæði í Corbetti, suður af Addis Ababa.MYND/REYKJAVÍK GEOTHERMAL.

Hlutverk RG er ekki aðeins að rannsaka jarðhitann og semja við stjórnvöld um verkefnin, heldur einnig að finna orkukaupendur og fjárfesta.

„Við erum komnir með alla þessa þætti, búnir að fjármagna þau, búnir að ná samningum við stjórnvöld, gera rannsóknir á jarðhitanum og raunar byrjaðir aðeins á vegum og þessháttar.“

Og RG er meðal eigenda.

„Til að mynda í augnablikinu eigum hálft annað verkefnið og tæp þrjátíu prósent í hinu. Þannig að við erum stórir eignaraðilar í þessum verkefnum, já,“ segir Guðmundur.

Þetta kallar á mörghunduð íslensk ársverk og ekki bara hjá 25 starfsmönnum RG næsta áratuginn eða svo. Guðmundur nefnir samstarfsfyrirtæki eins og Jarðboranir, Mannvit, Verkís og VSÓ en einnig íslenskar lögfræðistofur og endurskoðunarskrifstofur.

„Þannig að það er heilmikið af íslenskri þekkingu sem fer inn í þessi verkefni.“

Sem þýðir miklar útflutningstekjur fyrir sölu á íslensku hugviti.

„Tugir milljarða. Það fer eftir því hversu mikið af sérfræðiþjónustunni er keypt frá Íslandi. En við sjáum einhverja tugi milljarða íslenskra,“ segir Guðmundur Þóroddsson.

Meðal þeirra sem fjallað hafa um verkefnið eru umhverfismiðillinn Green Matters, sem sagði jarðhitann mjög aðlaðandi endurnýjanlega orku á svæðinu, og Reuters-fréttastofan, sem hafði eftir forstjóra Raforkufyrirtækis Eþíópíu að þetta myndi án vafa hafa veruleg áhrif á efnahagslega velferð landsins.

Fleira áhugavert: