Orkusparnaður, nýting – Sjá Íslendingar tækifærin?

Heimild:  

 

Júní 2015

Myndaniðurstaða fyrir NevadaMusk sér tækifærin í bættri orkunýtingu

„Always be a good boy, dont ever play with guns, but I shot a man in Reno just to watch him die, when I hear that whistle blowing, I hang my head and cry“

Það gengur ýmislegt á í Reno. Eins og m.a. segir frá í ofangreindum texta ljúflingsins Johnny Cash. En heimur batnandi fer. Hér veður sagt frá því hvernig viðskiptalífið í Reno og nágrenni hefur þróast frá spilavítum til gagnavera og hátækni. Og í því efni sérstaklega horft til nýjustu frétta frá Nevada um rafgeymaverksmiðju Elon´s Musk & Tesla Motors.

Frumbyggjarnir náðu til sín spilavítaveltunni

Reno! Las Vegas! Nevada! Í huga Orkubloggarans kvikna eftirminnilegar senur úr Guðföðurnum II. Þegar Moe Greene lá á nuddbekknum og var skotinn beint í augað gegnum gleraugun sín. Eða þegar Fredo fór með Maríubænina í sinni síðustu veiðiferð á Lake Tahoe.

Fredo-killed-at-Lake-Tahoe-in Godfather-II

Fredo-killed-at-Lake-Tahoe-in Godfather-II – Smella á myndir til að stækka

Reno, sem liggur í Nevada skammt frá Lake Tahoe og fylkismörkunum að Kaliforníu, var löngum helst þekkt fyrir spilavítin sín og skyndigiftingar í anda Las Vegas. En þetta tók að breytast kjölfar Hæstaréttardóms í hinu fræga máli Bryan v. Itasca árið 1976. Því þá áttuðu indíánaættflokkar í Bandaríkjunum sig á því að þeim væri heimilt að reka spilavíti innan verndarsvæðanna. Og að það gæti orðið góð tekjulind.

Spratt nú upp fjöldi spilavíta víða á verndarsvæðum indíána í Bandaríkjunum. Fyrir vikið snarminnkaði aðsóknin að spilavítum í Reno. Og eftir því sem á leið níunda áratuginn minnkaði spilavítaveltan þar jafnt og þétt og sífellt minni nýting varð á matsölustöðum, gistihúsum og hótelum í borginni.

Gagnaver leysa spilavítin af hólmi

Afleiðingin varð sú að Renoborg varð fyrir geysilegu tekjutapi. Ennþá er þó starfrækt þar risahótelið fornfræga; Peppermill. En kannski aðallega vegna þess að hótelið hefur getað nýtt jarðvarma á svæðinu og þannig sparað sér dágóðan skilding. Það vill nefnilega svo til að Nevada er það fylki Bandaríkjanna hvar jarðhitanýting er einna mest og hagkvæmust í landinu öllu.

Godfather-Moe-Green

Godfather-Moe-Green

Um áratugaskeið hefur Nevadafylki reynt að laða til sín margvíslegan atvinnurekstur til að vinna á móti meiri samkeppni frá svæðum utan Nevada í spilavítabransanum. Þar hefur áherslan sérstaklega verið á kvikmyndageirann og tryggingafyrirtæki, sem notið hafa rausnarlega skattaendurgreiðslna frá fylkinu.

En með miklum breytingum í orkugeiranum hafa stjórnvöld í Nevada nú fundið nýja leið til að efla nýja uppbyggingu og atvinnurekstur í fylkinu. Ríkisstjórinn fékk fyrirtækið Applied Economics í Fönix í Arisóna til að gera úttekt á því hvar helstu tækifærin lægju. Og niðurstaðan var nokkuð skýr; tækifæri Nevada voru sögð fyrst og fremst felast í hagkvæmu raforkuverði og góðu flutnings- og dreifikerfi.

Með því mætti laða að margvíslegan iðnað og þjónustu sem þarf á þessu tvennu að halda. Auk þess sem unnt yrði að bjóða að öll raforkan kæmi frá endurnýjanlegum auðlindum; vatnsafli (sbr. Hoover-stíflan), jarðvarma og sólarorku. Að vísu myndi einnig þurfa að bjóða fyrirtækjum ýmsa skattalega hagræðingu. En að trygg og græn raforka á hagkvæmu verði, væri grundvallaratriði og þá ekki síst fyrir margvísleg tæknifyrirtæki og hátækniiðnað.

Microsoft, Amazon, Apple…

Skammt austur af Reno hefur nú verið sett upp sérstakt uppbyggingarsvæði sem nefnist Reno Technology Park (RTP). Þáttaskil urðu árið 2012 þegar fylkið landaði risastórum samningi við Apple um að gagnaver risi þarna í tæknigarðinum (að sjálfsögðu hvarflaði ekki að Nevada að reyna að fá til sín þarna hefðbundna stóriðju, því hún skilar jú afar fáum störfum miðað við orkumagn). Áður en Apple kom á svæðið höfðu Reno og Nevada náð að fanga athygli viðskiptalífsins og fjölmiðla með nokkrum nýjum samningum við net- og hátæknifyrirtæki eins og Amazon og Microsoft. Um þessa athyglisverðu stefnumótun hefur mikið verið fjallað, m.a. í NYT.

Frumkvöðullinn Elon Musk kemur til sögunnar

Elon Musk er frumkvöðull og viðskiptastjarna í Bandaríkjunum. Hann öðlaðist líklega fyrst verulega frægð sem einn stofnenda PayPal og svo geimflauga og-ferðafyrirtækisins SpaceX. Síðust árin hefur þó Musk verið mest áberandi við uppbyggingu á rafbílafyrirtækinu sínu; Tesla Motors. Sem smíðar glæsilega lúxusbíla sem þeytast áfram á raforkunni einni saman.

Elon-Musk-and-Tesla-Model-S-Prototype

Elon-Musk-and-Tesla-Model-S-Prototype

Og það er einmitt þessi rafbílabransi sem liggur að baki nýjasta viðskiptaævintýri Musk. Sem er stærðarinnar rafgeymaversmiðja, sem reist verður í Nevada. Og staðarvalið byggðist einmitt á þeim meginatriðum sem stjórnvöld í Nevada og Reno hafa lagt áherslu á; endurnýjanlegri orku, góðu dreifikerfi og hagstæðu rekstrarumhverfi.

Það var blanda af þessu þrennu sem varð til þess að Musk ákvað að rafgeymafabrikka Tesla skyldi risa utan við Reno. Óneitanlega hlýtur skattaumhverfið að hafa átt þarna stóran þátt. Því ívilnunarpakkinn sem Tesla þarna fékk frá stjórnvöldum, er einn sá allra stærsti í gjörvallri viðskiptasögu Bandaríkjanna!

Alls eru ívilnanirnar sem Tesla mun þarna njóta metnar á um 1.300 milljónir USD. Einungis örfá dæmi eru um stærri ívilnunarsamninga af þessu tagi til handa fyrirtækjum í Bandaríkjunum. Þar er Boeing fremst í flokki með tíu sinnum stærri ívilnunarsamning við stjórnvöld í Washingtonfylki. Önnur fyrirtæki sem líka hafa fengið svona risastóra samninga eru t.d. Nike (í Oregon) og Intel (í Nýju Mexíkó). Og auðvitað góðvinur okkar Íslendinga, álfyrirtækið Alcoa, sem fékk hátt i sex milljarða dollar ívilnunarsamning í New York-ríki.

Lykilatriðin eru betri orkunýting og sparnaður

Þannig gerast kaupin á eyrinni. En það sem er alveg sérstaklega athyglisvert við viðskiptamódelið hjá Tesla-rafgeymunum, er hvernig varan á að skapa viðskiptavinunum ágóða. Varan verður óvenjulega stórir og öflugir rafgeymar. Sem geta veitt góð tækifæri til að bæta orkunýtingu og stuðlað að orkusparnaði. Þetta er að verða sífellt ábatasamari bransi. Enda stefnir nú í að fleiri fyrirtæki feti þarna í fótspor Tesla; m.a. General Motors.

Tesla-Battery-Gigafactory-Nevada-1

Tesla-Battery-Gigafactory-Nevada

Rafgeymarnir eru einkum hugsaðir til að eigendur þeirra geti hlaðið niður raforku þegar raforkuverð er lágt. Og nái þannig í tímans rás fram umtalsverðum sparnaði – því með þessu þurfa eigendur rafgeymanna að kaupa minna af rafmagni þegar raforkuverð er hátt. Þetta getur skipt miklu máli í mörgum fleiri löndum en Bandaríkjunum. Víðast hvar á Vesturlöndum eru raforkumarkaðir með þeim hætti að raforkuverðið sveiflast oft mikið innan hvers sólarhrings. Og þess vegna getur verið ábatasamt að „hamstra“ orku á tímum þegar orkuverð er sérstaklega lágt, eins og oftast er á ákveðnum tímum sólarhringsins.

Kaupendur rafgeymanna eiga bæði að verða fjölskyldur og fyrirtæki. Og eftir því sem geymarnir stækka ennþá meira, er þess vænst að þeir geti jafnvel nýst raforkuframleiðendunum sjálfum. Til að geyma raforku og þannig auka hagkvæmni í rekstri sínum. Svo sem sólar- eða vindorkufyrirtækjum, sem fram til þessa hafa lítt getað stýrt framboði vöru sinnar, og jafnvel öðrum raforkuframleiðendum.

Íslendingar eiga erfitt með skilja orkusparnað og -hagkvæmni

Það er svolítið magnað að grundvöllur geti verið fyrir rándýra rafgeyma til þess eins að ná fram hagvæmni og sparnaði í raforkunotkun og -framleiðslu. Hvort viðskiptamódel Tesla-rafgeymanna gengur upp á eftir að koma í ljós. En það er staðreynd að viðskipti af þessu tagi, þ.e. að geyma raforku, geta skilað mikilli arðsemi. Víða um heim, sérstaklega í Evrópu, er það vel þekkt að nota ódýra raforku á næturnar til að beinlínis dæla vatni upp í miðlunarlón. Þaðan sem vatnsaflsvirkjun svo selur rafmagnið á hærra verði yfir daginn. Þetta er mikið gert í Alpalöndunum og einnig á Bretlandi.

Thorisvatn-reservoir-2

Þórisvatn

Þetta er einmitt eitt atriðanna að baki hugmyndinni um sæstreng milli Íslands og Bretlands. Að bæta nýtingu á íslenska orkukerfinu. Þar mætti jafnvel spara miðlunarlónin yfir nóttina – með því að flytja inn ódýra raforku á næturverði – og svo selja rafmagn á geysiháu verði til Bretlands yfir daginn þegar verðið er hæst. Með þessu næðist meiri hagkvæmni og aukinn arðsemi.

Hér á landi þekkjum við ekki verðsveiflur af því tagi sem gerast á raforkumörkuðum víða í öðrum löndum. Þess vegna eru margir Íslendingar sem virðast eiga erfitt með að skilja að græn íslensk orka er alls engin hrávara. Íslensk raforka er í reynd ekki bara rafmagn heldur felast í henni geysilega sérstakir eiginleikar og verðmæti. Verðmæti sem við missum af eins og staðan hér er í dag með okkar strönduðu orku. Stýranleiki vatnsaflsins veldur því að ef við hefðum aðgang að raforkumarkaði þar sem verðið er oft hátt, gætum við hagnast mikið á þessari aðferðafræði. Sem er mjög í anda Elon Musk og hugmyndar hans með rafgeymaframleiðslu Tesla.

Við eigum stærsta Tesla-rafgeymi heims

Það er ómögulegt að fullyrða hvort rafgeymaævintýri Tesla mun verði ábatasamt eða endasleppt. Þarna þarf að smíða og selja geysilegan fjölda rafgeyma til að dæmið gangi upp. Og ekki víst að það takist.

elon-musk-tesla

Elon Musk Tesla

Við hér á Íslandi þurfum aftur á móti ekki að kaupa neina Tesla-rafgeyma. Því við eigum náttúrlega rafgeyma – í formi miðlunarlóna. Það er svo undir okkur sjálfum komið hvort við viljum nýta þessa afar óvenjulegu aðstöðu okkar (Ísland býr yfir langmestri virkjaðri vatnsorku í veröldinni miðað við stærð þjóða). Viljum við helst selja megnið af raforkunni á botnverði til stóriðju? Sem svo selur afurðirnar til móðurfélaga og annarra skyldra aðila erlendis? Og þar með fara hrávöruleiðina. Eða viljum við gera stýranlegu og endurnýjanlegu raforkuna okkar að sannkallaðri eðalvöru? Hugleiðum möguleikana vandlega.

Elon Musk sér tækifærin í bættri orkunýtingu. En gera Íslendingar það?

Fleira áhugavert: