Almennt um slökkvitæki

Heimild:  

 

Almennt um slökkvitæki

 VörurHandslökkvitækjum er ætlað að slökkva eld á byrjunarstigi áður en hann vex og verður óviðráðanlegur.

Til þess að slökkvitæki komi að gagni, þurfa þau að vera ætluð til að slökkva eld af þeirri gerð sem búast má við að komi upp. Velja þarf tæki af réttri stærð, nægilega mörg til að ráða við eldinn og staðsetja þau á réttum stöðum. Tækin þurfa reglulegt viðhald og eftirlit og vera aðgengileg og rækilega merkt.

Handslökkvitæki koma því aðeins að gagni að menn kunni að nota þau. Þess vegna þarf að leiðbeina fjölskyldumeðlimum eða starfsmönnum um notkun handslökkvitækja.

Enginn ætti að leggja allt sitt traust á slökkvitækið. Fyrstu viðbrögð við eldsvoða eiga ætíð að vera þau að forða fólki úr hættu og gera viðvart um eldinn, áður en farið er að reyna að slökkva.

Slökkvitæki er í raun flaska þar sem innihaldið er undir þrýstingi eða sérstakt þrýstihylki er annað hvort staðsett innan í flöskunni eða utan á henni. Algengast er að tvö handföng séu ofan á tækjunum sem splittuð eru með pinna eða flipa. Séu þessi splitti tekin frá er hægt að kreista handföngin saman. Við það þrýstist slökkviefnið úr tækinu.

Slökkvimátturinn ræðst af efninu sem er í tækinu. Öll slökkvitæki sem seld hafa verið í landinu eftir 1998 eiga að vera rauð. Fyrir þann tíma gátu þau verið krómuð og í flestum litum regnbogans. Litur slökkvitækis segir ekkert til um innhaldið. Þess vegna er nauðsynlegt að kanna innihaldslýsingu og hvernig nota skuli tækið. Leiðbeiningar utan á tækjunum eiga að vera á íslensku. Þar skal koma fram hvernig nota skuli tækið, hvert innihaldið er og hvers konar eld því er ætlað að slökkva.

Um val og staðsetningu slökkvitækja

Best er að reyna að hafa slökkvitæki af hæfilegri þyngd miðað við líkamsburði þeirra sem eiga að nota þau. Tæki eru í raun þyngri en innihaldsþyngd þeirra segir til um. T.d. eru 5 kg. kolsýrutæki úr járni (þ.e. sem innihalda 5 kg. af kolsýru) um 18 kg. að þyngd.

Heppilegast er að staðsetja tæki þar sem fólk á leið um, t.d. nærri útgöngum, á göngum eða stigapöllum. Bil milli tækja má helst ekki vera meira en 15 metrar.

Ekki skal staðsetja slökkvitæki á bak við hurð, í skáp, í afkima, á stöðum þar sem það sést ekki eða myndar hindrun á rýmingarleið eða getur orðið fyrir skemmdum. Þótt ef til vill sé ekki beinlínis prýði að handslökkvitækjum eru þau hreinasta augnayndi miðað við brunarústir. Tækin eru öryggistæki og eiga að vera sem oftast í sjónmáli þegar gengið er um híbýli svo allir viti hvar þau eru ef nauðsynlegt reynist að nota þau.

Handslökkvitæki skal hengja upp á þar til gerðar festingar í þeirri hæð að auðvelt sé að losa tækið af festingunni. Handfang ætti að vera í 70 – 80 sm hæð frá gólfi.

Slökkvitækjum ber að koma þannig fyrir að aldrei þurfi að fara meira en 25 m frá hugsanlegum eldsupptökum til þess að ná í tæki.

Myndaniðurstaða fyrir fire equipmentMismunandi gerðir slökkvitækja

Dufttæki er hægt að nota á bruna í föstum efnum s.s. pappír, timbri og vefnaðarvöru, en einnig á brennandi vökva og rafbúnað sem straumur er á.

Duft slekkur hratt með því að trufla brunaferlið efnafræðilega. Einnig verður kæling þar sem efnahvörfin draga í sig orku. Þar að auki leggst lag af dufti ofan á efnið sem er að brenna og hindrar að það fái súrefni, og kemur þannig í veg fyrir enduríkviknun.

Duftslökkvitæki eru margreynd og sannarlega öflugustu og fjölhæfustu slökkvitækin á markaðnum þar sem þau henta á alla elda. Það er þó galli að notkun þeirra fylgir mikill sóðaskapur. Duft fer ekki bara þangað sem því er beint heldur smýgur það í öll skúmaskot, tærir málma og eyðileggur rafmagnstæki. Að auki slekkur duft illa í glóð. Röng beiting dufttækis getur breitt út eld til dæmis ef stút tækisins er haldið of nálægt eldi í feiti eða olíu. Ástæðan er sú að duftið þrýstist út af töluverðum krafti og getur þess vegna þeytt eldsneytinu í allar áttir og aukið umfang eldsins. Krafturinn er stundum nægjanlega mikill til þess að skjóta potti af eldavél. Tjón af völdum dufts er oft meira en tjón sem verður af eldi og reyk og tölur geta hlaupið á hundruðum þúsunda samkvæmt skýrslum tryggingafélaga. Dufti má líkja við gott lyf með skelfilegum aukaverkunum. Slökkvigetan og fjölhæfnin verða þó ekki véfengd.

Þar sem gaseldavélar eru er samt ráðlegt að hafa dufftæki tiltækt, annað hvort sem aðal slökkvitæki heimilisins eða lítið aukatæki í eldhúsi, einungis ætlað á gaseldinn, en hafa léttvatnstækið tiltækt á allt annað.

Þegar dufttæki eru notuð er heppilegast er að standa í 2 til 3 metra fjarlægð frá eldinum til að efnið virki rétt.

Lítil dufttæki eru mjög hentug í húsvögnum, bátum og bílum og eru mikið notuð á slíkum stöðum þar sem ekki er hætta á að duftið frjósi.

Vatns- og léttvatnstæki. Vatn og léttvatn hafa þann kost að eyða ekki súrefni né byrgja sýn við notkun. Vatn hentar vel til að slökkva eld í föstu, lífrænu efni, t.d. tré, gluggatjöldum og pappír, en hentar ekki á brennandi vökva.

Vatnsslökkvitæki eru algeng og búin að vera lengi á markaðnum, en víða er verið að skipta þeim út fyrir aðrar fjölhæfari og öflugri gerðir slökkvitækja, því vatnstæki henta aðeins á A-eld (föst efni) og geta hæglega breitt út eld ef þau eru notuð á aðrar gerðir elds eins og eld í feiti eða olíu.

Léttvatn hefur það fram yfir vatn að það má að auki nota á brennandi vökva s.s. bensín, olíu og málningu. Léttvatn smýgur betur en venjulegt vatn og kemst því betur að eldi og glóð þar sem vatn kemst ekki að, eins og t.d. í timbri og heyi.

Vatns- og léttvatnstæki er hægt að nota í nálægð rafmagns, en varast ber að nota þau á rafmagnselda nema í a.m.k. 3 metra fjarlægð. Ekki ætti að nota vatns- og léttvatnstæki þar sem hætta er á frosti nema að frostlegi sé blandað í vatnið.

Léttvatnstæki eru ekki alveg jafnokar dufftækjanna hvað fjölhæfni varðar og slökkvimátt, en hafa þann stóra kost umfram duftið að þau sóða ekkert út. Röng notkun veldur ekki heldur aukinni útbreiðslu elds.

Myndaniðurstaða fyrir fire equipmentKolsýrutæki má nota á alla elda en þau eru hentugust á olíu og aðra eldfima vökva og eld í rafbúnaði og eldhúsi. Kolsýran ryður burt súrefni og og kæfir eldinn auk þess sem hún kælir um leið.

Kolsýra slekkur ekki glóð og hentar þessvegna ekki á A-elda (pappír, tré, vefnaðarvöru o.s.frv.) nema til þess að slá á logana. Vatn verður þess vegna að koma á eftir til þess að slökkva glóðina.

Kolsýra er hreinlegt efni og skilur ekki eftir sig neinar leifar af slökkviefninu. Það er því hentugt fyrir elda í tölvum og alls kyns rafbúnaði en hentar einnig þar sem unnið er með mat og hráefni til matargerðar.

Mannslíf fyrst, eigur síðar

Handslökkvitæki henta aðeins á upphafseld, geta þeirra leyfir ekki meira. Ef eldur uppgötvast í tæka tíð er oft hægt að ráða niðurlögum hans með handslökkvitæki eða eldvarnateppi, allt eftir því sem við á hverju sinni. Láta þarf nærstadda vita af því sem hafið er. Mannslíf fyrst, eigur síðar.

Hver og einn verður að eiga það við samvisku sína hvort hann eigi að ráðast til atlögu við eld eða ekki. Allan vafa túlkar maður sér í hag, yfirgefur rýmið og lokar því á eftir sér. Það dregur úr útbreiðslu eld og reyks og skemmdir verða þar af leiðandi minni en ella.

Sé lagt til atlögu við eld þarf að tryggja að flóttaleið sé greið. Öruggast er að beygja sig aðeins því yfirleitt er hreinna og svalara loft neðar í rýminu. Halda á slökkvitækinu uppréttu og beina slökkviefninu með jafnri hliðarhreyfingu að rótum eldsins. Það fer síðan eftir stærð og gerð tækisins hve fljótt það tæmist. Það tekur sekúndur en ekki mínútur. Ef ekki tekst að slökkva eld með einu slökkvitæki er umfang eldsins okkur greinilega ofviða. Hugum því að eigin öryggi og yfirgefum vettvanginn.

Munum að reykurinn getur skaðað okkur illa. Flestir sem láta lífið í eldsvoðum látast afvöldum reykeitrunar.

Slökkvitæki sem notað hefur verið þarf að endurhlaða og yfirfara hjá fagaðila eins fljótt og kostur er. Annars er það gagnslaust. Ráðlegt er að láta yfirfara slökkvitæki reglubundið til þess að tryggja að tækið virki rétt þegar á þarf að halda.

(Tekið að miklu leyti orðrétt frá heimasíðu Brunamálastofnunar og fríblöðum Landssambands Slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna.)

Fleira áhugavert: