Hampur og menja – Svo kom „makið“

Heimild:  

 

Mars 2002

EIN af stærstu tæknilegu uppfinningum veraldar lætur ekki mikið yfir sér, svo sjálfsögð er hún í dag. Skrúfgangur er til margra hluta nytsamlegur, hann er á boltum og skrúfum, pípulagningamenn þekkja notkunargildi skrúfgangsins, þeir hafa staðið við snittvélarnar áratugum saman og snittað rör.

Þótt snittuð skrúfuð rör séu á undanhaldi fyrir annari tækni og öðrum lagnaefnum, fer því víðsfjarri að skrúfgangurinn sé ekki nauðsynlegur við röralögn og svo mun lengi verða. Enn þurfum við að skrúfa þar sem lokar eru á lögnum, mælar og önnur stjórntæki, þótt öll lögnin sé tengd með þrykkingum eða annarri tækni.

Hvenær skrúfgangurinn varð til veit sjálfsagt enginn, hann hefur eflaust uppgötvast fyrir langa löngu fyrir tilviljun eins og hjólið og fylgt mannkyninu síðan með sínu margbreytilega notagildi.

Þegar farið var að nota snittuð, skrúfuð rör kom auðvitað þörfin fyrir að skrúfgangurinn væri þéttur fyrir innri þrýstingi vatnsins, því auðvitað var notagildi röralagna fyrst og fremst til að leiða vatn frá einum stað til annars.

Austur í Asíu er löng hefð fyrir að rækta hamp sem aðallega var notaður í kaðla og ekki veitti af á dögum skútualdar. Hampurinn barst um allan heim til margvíslegra nota, hérlendis fór hann að veita hrosshárinu samkeppni til sveita, reipi voru mikilvæg við heyskap og til að flytja hverskonar klyfjar til klakks.

Hampur og menja

Fljótlega hafa menn fundið út að hampur var vænlegasta efnið til að gera skrúfgang við röralögn þéttan, en ekki var heppilegt að nota hann eingöngu, einhverskonar smurningur var nauðsynlegur, bæði til að auka þéttleikann og ekki síður sem smurefni þegar skrúfað var saman.

Lengst af var málningartegund, sem nefnist menja, notuð til að bera á hampinn og allt fram yfir miðja síðustu öld þekktist vart annað. Menja var þrælsterk málning og til margra hluta nytsamleg bæði til sjós og lands. Það var einmitt þessi mikli styrkur hennar sem gerði hana að einu leyti óheppilega til að bera á hampinn. Ef rífa þurfti niður lagnakerfi síðar meir, sem skrúfað var saman með hampi og menju, var eins gott að hafa krafta í kögglum, menjan var þá orðin eins og lím. Á sverari lögnum reyndist þrautaráðið oft verða það að grípa til logsuðutækja og hita skrúfganginn að utanverðu þar til menjan og hampurinn brunnu.

Svo kom „makið“

Það mun hafa verið upp úr 1950 sem einhverjir framtakssamir innflytjendur fóru að bjóða áburð á hampaðan skrúfgang sem sérstaklega var framleiddur til þeirra nota, hans stóri kostur var að hann festi skrúfganginn ekki eins og menjan.

Ekki leist öllum þeirrar tíðar pípulagningameisturum vel á þessa nýbreytni, töldu jafnvel að þetta væri ónýtt „mak“ eins og einhver sagði og þar að auki miklu dýrara en menjan.

En sá sem nefndi þetta „mak“ í óvirðingarskyni vissi ekki þá að hann var að búa til nýyrði sem hefur fylgt röralögnum hérlendis fram á þennan dag.

Ýmsir framleiðendur hafa reynt að framleiða þéttiefni á skrúfgang sem koma skyldi í staðinn fyrir hamp og mak en það hefur ekki lukkast nægjanlega vel. Margir þekkja það ágæta efni „teflon“ sem fáanlegt er í rúllum, en hefur ekki reynst nægjanlega öruggt, aðallega notað af grunlausum mönnum sem eru að hjálpa sér sjálfir.

Loksins lausn

En nú er komið á markað þéttiefni sem fyllilega jafnast á við „hamp og mak“ en það er spunninn, samofinn þráður úr gerviefni með innlögðu tefloni. Þessi þétting fæst upprúlluð í litlum boxum, á endanum er lítil hvöss nögl til að skera þráðinn í sundur, hann er þrælsterkur og verður ekki auðveldlega slitinn.

Framleiðsluheitið er „Loctite“ og eftir að hafa prófað „lokkinn“ rækilega er hægt að mæla með honum.

Hann gerir vinnu píulagningamannsins auððveldari og ekki síður hreinlegri. Einu skal þó ekki gleyma; það er sama þörf sem áður að hreinsa það sem út úr skrúfganginum stendur, sjálfsögð snyrtimennska sem alltof margir gleyma.

 

Fleira áhugavert: