Gaskútar – Leiðbeiningar og hollráð..

Heimild:  

 

Desember 2000

ÞAÐ er leyfilegt að hafa gaskúta innandyra á einkaheimilum, þó ekki sé nokkur vafi á að skynsamlegra væri að hafa þá úti í sérsmíðuðum skáp við einbýlishús og raðhús, en í fjölbýlishúsum eru þeir betur komnir á svölum en inni í eldhússkáp.

En þá kemur að vandamáli gaslagnar að utan og inn og það kallar á lausn strax við byggingu hússins; sérlögn frá væntanlegum gasskápi utandyra eða frá svölum að væntanlegum eldunarstað í fjölbýlishúsum.

Þetta ætti að vera svo mikilvægt að hönnuðir, byggjendur og lagnamenn ættu að gera ráð fyrir og leggja gaslagnir eftir fyrrnefndum leiðum í öllum nýbyggingum á íbúðarhúsnæði af hvaða gerð og stærð sem þau eru.

Það hlýtur að vera áhyggjuefni brunamályfirvalda að í fjölbýlishúsi kunna að vera tugir gaskúta innandyra, þær aðstæður geta komið að það yrði skelfilegt.

Hér er ekki verið að mála skrattann á vegginn, en benda á tvennt sem er mjög mikilvægt. Í fyrsta lagi að gera ráð fyrir gaseldun í hverri nýrri íbúð sem byggð verður hér eftir, í öðru lagi að vanda upsetningu á gashellum og tengingum þeirra við gaskúta svo sem mögulegt er, að það sé gert af kunnáttumönnum en ekki hengt saman af þeim sem af tilviljun er á staðnum, hver sem hann er.

Nokkur hollráð

Við gashellur á heimilum er ráðlegast er að tengja í upphafi tvo kúta frekar en einn, hvor kútur 5 kg að stærð. Á hvorn kút er settur þrýstiminnkari, sem er geysilega mikilvægt öryggistæki, sem minnkar þrýsting á gasinu oftast niður í 0,03 bör sem er mjög lágur þrýstingur, þannig á það að vera.

Fáanlegir eru tvær gerðir þrýstiminnkara; í fyrsta lagi þeir sem eru skrúfaðir á gaskútinn og í öðru lagi þeir sem er smellt á hann og óneitanlega eru þeir síðarnefndu líklega ennþá meðfærilegri og ekki síður öruggir.

Ef kútarnir eru tveir minnka líkurnar á því að verða gaslaus í miðri eldun, það kann að vera hvimleitt.

Fyrsta lögn frá gashellu getur verið úr eir eða ryðfríu stáli og deilist í tvennt með krönum sem tengjast sitt hvorum gaskút með slöngu, sérstaklega gerðri fyrir gas.

Alltaf að tryggja góða loftræsingu þar sem eldað er með gasi.

En þetta er lífsnauðsynlegt að muna; þegar farið er með tóman kút á bensínstöð til að fá nýjan, fullan kút í skiptum, má aldrei láta kút með própangasi liggja á hliðinni í bílnum, hann á alltaf að standa uppréttur og vel skorðaður svo hann geti ekki oltið

Þetta á fyrst og fremst við þegar fullur kútur er fluttur og er vegna þess að mestur hluti af gasinu í kútnum er fljótandi, aðeins efsti hlutinn er gas. Ef leki yrði á liggjandi kút kæmi úr honum fljótandi própan og þá æsist leikurinn.

Hver lítri af fljótandi própan verður að 250 lítrum af gasi og þá er bíllinn fljótur að verða eins og gasfyllt blaðra, látið það ekki gerast.

Hvernig verður gasið til?

Náttúrugas og olía eru kolvetni sem myndast hafa í jarðlögum þar sem mikið magn af plöntu- og dýraleifum hefur legið í milljónir ára.

Nærtækasta dæmið er Norðursjórinn, en fyrir um 350 milljónum ára var þetta svæði skógi vaxið land en 100 milljónum ára síðar er það orðið grunnsævi með miklum grunngróðri og fjölbreyttu smádýralífi, sem nær ekki að rotna.

Þessar lífrænu leifar verða síðan gas og olía á yfir 200 milljónum ára, en þessum mikla forða er verið að dæla upp og það tekur ekki nema 60 ár að eyða honum öllum.

Eftir 2050 verður ekkert gas og engin olía í botni Norðursjávar.

Própangasið, sem við kaupum á kútum og notum til eldunar, fellur til í olíuhreinsistöðvum, en í nágrannalöndum okkar er það náttúrugasið sem notað er til eldunar og hitunar. Það er leitt um allar byggðir á sama hátt og við dreifum heitu jarðvatni til hitunar og baða.

Gas getur myndast úr margskonar efnum; húsdýraáburði svo sem kúamykju, skólpleðju, frákasti frá matvælaiðnaði og úr venjulegu heimilissorpi og það er eimmitt að gerast hjá Sorpu.

En það er önnur saga.

Fleira áhugavert: