Er of heitt, of þurrt, of rakt..

Heimild:  

 

Júní 2002

ÞAÐ er óumdeilt að einn okkar dýrmætasti fjársjóður hér á landi er jarðhitinn. Þeir sem eldri eru muna þá tíma þegar hýbýli voru hituð upp með því að brenna kolum, koksi, olíu, mó eða kindaskán.

Hitaveita var lögð í Reykjavík innan Hringbrautar á tímum seinni heimsstyrjaldar, Ólafsfjörður var einnig frumherji í nýtingu jarðvarmana. Upp úr 1960 var gert stórátak í Reykjavík í hitaveitulögnum og fyrrnefndum orkugjöfum útrýmt með öllu.

Eftir 1970 semja flest sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu við Hitaveitu Reykjavíkur um lögn hitaveitu og sást þá vart lengur reykur úr skorsteini nema hjá heldri borgurum sem áttu arin.

Síðustu áratugi hefur mikill meirihluti þjóðarinnar búið við þægindi jarðvarmans. Þeir sem ekki eru svo heppnir fá orkuna frá vatnsorkuverum, sem enn hefur ekki tekist að bregða fyrir fæti að séu byggð, þó mikið sé lagt á sig af ýmsum hópum, pólitískum sem ópólitískum.

Varminn er ódýr og við notum hann óspart, líklega býr engin þjóð í jafn heitum hýbýlum og Íslendingar.

Allir hlutir hafa fleiri en eina hlið

En þessi óumdeildu þægindi hafa ýmsar aukaverkanir, sumar hverjar gerum við okkur ekki grein fyrir hverjar eru.

Víða í iðnvæddum löndum fara nú fram viðamiklar rannsóknir á hvaða áhrif það hefur á manninn að búa í húsum sem eru alltaf yfir 20°C heit og gott betur, einnig hvaða rakastig er okkur heppilegast og hvort mismunandi byggingarefni hafi jákvæð eða neikvæð áhrif á heilsuna.

Þeir sem standa einna fremstir í flokki þessara rannsókna eru Danir, en hérlendis er sáralitlum fjármunum varið til slíkra hluta. Ekki er þó vafi á að þær eru mjög nauðsynlegar og ekki ólíklegt að hver króna sem til slíkra rannsókna rynni skilaði sér aftur í betri heilsu.

Það eru nefnilega margar vísbendingar um að yfirhituð hýbýli, með lítilli loftræsingu og engri rakastýringu séu ekki sem heilsusamlegust, en þar kemur margt fleira til.

Hvaða vísbendingar?

Þær eru helstar höfuðverkur og þreyta og tilfinningin um að loftið sé þurrt. Oft er loftið ekki of þurrt heldur eru það of mikill hiti og óhreinindi í loftinu sem gefa þessa tilfinningu. Þessvegna er ekki víst að þessu sé hægt að bjarga með rakagjöf, stundum getur það meira að segja aukið óhreinindi í loftinu og þá er kominn á vítahringur.

Þetta á ekki aðeins við á heimilum, vinnustaðir eru oft mjög slæmir hvað þetta varðar. Þar ekki síður hefur fólk á tilfinningunni að loftið sé þurrt. Þar beinist athyglin einnig að byggingarefnum, t. d. PVC gólfefnum, sem voru mjög algeng fyrr á árum og eru víða í skrifstofum, skólum og sjúkrahúsum.

Í eldra íbúðarhúsnæði er vandamálið stundum raki í gólfum og veggjum, oft vegna þess að loftræsing er ekki nægjanleg. Eldra fólki hættir mest til að sitja í illa loftuðum hýbýlum, margir eru enn minnugir þess þegar einn versti óvinurinn var dragsúgur með tilheyrandi gólfkulda.

Ef raki nær að festast í hýbýlum er hætta á ýmiskonar lífrænum gróðri, sveppir og mygla eru ekki langt undan. Þetta mun þó vera æ sjaldgæfara sem betur fer. Allt getur þetta haft mikil áhrif á þá sem ekki eru sterkir fyrir en allir geta fundið þessar almennu vísbendingar svo sem höfuðverk og þreytu.

Eitt er ótalið en rannsóknir sýna að það eru að ekki nærri allir sem þola að vera sífellt í námunda við „pelsdýr“, en svo kalla Danir hunda og ketti.

Þeir ættu að vita hvað þeir segja um það, pelsdýrabúskapur er orðinn geysilega mikill þar í landi en ætli við hérlendis séum nokkrir eftirbátar?

Hvað er þá til ráða eftir þennan heimsendafyrirlestur?

Einfaldast að lækka hitann í íbúðinni, það bæði eykur velllíðan og lækkar kostnað. Það er engin goðgá að sitja í góðri peysu við lægri hita í vel loftræstri stofu.

Fleira áhugavert: