Skarðshlíð Vallahverfinu – Íbúðir, 500 M.kr.

Heimild:  

 

Desember 2017

Haraldur L. Haraldsson

Hafnarfjarðarbær ætlar að kaupa félagslegar íbúðir fyrir 500 milljónir á ári næstu fjögur ár. Nú um helgina verður auglýst útboð á byggingu tólf almennra íbúða sem verða í sjálfseignarstofnun sem leigjendur reka sjálfir.

Auglýst verður útboð á byggingu 12 almennra leiguíbúða nú um helgina. Hafnarfjarðarbær ætlar að fara nýja leið sem gengur út á það að leigjendurnir fari sjálfir með stjórn sjálfseignarstofnunar sem heldur utan um íbúðirnar. „Við teljum að þetta gæti orðið ákveðin fyrirmynd,“ segir Haraldur Líndal Haraldsson, bæjarstjóri Hafnarfjarðarbæjar.

 

Bærinn úthlutar leigurétti

Ákveðið þak verður á tekjum fólks sem fær búseturétt í íbúðunum og er það viðmið hærra en við umsóknir á félagslegum íbúðum. „Hugsunin er að það verði enginn framkvæmdastjóri í sjálfseignarstofnuninni, heldur að þarna verði samhentir íbúar sem sjá um reksturinn. Bærinn hefur enga aðkomu að nema þegar fólk flytur, þá skilar það leiguréttinum til okkar og við úthlutum honum á ný,“ segir Haraldur. Ríkið leggur fram 18 prósent af kostnaði við byggingu íbúðanna og Hafnarfjarðarbær 12 prósent. 70 prósent verða tekin að láni. Það lán verður svo greitt niður með leigutekjum af íbúðunum. Íbúðirnar verða í Skarðshlíð í Vallahverfinu.

Hafnarfjarðarbær hefur einnig gert samning við ASÍ um byggingu 40 almennra leiguíbúða sem byggðar verða í samræmi við lög um almennar leiguíbúðir. Ríkið og Hafnarfjarðarbær leggja fram stofnframlög vegna byggingar þeirra.

 

 Félagslegar íbúðir fyrir tvo milljarða á fjórum árum

Verulegur skortur er á félagslegu húsnæði í Hafnarfirði, að sögn Haralds. Bærinn á nú um 240 félagslegar íbúðir og keypti félagslegar íbúðir fyrir 200 milljónir á þessu ári. Samkvæmt fjárhagsáætlun, sem samþykkt var í vikunni, verður tveimur milljörðum varið til kaupa á um 60 íbúðum á næstu fjórum árum. Félagslegu íbúðirnar kaupir Hafnarfjarðarbær á almennum markaði. Fólk á biðlista eftir félagslegu húsnæði er í misjafnri stöðu. Sumt er jafnvel í vinnu og með meðaltekjur en vegna þess hversu hátt leiguverðið er, sækir það um félagslegt húsnæði, sem það á þó ekki rétt á. „Þetta er eðlileg afleiðing af því hvernig tekið hefur verið á húsnæðismálum undanfarin ár. Þetta voru um tvö þúsund íbúðir sem almenningur missti eftir bankahrun. Stór hluti þeirra sem misstu heimili sín hefur þurft að fara út á leigumarkaðinn,“ segir Haraldur. Þá séu öflug fasteignafélög sem geri tilboð í fasteignir til sölu og almenningur eigi erfitt með að bjóða hærra verð.

Vallarhverfið í Hafnarfirði er fjærst til hægri á þessari mynd. – Mynd Haraldur Guðjónsson

Fleira áhugavert: