Hugmyndahús Vatnsmýri – Framkvæmdaf. Arnarhvoll ehf

Heimild:  

 

Desember2017

Karl Þráinsson

Framkvæmdafélagið Arnarhvoll ehf., sem er nýtt verktakafyrirtæki og er meðal annars í eigu Björgólfs Thors Björgólfssonar fjárfestis, hefur undirritað samning um byggingu Grósku, nýs  hugmyndahúss á sviði Vísindagarða Háskóla Íslands í Vatnsmýrinni.

„Samningurinn um Grósku er fyrsti samningurinn sem við undirritum og bygging Grósku fyrsta stóra verkefnið sem við tökum að okkur. Það er ánægjulegt að hugsa til þess að það skuli vera uppbygging hugmyndahúss á Vísindagörðum Háskólans og jafnframt höfuðstöðvar CCP,“ segir Karl Þráinsson, forstjóri Arnarhvols. Húsið verður fullbúið 17.500 fermetrar að stærð en fyrsta skóflustungan að nýbyggingunni var tekin í febrúar á þessu ári.

Karl starfaði áður sem forstjóri Íslenskra aðalverktaka en hætti þar störfum í ársbyrjun 2016 og tók sér þá stöðu stjórnarformanns hjá fyrirtækinu. Hann segir að Arnarhvoll, sem hóf starfsemi um mitt þetta ár, muni í framhaldinu huga að öðrum stórum verkefnum víða um land og ætli sér að vera „leiðandi á verktakamarkaði í framtíðinni“.

Auk Björgólfs Thors er Arnarhvoll í eigu fagfjárfestasjóðsins GAMMA:Construo, Andra Sveinssonar, Árna Geirs Magnússonar, Birgis Más Ragnarssonar og Karls Þráinssonar.VÍSIR/GVA

Auk Björgólfs Thors er félagið í eigu fagfjárfestasjóðsins GAMMA:Construo, Andra Sveinssonar, Árna Geirs Magnússonar, Birgis Más Ragnarssonar og Karls. Andri og Birgir Már, sem hafa verið samstarfsmenn og viðskiptafélagar Björgólfs um árabil, hafa meðal annars komið að kaupum á eignum á Suðurnesjum í gegnum félagið BK eignir sem síðar var keypt af Almenna leigufélaginu, sem er í eigu sjóðs í stýringu GAMMA. Björgólfur Thor er í dag stór hluthafi í tölvuleikjaframleiðandanum CCP og fjarskiptafyrirtækinu Nova.

Áætlað er að hið nýja hugmyndahús verði tekið í notkun 2019. Húsið skiptist í margar einingar þar sem nýsköpunar- og frumkvöðlafyrirtækjum gefst kostur á að leigja aðstöðu. Þá er einnig gert ráð fyrir verslunum, kaffihúsi og annarri þjónustu á jarðhæð auk ráðstefnusalar.

 

 

Heimild:  

Febrúar 2017

Gróska, nýtt hugmyndahús í Vatnsmýri sem ætlað er að verða suðupottur nýsköpunar  og samstarfs háskóla og atvinnulífs, rís á svæði Vísindagarða Háskóla Íslands á næstu misserum. Stefanía G. Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri CCP á Íslandi, Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, tóku fyrstu skóflustunguna að nýbyggingunni í dag að viðstöddu fjölmenni.

Þegar hefur verið ákveðið að alþjóðlegi leikjaframleiðandinn CCP flytji skrifstofur sínar frá Grandagarði í nýbygginguna, sem verður að Bjargargötu 1 (áður Sturlugata 6), við hliðina á húsi Íslenskrar erfðagreiningar. Það er í samræmi við samkomulag sem fyrirtækið gerði við Vísindagarða Háskóla Íslands sumarið 2015. Með flutningunum skapast aukin tækifæri til samstarfs milli CCP og háskólasamfélagsins á sviði tækniþróunar, rannsókna og nýsköpunar.

Nýbyggingin verður alls 17.500 fermetrar að stærð á fjórum hæðum auk bílakjallara og er gert ráð fyrir að fleiri öflug fyrirtæki af ýmsum stærðum geti leigt rými þar og þróað áfram hugmyndir sínar. Á jarðhæð verður ýmiss konar þjónusta, verslanir og kaffihús auk ráðstefnusalar í hjarta byggingarinnar,  2. hæð skiptist í allmörg smærri rými, CCP verður á allri 3. hæð hússins og loks er gert ráð fyrir stórum rýmum á efstu hæð. Hönnun byggingarinnar miðast að því að auðvelt verði fyrir þá sem þar starfa að tala saman, tengjast og deila hugmyndum. Andrúm arkitektar og dkpitt arkitektar hönnuðu bygginguna. Lögð verður áhersla á umferð fótgangandi og hjólandi við þetta umhverfisvæna frumkvöðlasetur í hjarta Vatnsmýrarinnar.
Framkvæmdir við nýbygginguna hefjast á næstu dögum og samkvæmt verkáætlun er reiknað með að húsið verði fullbúið í lok árs 2018..

„Það er bæði fagnaðarefni að jafnöflugt fyrirtæki og CCP flytjist í Vatnsmýrina en ekki síður að til viðbótar eigi að reisa stærsta nýsköpunarsetur landsins, með rými fyrir fjölda smárra og stórra sprotafyrirtæki.  Það er sérstakt fagnaðarefni fyrir borgina að efla þekkingarstarfsemi og það mun Gróska sannarlega gera. Með flutningi CCP í Vatnsmýrina er gamall draumur að rætast. Þetta framsækna fyrirtæki verður jafnframt kjölfesta fyrir alls kyns sprota og nýsköpunarfyrirtæki sem fá nú bestu aðstæður til að þroskast og dafna. Gróska og efling Vísindagarða bætir samkeppnishæfni borgarinnar. Það sem skapar gott háskólaumhverfi og gott umhverfi fyrir ungt fólk er oftar en ekki það sama og skapar góða, kraftmikla og lífandi borg,“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.

Vísindagarðar Háskóla Íslands

Vísindagarðar Háskóla Íslands er félag sem er að stærstum hluta í eigu háskólans. Markmið félagsins er að skapa framúrskarandi umhverfi á lóð skólans fyrir rannsóknartengda og þekkingardrifna nýsköpun. Fyrirmyndin er sótt til nágrannalanda í austri og vestri, en útfærslan tekur mið af aðstæðum á Íslandi. Í samvinnu við fyrirtæki og stjórnvöld er ætlunin að fjölga störfum í þekkingarstarfsemi til heilla og hagsældar fyrir samfélagið.

CCP

Tölvuleikjaframleiðandinn CCP var stofnaður í Reykjavík árið 1997 og er í dag með skrifstofur í Reykjavík, Shanghai, Atlanta, London og Newcstle. Fyrirtækið framleiðir m.a. og gefur út tölvuleikinn margverðlaunaða EVE Online, sýndarveruleikaleikina EVE: Valkyrie og Gunjack fyrir PC og PlayStation 4 og gaf nýlega út framhaldsleikinn Gunjack II fyrir Daydream sýndarveruleikabúnað Google. Alls starfa rúmlega 330 manns fyrir fyrirtækið á heimsvísu, þar af rúmlega  tvö hundruð manns á skrifstofu þess í Reykjavík.

Fleira áhugavert: