Gufunesið – „Fríríki frumkvöðlanna“

Heimild:  

 

Desember 2017

Borgarráð hefur samþykkt að veita Sonik tækni ehf. og Exton ehf. vilyrði fyrir lóðum á svæði gömlu Áburðarverksmiðjunnar í Gufunesi. Er stefnt að því að á svæðinu verði einkum starfsemi sem tengist kvikmyndagerð.

Verðlaunatillaga í hugmyndasamkeppni um framtíðarskipulag Gufunessvæðisins gerir ráð fyrir að svæðið verði einskonar „fríríki frumkvöðla.“ RVK Studios, framleiðslufyrirtæki Baltasar Kormáks, og Kukl ehf. hafa nú þegar komið sér fyrir á svæðinu. Athygli vakti á síðasta ári þegar samið var við RVK Studios um kaup fyrirtækisins á fjórum fasteignum á svæðinu en markmið fyrirtækisins er að byggja upp svokallað svokallað menningar- og/eða kvikmyndaþorp.

Í umsókn Sonik um lóð á svæðinu var óskað eftir 3-4 þúsund fermetra þar sem reisa mætti 1.500-1.800 fermetra hús. Sonik er tækjaleiga sem leigir meðal annars út hljóð- og ljósabúnað í fjölmörgum verkefnum. Segir að starfsemi fyrirtækisins fari vaxandi og því sé viðbúið að fyrirtækið þurfi stærra húsnæði undir starfsemi sína.

Rauði hringurinn merkir svæðið þar sem fyrirtækin tvo hafa fengið vilyrði fyrir lóðaúthlutun.

Exton er fyrirtæki sem sérhæfir sig í leigja búnað sem tengist meðal annars kvikmyndaverkefnum og ráðgjöf því tengdu. Í umsókn fyrirtækisins til Reykjavíkurborgar segir að fyrirtækið sé í örum vexti og hafi sprengt af sér núverandi húsnæði. Óskar fyrirtækið eftir að fá vilyrði fyrir lóð sem rúmi byggingu sem er 2.500 fermetrar að grunnfleti.

Í greinargerð skrifstofu eigna og atvinnuþróunar Reykjavíkurborgar segir að starfsemi fyrirtækjanna falli vel að þróun kvikmyndaþorps í Gufunesi þar sem fyrir séu kjölfestufyrirtækin RVK Studios og Kukl.

Borgarráð samþykkti vilyrði fyrir lóðaúthlutun til beggja fyrirtækja. Gilda vilyrðin í tvö ár eftir að deiliskipulag hefur tekið gildi en unnið er að gerð deiliskipulags fyrir svæðið. Á þessum tíma geta fyrirtækin óskað eftir úthlutun lóðarinnar, ella falli það niður. Verð byggingarréttarins verður ákveðið með mati tveggja löggiltra fasteignasala þegar úthlutun lóðarinnar fer fram.

Stefnt að er töluverðri uppbyggingu á svæðinu en starfshópur á vegum borgarinnar skoðar nú til dæmis möguleikann á ylströndum við Gufunes og Skarfaklett.

Fleira áhugavert: