ALLTOF algengt er að hönnuðir og byggingaverktakar virði ekki byggingastaðal um að heitt vatn á heimilum geti ekki orðið heitara en 65°C. Staðallinn gekk í gildi árið 2003 en Magnús Sædal, byggingafulltrúi í Reykjavík, segir að svo virðist sem hann hafi farið fram hjá mörgum, bæði þeim sem hanna og byggja hús og þeim sem sjá um eftirlit með þessum aðilum. „Núna er verið að herða á því að menn fylgi þessu eftir enda er þetta dauðans alvara,“ segir hann.

Ekki er ofsagt hjá Magnúsi að heita vatnið, aðalvarmagjafi Íslendinga, sé dauðans alvara og er skemmst að minnast fatlaðs manns sem lést í sumar eftir að hann hafði skaðbrennst í sturtu á heimili sínu í Hátúni í Reykjavík. Alvarleg slys eru mun fleiri eins og rakið er á vefnum www.stillumhitann.is.

Skýrari ákvæði í staðli

Á Íslandi er algengt að vatn úr heitum krönum sé 70-75°C heitt en sums staðar er það enn heitara, jafnvel 90°C. Í umræddum byggingastaðli, ÍST 67:2003 er hins vegar krafa um að vatnið sé ekki heitara en 65°C á töppunarstað (krönum) á heimilum. Byggingareglugerðin er hins vegar ekki eins afdráttarlaus, a.m.k. ekki er varðar heimili. Í reglugerðinni segir að hanna skuli neysluvatnskerfi þannig að ekki sé hætta á húðbruna almenns notanda og að vatnshitastig í böðum skuli ekki vera svo hátt að hætta sé á húðbruna við töppunarstaði í steypiböðum og baðkerum.Skýrari ákvæði gilda um opinbera baðstaði en í reglugerðinni segir að tryggt skuli að vatn verði ekki heitara en 60°C. Þá er mælt með því að hitastýrð blöndunartæki séu notuð til þess að vatnshiti í krönum fari ekki yfir 43°C í skólum, sundlaugum, sjúkrahúsum, elliheimilum, hótelum og tilsvarandi stöðum og 38°C á barnaheimilum.

Magnús Sædal segir að þar sem í reglugerðinni sé tekið fram að staðallinn gildi hér á landi, þá gildi ákvæði staðalsins undantekningalaust. „Þú átt ekki að geta komist fram hjá því að nota eitthvað annað en þennan staðal,“ segir hann. Þetta eigi hönnuðir og byggjendur að vita, það sé fyrst og síðast á þeirra ábyrgð að fara eftir reglunum.

Kikna í hnjáliðunum

Staðallinn tók gildi árið 2003 og nú fjórum árum síðar er, að sögn Magnúsar, alltof algengt að ekki sé farið eftir honum. Algengt er að hitastýrð blöndunartæki séu sett í baðherbergi en ekki í eldhús og þvottahús, líkt og krafa er um.Í sumar sendi Magnús ásamt 13 öðrum byggingafulltrúm á Suðvesturlandi bréf til hönnuða, byggingafyrirtækja og fleiri þar sem minnt er á staðalinn og tekið fram að framvegis fái hús ekki lokaúttekt nema ákvæði hans séu virt að þessu leyti. Spurður hvers vegna staðlinum hafi ekki verið fylgt eftir frá árinu 2003 segir Magnús að það sé of algengt að töluverður tími líði frá því nýjar reglur taka gildi og þar til þær verða virkar. „Það er veikleiki í kerfinu,“ segir Magnús. Meginástæðan sé hið mikla vinnuálag sem sé bæði á hönnuðum og þeim sem hafa eftirlit með þeim.

Ástæðan fyrir því að byggingafulltrúarnir tóku við sér einmitt nú er átakið Stillum hitann og þá sérstaklega fyrirlestrar Jens Kjartanssonar, yfirlæknis á lýtalækningadeild Landspítalans. „Þegar maður sá myndirnar af fólki og heyrði hver kostnaður er við þetta, fyrir utan allar þjáningarnar, þá rann manni kalt vatn milli skinns og hörunds.“ segir Magnús. „Menn kiknuðu í hnjáliðunum.“

Þá minnir Magnús á að eigendur eldri húsa verði líka að sjá til þess að heita vatnið verði ekki of heitt og sömuleiðis að huga að viðhaldi á blöndunartækjum.

Fá að vita um hættuna

SÖLUMENN Tengis, sem er umsvifamikið í sölu á blöndunartækjum, vara viðskiptavini eindregið við að kaupa svokölluð tveggja handa blöndunartæki fyrir baðkar og sturtu, þ.e. tæki sem hafa tvo krana, annan fyrir heitt vatn og hinn fyrir kalt. Á þessu ári hefur verslunin selt 14 slík tæki en mörg hundruð tæki með hitastilli og öryggisrofa.Magnús Hjaltason, sölustjóri Tengis, segir að sölumenn verslunarinnar séu allir samstiga um að ráða fólki frá því að kaupa tveggja handa tæki, hvort sem er fyrir baðkar, sturtu, handlaugar eða eldhúsvask og er ástæðan sú að meiri hætta er á brunaslysum. Algengast er að tveggja handa tæki séu notuð við þvottahúsvaska. Með hitastýringu, t.d. við inntak heita vatnsins, er hægt að tryggja að vatnið verði ekki of heitt.

Átakið hefur haft áhrif

JENS Kjartansson, yfirlæknir á lýtalækningadeild Landspítala í Fossvogi, segir að alvarlegum brunaslysum af völdum heits vatns hafi fækkað umtalsvert frá því átakinu Stillum hitann var ýtt úr vör sl. vor. „Það er greinilegur munur, það er tilfinning okkar sem vinnum hérna,“ segir hann.Jens hefur varað mjög við að hleypa of heitu vatni inn í neysluvatnslagnir enda ekki að furða, inn á brunadeild Landspítala hafa venjulega komið 5-6 einstaklingar með alvarlega brunaáverka af völdum heits vatns.

Börnum, gamalmennum og veikburða fólki er hættast við brunaslysum af völdum heits vatns.

Á vefnum stillumhitann.is kemur fram að sá sem lendir í 80°C heitu vatni er þegar í stað kominn með þriðja stigs bruna. Barn hefur hálfa sekúndu til að forða sér undan heitu vatni og fullorðinn maður eina sekúndu. Þegar komið er niður í 50°C hefur barn 2 1/2 mínútu til að forða sér en fullorðinn maður fimm mínútur.

Í hnotskurn

» Engin nauðsyn er á því að vatn á heimilum sé heitara en 60°-65°C en það má ekki vera kaldara en 50-55°C.
» Hægt að kæla heita vatnið við inntak í hús. Stundum er það ekki hægt og þá má setja sérstaka hitastilla við hvert og eitt blöndunartæki.
» Dræmar undirtektir hafa verið við námskeiði um reglur um heitt vatn sem Orkuveita Reykjavíkur stendur fyrir.

Myndaniðurstaða fyrir burning drinkingater