Vatnsþrýstingur – Hár eða of lágur?

Heimild:  

 

Október 2002

LÆKNIR einn sagði að til væru tvær tegundir af fólki, vissulega nokkuð gróft flokkað. Í öðrum flokknum eru þeir sem ætíð eru hjá læknum kvartandi um hina og þessa krankleika, stundum sannanlegir en ef ekki þá ímyndaðir. Hinsvegar þeir sem nánast aldrei fara til lækna, ganga þó með ýmiss konar mein, stór sem smá, sinna því engu, láta sig hafa það.

Efalaust mætti búa til fleiri flokka ef grannt er skoðað, en höldum okkur við þessa tvo og yfirfærum þá á lagnakerfi í húsum eða réttara sagt eigendur þeirra.

Sá er þó munurinn þar að í fyrri flokknum, þeim sem alltaf er að leita „lækna“, eru fáir, en í hinum flokknum er mikill meirihluti húseigenda. Flestir láta hlutina „danka“, vita að margt og mikið er að, en gera ekkert meðan hlutirnir slampast.

Það er kannski að bera í bakkafullan lækinn að segja enn einu sinni að það sé aðeins tvennt sem geti rekið húseiganda til að óska hjálpar pípulagningamanns; annars vegar ískuldi, hinsvegar ökklavatn í íbúðinni einn morguninn.

Svo haldið sé áfram samlíkingunni við mannslíkamann þá er þrýstingur bæði mönnum og lagnakerfum nauðsynlegur. Blóðþrýstingur er nauðsynlegur til að næring og súrefni berist um líkamann og jafnframt úrgangsefnin til baka, en oft vill þrýstingurinn verða of mikill, þó er ekki óþekkt að hann sé of lítill.

Á sama hátt er þrýstingur nauðsynlegur í hitakerfinu sem og einnig neysluvatnskerfinu, án hans rennur ekkert vatn úr krönum.

Ef við lítum nánar á hitaveituvatnið og vegferð þess þá hefst hún einhvers staðar í iðrum jarðar í borholu á mismunandi dýpi.

Í fyrstu er þrýstingur fenginn með dælu, sem er ofan í borholunni. Sú dæla sér um að koma vatninu upp á yfirborðið. Þá taka við aðveituæðar sem eru stundum stuttar, en oft eru þær fleiri kílómetrar að lengd til að koma þessum gæðum, heita jarðvatninu, til þeirra sem eiga að nota og njóta, til þess þarf einnig dælur. Þá tekur við dreifikerfið í þéttbýli sem strjálbýli og þar eru einnig margar dælustöðvar.

Að lokum endar vegferð heita vatnsins í stórum sem smáum húsum, leiðsla kemur inn úr vegg og hver dropi er mældur og greitt eftir þeirri mælingu.

Að minnka þrýstinginn

Myndaniðurstaða fyrir waterpressureEn þá snýst dæmið við, þrýstingurinn sem hefur verið drifkraftur vatnsrennslisins er í flestum tilfellum allt of mikill til að hægt sé að láta vatnið renna óhindrað inn á hitakerfin, þá verður að minnka þrýstinginn.

Til þess eru notuð tvenns konar tæki, annars vegar þrýstiminnkari, hinsvegar þrýstijafnari. Heiti þeirra skýrir nokkuð hver munur þeirra er; þrýstiminnkarinn lækkar þrýstinginn eftir því hvernig hann er stilltur og heldur honum stöðugum.

Þrýstijafnarinn lækkar þrýstinginn einnig en lagar sig eftir því hvað kerfið krefst mikils vatns, sem er auðvitað allt annað á köldum vetrardegi en þegar sólríkt er á sumrin. Þess vegna er það þrýstijafnarinn sem er yfirleitt valinn til nota á hitakerfin.

Mjög algengur þrýstingur frá veitukerfi hitaveitu inn í hús er 4-6 bör og þá tekur þrýstiminnkarinn við og lækkar þrýstinginn, allt eftir hversu hátt húsið er, í einbýlishúsi er hann oftast lækkaður niður í segjum 1,5 bör.

En það eru til svæðisbundin vandamál sem fáir virðast gera sér grein fyrir. Á svæði Orkuveitu Reykjavíkur er þrýstingur inn í hús umtalsvert hærri í nokkrum hverfum, dæmi eru um að hann sé allt upp í 10-12 bör.

Þá vandast málið því þrýstijafnarar ráða ekki við að lækka svo mikinn þrýsting niður í það æskilega.

Afleiðingin verður oft sú að allt of mikill þrýstingur fer inn á kerfið, kannski ekki hættulega mikill þannig að ofnar séu í hættu, heldur eru afleiðingarnar aðrar.

Munur á innrennslis- og útrennslisþrýstingi kerfisins verður of mikill, ofnventlar ráða ekki við þrýstinginn, hvinur heyrist í lögnum og þó sérlega ventlum, en í vel stilltu hitakerfi á ekkert að heyrast. Þessu fylgir oft að ofnar hitna misjafnlega og hiti verður ójafn í húsum.

Á þessu er hægt að ráða bót með því að taka þrýstinginn niður í þrepum, setja upp þrýstiminnkara á inntakið á undan þrýstijafnaranum. Þrýstiminnkarinn hefur þá það hlutverk að skapa þrýstijafnaranum kjörsvið til að vinna á og þá ættu að hverfa þær aukaverkanir sem fyrr var lýst og stafa af of háum „blóðþrýstingi“.

Þegar svo mikill þrýstingur er á heita vatninu inn í húsið er sjálfsagt að setja þrýstiminnkara einnig á neysluvatnið og stilla þrýsting þess síðan sem næst því sem þrýstingur er á kalda vatninu. Eftir það vinna sjálfvirk blöndunartæki miklu betur og nákvæmar.

Fleira áhugavert: