Dauðagildrur – Engin neyðarútgangur..

Heimild:  

 

Febrúar 2003

Myndaniðurstaða fyrir fire in housesNeyðarútgangar voru læstir, neyðarútgangar voru negldir aftur, eldfim kvoða var á lofti og veggjum svo allt fuðraði upp á svipstundu, engin eldvarnartæki á staðnum.

Hvers konar upptalning er þetta, hverju er verið að lýsa? Þetta eru glefsur úr fréttum síðustu daga sem berast til okkar utan úr heimi, sem betur fer eru þetta ekki innlendar fréttir, en jafn slæmar þrátt fyrir það.

Á hverju ári berast fréttir hvaðanæva úr heiminum, aðallega frá iðnvæddari löndum, um skelfingaratburði þar sem fólk í tugatali lætur lífið eða limlestist, er nær dauða eftir að hafa lent í æðandi eldhafi.

Það kemur ekkert fyrir okkur hér uppi á Íslandi hugsum við, hér er séð fyrir öllu. Allar reglugerðirnar vernda okkur, eða er ekki svo? Er ekki rækilega sagt fyrir hvernig allir hlutar byggingar skuli vera? Er ekki rækilega fylgst með því að eftir öllum reglugerðunum sé farið?

Eru ekki margar opinberar stofnanir sem fylgjast með þessu og þar starfandi tugir eða hundruð starfsmanna sem hafa sitt lifibrauð af því að vernda sjálfa sig og aðra svo ekkert geti skaðað? Auðvitað er aldrei hægt að tryggja að ekki verði óhöpp, jafnvel slys eða dauðsföll er ekki hægt að koma í veg fyrir, en að reyna að koma í veg fyrir slíkt er sjálfsagður hlutur.

Er ekki reynt að tryggja að svo sé? Nei, því miður, svo er aldeilis ekki, dauðagildrur eru ótrúlega víða.

Undir sperrum á efstu plötu

Sú var tíðin að hús voru byggð með reisulegum þökum og voru þar herbergi undir súð, sem kallað var. Þetta voru oft hinar ágætustu vistarverur. Síðan lækkuðu þökin svo að þar varð ekki íbúðarhæft, en oftast næstum manngengt. Að lokum komu svo þessi lágu þök sem sjá má á nær öllum fleirbýlishúsum og reyndar einbýlishúsum einnig.

Fram eftir síðustu öld þótti það sjálfsagt að hafa þakglugga á öllum húsum. Það var gert til að bera inn birtu en ekki síður til að auðvelda hreinsun skorsteina og til að hægt væri að komast út á þök til eftirlits, viðgerða og málunar.

Svo hurfu skorsteinarnir, þakrýmin urðu borur sem rétt var hægt að skríða eftir og engin þörf fyrir þakgluggann að áliti þeirra sem sátu á eigin rassi í stofuhita og hönnuðu eða smelltu stimplum.

Og þannig er það í dag, þakgluggum hefur verið útrýmt og er það ekki í besta lagi? Á öllum þökum má sjá túður, í þeim eru innsogsrör fyrir frárennsliskerfi. Þessi innsogsrör eiga til að bila eins og annað og nauðsynlegt er að kanna hvort ekki sé allt í lagi með þennan búnað, því ef svo er ekki geta orðið stórskemmdir á þakinu vegna raka.

Það er hlutskipti pípulagningamanna að kanna þetta og gera við ef á þarf að halda. Troða sér upp um lítið op, skríða eftir þröngu rýma fleiri metra, draga á eftir sér ljós, efni og verkfæri ef gera á við.

Hver verða örlög þessa einstaklings ef eldur verður laus í húsinu? Á hann undankomuleið? Því er fljótsvarað, í nútímahúsi er hann dauðans matur, undankomuleið er engin, það vantar þakgluggann.

Skriðkjallari

Hvers konar orðskrípi er þetta, skriðkjallari? Þetta er orð sem ýmsir sem stritast við að sitja hafa dálæti á. Þetta eru kjallarar eða grottur sem eru undir húsum, lofthæð stundum einn til einn og hálfur metri. Stundum er þetta ein grotta, stundum einhverjir ranghalar einnig.

Slíkar grottur voru til sem jarðhýsi á miðöldum, þangað var varpað óæskilegum þegnum einvaldskónga.

Sögur segja að jafnvel íslenskir sýslumenn hafi geymt fanga vetrarlangt í slíkum kompum, sumir fengu víst að grotna þar lifandi.

En nútíma skriðkjallarar eru ætlaðir iðnaðarmönnum til að starfa í, aðallega pípulagningamönnum og rafvirkjum. Niðri í þessum grottum eru oft hjörtu, lungu og lifur lagnakerfa þeirrar byggingar sem ofar stendur. Þar uppi er eflaust bjart og fínt, menn ýmist sitja þar við verk sín eða standa keikir, ekki vantar lofthæðina þar. Hitinn er hæfilegur, loftið sem fyllir lungun tært og gott, þar uppi líður öllum vel.

Yfirleitt er aðeins eitt op niður í grotturnar, það stórt að hægt sé að koma þangað tækjasamstæðum, verkfærum og mönnum til að vinna þar niðri, útgangur annar fyrirfinnst ekki.

Ekki er það óalgengt að yfir þessum skriðkjöllurum sé höndlað með ýmiss konar hættulegan varning, jafnvel eldfiman varning.

Hvað skeður ef eldur verður laus á slíkum stað og einhver er í grottunni? Því er fljótsvarað, í nútímahúsi er hann dauðans matur, undankomuleið er engin, það er aðeins ein leið niður í grottuna eða upp úr henni og við eldsvoða engin.

En hefur nokkur misst lífið við slikar aðstæður sem að framan er lýst? Ekki er hægt að benda á það.

Nú, þá er allt í himnalagi? Jú, eftir íslenskum hugunarhætti er það svo.

Sitji menn þá áfram á sínum rassi og hanni og stimpli, engin ástæða til að hlusta á óra móðursjúkra öldunga.

Fleira áhugavert: