Fjölbýliskjarnar – Frakkastígs, Tryggvagötu, Jaðarleitis

Heinild:  

 

Nóvember 2017

Gífurlegar framkvæmdir í uppbyggingu íbúða hafa staðið yfir undanfarið og er afraksturinn loks að líta dagsins ljós. Fasteignasölur hafa undanfarna daga auglýst sölu á íbúðum á byggingarreitum FrakkastígsTryggvagötu og Jaðarleitis.

Frakkastígur

Framkvæmdir við Frakkastíg hafa staðið yfir í þónokkurn tíma, en Vísir greindi frá því árið 2014 að stefnt væri að byggingu tæplega 70 íbúða, verslana og skrifstofuhúsnæðis. Fasteignasölurnar Eignamiðlun og Borg auglýstu á dögunum 67 litlar og meðalstórar íbúðir til sölu á reitnum sem munu tengjast skjólgóðum, lokuðum garði. Byggingar íbúðakjarnans munu koma til með að snúa að Laugavegi, Frakkastíg og Hverfisgötu. Um er að ræða tveggja, þriggja og fjögurra herbergja íbúðir sem verða á bilinu 56,5 fermetrar og allt upp í 178 fermetra. Verð íbúðanna er frá 40,9 milljónum króna. Gert er ráð fyrir afhendingu íbúðanna í febrúar 2018.

Tryggvagata hefur tekið á sig nýja mynd.

Greint var frá því árið 2014 að við hlið Borgarbókasafns Reykjavíkur, Tryggvagötu 13, yrði byggð sex hæða bygging sem innihéldi verslunar- og þjónustuhúsnæði á fyrstu hæð, auk íbúða og skrifstofurýmis á efri hæðum. Með umsjón sölu þessara nýbyggðu íbúða fara fasteignasölurnar Fjárfesting og Eignamarkaðurinn. Um er að ræða 38 íbúðir í húsinu, allt frá 55 fermetra stúdíóíbúðum upp í rúmlega 160 fermetra íbúðir. Útsýni er yfir borgina til suðurs og til sjávar að norðanverðu.

Áður en bygging íbúðakjarnans hófst var lóðin í eigu RÚV.

Vísir greindi frá því árið 2014 að RÚV hefði selt byggingarrétt á lóð við Efstaleiti 1. Kom þar fram að áætlaður ávinningur sölunnar væri einn og hálfur milljarður króna. Þessar íbúðir eru nú töluvert langt komnar í byggingu og er áætlað að afhending þeirra fari fram sumarið 2018. Um er að ræða 60 til 148 fermetra íbúðir í Jaðarleiti 2-6. Stór hluti íbúðanna er tveggja til þriggja herbergja og er kaupverð frá 43,4 milljónum. Fasteignasölurnar Borg, Eignamiðlun og Torg fara með umsjón yfir sölu íbúðanna.

 

 

Fleira áhugavert: