Hvernig má spara heita vatnið?

Heimild:  

 

Maí 2003

Ef það er komið sumar og sól þá liggur í augum uppi að það er hægt að spara heita vatnið. Tæplega þurfum við að hita hús okkar jafnmikið í 15° hita eins og í 5° frosti.

Að sjálfsögðu ekki.

Hins vegar er það þversögn á tímum hinna fullkomnu sjálfvirku hitastýringa að halda því fram að þrátt fyrir þá miklu tækni sé það samt svo að hættan á sóun á heitu vatni er aldrei meiri en yfir sumarið.

Þetta krefst auðvitað nánari skýringa, skýringa á mannamáli en ekki einhverju uppskrúfuðu hundleiðinlegu tæknimáli.

En fyrst svolítil upprifjun á því hverskonar stýritæki við notum til að stýra hitanum í húsinu og þar með hvað við eyðum miklu af heitu vatni til að ná þeim hita að okkur líði vel, hitum hvorki of né van.

Ofnakerfi eru algengasti hitagjafinn svo við göngum út frá því að við séum að ræða um ofnakerfi. Hitastýring á ofnum er ýmist með svonefndum túrlokum, sem stýra hitanum eftir lofthita í herberginu eða hvaða rými sem ofninn er í, eða retúrloka, sem stýrist eftir hitanum á vatninu sem út af ofnunum rennur.

Auk þess setjum við svokallaða þrýstijafnara á inntak hitaveitunnar til að geta ráðið því hve þrýstingur vatnsins inn á ofnana á að vera meiri en þrýstingurinn út af þeim.

Ef þrýstingurinn er jafnmikill út sem inn rennur ekkert vatn um ofninn, ekki frekar en í algjörlega láréttum skurði. Því meiri sem þrýstingsmunurinn er því meira rennur í gegnum ofninn alveg eins og það rennur meira og meira vatn eftir skurðinum eftir því sem hallinn eykst.

Þetta eru þau nauðsynlegu tæki sem verða að vera í hverju ofnakerfi til að það hitni og ekki síður að það renni ekki meira vatn um kerfið en nauðsyn krefur.

En hver er nauðsynin? Við getum skýrt það þannig að vatnið á ekki að renna hraðar um ofninn en svo að það nái að kólna eins mikið og mögulegt er á vegferðinni, en þó nægilega hratt til að gefa okkur nægan varma til þess að okkur líði vel.

Þessvegna stillum við þrýstijafnarann á þann þrýstingsmun að rennslið sé nægilegt en ekki meira.

En nú kemur vorið og þá er eins gott að muna eitt. Við þurfum ekki eins mikinn þrýstingsmun yfir sumarið, hættan á að vatnið renni of hratt í gegnum ofninn eykst eftir því sem hlýrra er í veðri.

En hvað um þessa ágætu sjálfvirku ofnkrana, eiga þeir ekki að sjá um að loka þegar umbeðnu hitastigi er náð? Séu þeir í lagi gera þeir það, en það getur orðið sóun ef of hratt rennur, þeir loka ekki fyrr en of heitt vatn er farið að renna út af ofninum, þetta getur gerst þó allt sé rétt stillt og kerfið í lagi.

Eftir talsverðu að slægjast

Niðurstaðan er þessi.

Það er eftir talsverðu að slægjast að minnka þrýstingsmuninn inn og út af kerfinu, það er gert á þrýstijafnaranum. Þótt þeir séu ekki allir eins má gefa hér smáábendingu. Hafi hann verið stilltur á 1,5 í vetur getur það sparað talsverða peninga að lækka þá stillingu niður í 1 eða jafnvel lægra.

Ef of mikið er lækkað verður kannski ekki nógu heitt í húsinu og það er ekkert stórslys þegar þessi árstími er kominn, það má hækka aftur. Svo eru það ofnkranarnir. Það var búið að nefna þessar tvær tegundir, túrkrana og retúrkrana.

Á þeim degi sem þessi orð eru felld á skjá er glampandi sól og heitasti dagur ársins enn sem komið er, 15°C, alltént í Þorlákshöfn.

Þá er freistandi að sitja úti á palli og láta sólina verma sig, garðdyrnar standa opnar allan daginn, nema hvað.

En þá skal gæta að einu. Ef það eru túrlokar á ofnunum sem stýrast efir lofthitanum fara þeir að vinna, opna og láta vatnið streyma. Það er mjög eðlilegt því í vetur áttu þeir að halda 22° hita inni. En nú streymir þetta heilnæma 15° heita loft inn um allt hús og ofnlokarnir opna, þeir spyrja ekki um aðstæður, aðeins hitastig.

Þetta kennir okkur þá lexíu að á slíkum degi á að lækka stillingu á öllum túrlokum þegar allt stendur upp á gátt.

En munum samt að hækka stillinguna aftur þegar kvöldkulið kemur, annars má búast við að kalt verði í húsinu næsta morgun.

En „gamli vagnjálkurinn“ retúrlokinn, hvað um hann? Hann vinnur sitt verk sumar, vetur, vor og haust, heldur sínu striki hvað sem tautar og raular. Hann hélt alltaf sama hitastigi á vatninu sem rann út af ofninum í vetur og tryggði þannig að nægjanlegur hiti var í húsinu. Það gerir hann þó einnig þegar hitinn úti er 15°, því miður. Þess vegna er nauðsynlegt að lækka stillingu hans þegar þetta langt er liðið á vorið.

Breytið því ekki aftur fyrr en í byrjun september, eða þegar þörfin kallar.

Fleira áhugavert: