Lyklafellslína – Áhætta með vatnsból?

Heimild:  

 

Smella á mynd til að heyra umfjöllun

Júlí 2017

Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands munu kæra veitingu framkvæmdarleyfis fyrir Lyklafellslínu sem Hafnarfjarðarbær og Mosfellsbær hafa gefið. Eydís Franzdóttir, stjórnarmeðlimur samtakanna, segir áhættutöku Landsnets með vatnsból höfuðborgarsvæðisins með ólíkindum.

Lyklafellslína, sem áður hét Sandskeiðslína, er háspennulína sem fyrirhugað er að leggja milli tengivirkja við Sandskeið og í Hafnarfirði. Landsnet hefur óskað eftir framkvæmdaleyfi frá fjórum nærliggjandi sveitarfélögum og hafa tvö nú þegar veitt leyfið, Hafnarfjörður og Mosfellsbær.

Hér eru um að ræða Hamraneslínur 1 og 2 en þær verða fjarlægðar þegar ný Lyklafellslína kemur. Ljóst er að gríðarmikil framkvæmd er í kringum slíkt háspennumastur, það þarf að leggja vegi, leggja vinnuplön og sprengja þarf fyrir undirstöðum. Nú, svo þarf líka stórar vinnuvélar, steypuvélar og svo krana, til að reisa mastrið.

Hér má sjá vatnsverndarsvæði höfuðborgarsvæðisins, dökku blettirnir eru brunnsvæði sem er næsta nágrenni vatnsbóls. Afmarkaða svæðið er kallað grannsvæði en þar er samkvæmt reglugerð bönnuð notkun á hættulegum efnum líkt og olíu og bensíni. Áætlað er að Lyklafellslína muni koma þvert yfir vatnsverndarsvæðið. Ef skoðaðir eru vatnsstraumar á svæðinu má sjá að vatnið streymir frá línustæðinu og beint til brunnsvæðanna.

„Það er alveg með ólíkindum að það séu ekki aðrir möguleikar skoðaðir heldur en þetta til þess að færa hamraneslínu, það er ekki búið að skoða það a leggja hamraneslínu í jörðu eða færa hana til þar sem hún hamlar byggð heldur á bara að ráðast í þessa framkvæmd. Og til viðbótar við það þá hafa fallið dómar sem falla á því að matsskýrsla suðvesturlína, sem þessi framkvæmd fellur undir, sé háð slíkum annmörkum að framkvæmdaleyfi verði ekki reist á henni.“

Vatnið það dýrmætasta sem við eigum

Fram kemur í áhættumati frá verkfræðistofunni Eflu að mesta hættan sé af hugsanlegri olíumengun. 50% líkur séu á að leki verði úr einu af jarðvinnutækjum eða úr einu af smærri tækjum.

Eydís segir að það sé einum of mikið að taka áhættu með vatnsból. „Mér finnst það alveg ótrúlegt og það að það skuli enginn hafa eftirlit með vatnsverndarsvæðunum. Mér finnst vatn vera eitt af því dýrmætasta sem við Íslendingar eigum, við höfum státað okkur af því að eiga hreint vatn og hreinasta vatn í heimi. Það eru alveg hreinar línur að við kærum þessi tvö línur til úrskurðarnefndarinnar og lengra ef á þarf að halda.“

Landsnet þáði ekki boð fréttastofunnar um að tjá sig um málið. Steinunn Þorsteinsdóttir, upplýsingafulltrúi Landsnets, sagði í hádegisfréttum í gær að á þessu stigi séu til staðar skilyrði fyrir útgáfu framkvæmdaleyfis fyrir Lyklafellslínu og því hafi Hæstaréttardómur sem féll í febrúar engin áhrif á fyrirhugaðar framkvæmdir

 

Sækja um framkvæmdaleyfi fyrir Lyklafellslínu

Hafnarfjörður og Mosfellsbær hafa veitt Landsneti leyfi til framkvæmda við Lyklafellslínu 1. Línan á að liggja við grannsvæði vatnsbóla höfuðborgarsvæðisins.

Lyklafellslína, sem áður hét Sandskeiðslína, er háspennulína sem fyrirhugað er að leggja milli tengivirkja við Sandskeið og í Hafnarfirði. Hún liggur því frá Mosfellsbæ að álverinu í Straumsvík. Línan mun liggja um fjarsvæði og grannsvæði vatnsbóla höfuðborgarsvæðisins og einnig nærri brunnsvæði fyrirhugaðs vatnsbóls í Mygludölum. Línan er forsendan fyrir niðurrifi Hamraneslína 1 og 2 sem liggja nálægt byggð.

Steinunn Þorsteinsdóttir, upplýsingafulltrúi Landsnets, segir að óskað hafi verið eftir framkvæmdaleyfi frá öllum nærliggjandi sveitarfélögum. Mosfellsbær og Hafnarfjarðarbær hafa nú þegar veitt leyfið og er búist við því að Kópavogur og Garðabær geri slíkt hið sama á næstunni enda hafi sveitarfélögin þrýst á um framkvæmdina.

Fram kemur í niðurstöðu Hæstaréttar frá því í febrúar um umhverfismat fyrir Suðurnesjalínu 2 að matið sé ófullnægjandi þar sem kostir jarðstrengja hafi ekki verið kannaðir. Það mat er hluti af heildarmati á Suðvesturlínum og því var Lyklafellslína grundvölluð á þessu sama umhverfismati. Steinunn segir að á þessu stigi séu til staðar skilyrði fyrir útgáfu framkvæmdaleyfis fyrir Lyklafellslínu og því hafi hæstaréttardómurinn engin áhrif á fyrirhugaðar framkvæmdir. Það eigi þó eftir að koma í ljós.

Fleira áhugavert: