110 milljarða í arðgreiðslur 2020-2026

Heimild: 

 

Smella á mynd til að heyra umfjöllun

Nóvember 2017

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, segir að Landsvirkjun geti greitt 110 milljarða króna í arð til ríkisins á árunum 2020 til 2026. Fjárhagslegur styrkur fyrirtækisins hafi aukist á síðustu árum og arðgreiðslugetan sé um tíu til tuttugu milljarðar á ári.

Haustfundur Landsvirkjunar verður haldinn í dag. Þar verður meðal annars greint frá því hver áhrif loftslagsbreytinga hafa verið á orkuvinnslu og nýtingu íslenska kerfisins, hversu eftirsótt endurnýjanleg orka er orðin um allan heim og hvernig nýta má hana á sjálfbæran hátt.

Hörður Arnarson var gestur Morgunútvarpsins á Rás2 í morgun. Hann segir að fjárhagslegur styrkur fyrirtækisins hafi verið að aukast. Síðustu sex ár hafi megináherslan verið að greiða niður skuldir. Þær hafi verið greiddar niður um hundrað milljarða á síðustu árum og fjárfest fyrir aðra hundrað án þess að taka lán. Hörður segir að arðgreiðslugeta Landsvirkjunar séu um tíu til tuttugu milljarðar á ári, sem sé háð fjárfestingum í nýframkvæmdum. „Það sem mun hafa mikil áhrif á arðsemina er að við erum að fá tvær nýjar virkjanir í rekstur, sem koma í rekstur seinna á þessu ári og svo á næsta ári. Skuldir voru ekki auknar á sama tíma, það voru engin lán tekin. Þannig að þær koma inn, munu byrja að framleiða orku fyrir nýja viðskiptavini og bara hagvöxtinn í samfélaginu, en það er enginn kostnaður á móti,“ segir Hörður.

Hörður segir að andrúmsloftið hafi breyst hvað varðar stóriðju á síðustu árum. Það sé aukin andstaða meðal almennings en þá sé mikilvægt að horfa á fjölbreytileikann. Nýjir stórnotendur hafi verið að koma inn, til að mynda kísilmálmverksmiðjur og þá sé mikil eftirspurn eftir orku frá gagnaverum. Hún hafi tvöfaldast eða þrefaldast upp á síðkastið og það sé meiri eftirspurn heldur en við náum að anna.

Fleira áhugavert: