Er ráðlegt að handlaginn lagfæri sjálfur?

Heimild:  

 

Október 2003

Handlagin

HVER hefur ekki mátt þola slíkt í nokkra daga, vikur eða þaðan af lengri tíma. Það tekur á taugarnar að heyra þetta reglubundna dip, dip þegar dropinn dettur í stálvaskinn í eldhúsinu. Hálfu verra að hlusta lungann úr nóttunni á sífrandi rennslið í klósetti, rennsli sem hefur engan tilgang annan en þann að pirra þann sem á hlustar.

Reyndar er sú þjóðsaga til að hvergi sé þetta algengara en heima hjá pípulagningamönnum, þessi saga ekki seld dýrari en hún var keypt.

Er þetta nokkuð óeðlilegt, vilja menn endilega fara að halda áfram með sitt starf þegar heim er komið?

Tæplega fer dómarinn, kominn heim í sitt rann, að setja rétt yfir konu og börnum eða sálfræðingurinn að kafa í sálardjúp fjölskyldunnar rétt fyrir háttinn.

Er ekki best fyrir sálartetrið að skipta algerlega um ham eftir erfiðan vinnudag og fást við eitthvað allt annað en amstur dagsins hafði í farteskinu?

Væri ekki upplagt fyrir dómarann að gera við leka kranann eða sálfræðinginn að stöðva sírennslið í klósettinu?

Próf og löggildingar

Það úir og grúir í öllu þjóðfélaginu af lögum og reglum sem mæla svo fyrir að ekki megi nema ákveðnar persónur sinna þessu og þessu starfi. Að baki slíku leyfi liggur yfirleitt skólaganga, próf og ýmiss konar leyfisbréf og löggildingar.

Þetta er stundum mjög afgerandi, það flýgur enginn Boeing-flugvél nema flugmaður með próf og skilríki, það túlkar enginn í rétti nema löggiltur dómtúlkur, þannig mætti lengi telja.

Hins vegar getur hver sem er orðið alþingismaður, ráðherra eða forseti lýðveldisins, til þeirra starfa er hvorki krafist prófa né leyfisbréfa.

En hvað eigum við að ganga langt í því að spyrna gegn því að handlagni heimilisfaðirinn og ráðagóða húsfreyjan bjargi sér sjálf í að gera við það sem á bjátar á heimilinu?

Eitt er víst; ef þeir sem eru með prófskírteini og löggildingar upp á vasann og ætla að treysta á það sem einu ástæðuna til þess að til þeirra sé leitað sem fagmanna, ættu þeir hinir sömu að athuga sinn gang.

Þau eiga það skilið, þau handlagin og ráðagóð, að þeim sé kennt að bjarga sér með þessi smáatriði sem pirra alla og enginn fagmaður fæst til að lagfæra.

Lítum fyrst á það sem fyrr er sagt, leka kranann og sírennslið í klósettið.

Ef á heimilinu er gamla góða blöndunartækið, með handfangi fyrir bæði heitt og kalt vatn, þá skiptir enginn um pakkningu í slíku tæki, ekki lengur. Handfangið er tekið af, spindillinn skrúfaður úr tækinu með pakkningu og öllu saman og nýr spindill settur í staðinn, handfangið á aftur.

Ef sírennsli er í klósettinu er keyptur nýr innrennslisventill eða nýr fallventill og skipt um.

Ef ofninn hættir að hitna er hausinn, eða hitaneminn sem við köllum svo á fagmáli, tekinn af. Til þess þarf kannski sexkantlykil, töng eða ekkert nema berar hendur. Þar fyrir innan birtist tittur sem þarf að liðka, stundum að taka pakkdósina úr og liðka innri spindilinn. Síðan er allt sett saman og ofninn fer að hitna.

Fagmaðurinn

Vatnslásinn lekur undir eldhúsvaskinum, þá þarf að kaupa nýjan plastlás, saga hann til svo hann passi og setja í stað þess gamla.

Slöngukraninn lekur í þvottahúsinu, þá þarf að kaupa nýjan slöngukrana, kúluloka án hefðbundinnar pakkningar og skipta um.

Ekki kaupa kefli með teflonbandi, það lukkast ekki vel til þéttingar. Í þess stað er best að nota þráð, sem er nýlega kominn á markað, hann er gerður úr trefjum og tefloni, ígildi hampsins og maksins og vel það.

En það gildir eitt óyggjandi um næstum allt af því sem hér hefur verið talið upp að framan.

Það þarf leiðsögn til þessara verka.

Fagmaðurinn, pípulagningamaðurinn, ætti að boða húseigendur á sinn fund og kenna þeim að vinna þessi einföldu verk. Sé það ekki gert geta orðið slæm óhöpp, vatn flætt um gólf og fleira óþægilegt.

Um leið uppfræðir fagmaðurinn húseigandann um hvernig hann á að skilja sín lagnakerfi, fylgjast með þeim með sjón og heyrn.

Þá veit hann hvenær hann á að kalla fagmanninn á vettvang, báðum til hags.

Fleira áhugavert: