Hvar á að loka fyrir heita og kalda vatnið?

Heimild:  

 

Ofninn sprunginn og vatnið fossar

Október 2003

Image result for radiator leakSkyndileg óhöpp, sem ekki gera boð á undan sér, eru ákaflega óþægileg upplifun, þó misjafnlega slæm.

Hugsum okkur að Jón og Gunna sitji sæl og södd í stofunni heima, það er laugardagskvöld, Gísli Marteinn líður af skjánum og Spaugstofumenn ryðjast inn.

Þá gerist það, það heyrist svolítill smellur og út úr ofninum miðjum stendur buna, lítil í fyrstu en svo sækir hún í sig veðrið og verður kröftugri, dreifir sér um stofuna og myndar polla á gegnheilu eikarparketinu, nær meira að segja yfir fínu stólana, fína borðið og allt heila klabbið.

Enginn stórskaði er þó enn orðinn, en nú verður að láta hendur standa fram úr ermum.

„Gerð’ eitthvað“ æpir Gunna og Jón hendist upp úr stólnum, þrífur í Danfoss-lokann sem stýrir hitanum í stofunni og snýr honum á lægstu tölu, horfir síðan hreykinn á Gunnu.

En það stendur aðeins stutt því vatnið heldur áfram að buna yfir stofuna, þó með aðeins minni krafti.

„Gerð’ eitthvað af viti“ öskrar nú Gunna og Jón öskrar á móti að það sé hann einmitt að gera, hún ætti að gera eitthvað sjálf.

Og það gerir Gunna, fær hugljómun, rýkur til og nær í handklæði og skellir því fyrir bununa.

Þarna standa þau Jón og Gunna, hún þvingar handklæðið að ofninum með hnénu en Jón stendur ráðþrota á gólfinu.

En Gunna veit sínu viti og æpir nú í hárri tóntegund að Jón ætti að hundskast og loka fyrir inntakið.

Þau stara hvort á annað og hafa líklega aldrei verið eins samtaka í anda og hugsun.

Hvar skyldi þessi fjárans inntaksloki vera?

Gerum langa sögu stutta.

Vatnið hitnaði og Gunnu varð ólíft með hnéð á handklæðinu, gerði það sem henni fannst eina glóran, hringja í slökkvilið, lögreglu, einn frænda og tvær frænkur.

Jón æddi um húsið og gat engan veginn hugsað rökrétt, tókst þó að lokum að ná þeirri niðurstöðu að skynsamlegast væri að fara í geymsluna í kjallaranum, þar væri, að hann minnti, hitaveitumælirinn.

Eftir að hafa hent út tveimur reiðhjólum, sex málningardósum, regnfatnaði fjölskyldunnar, sumardekkjunum undan jeppanum, dúkkurúminu síðan hún Dísa hans var barn, tveimur plastbruggkútum (tómum) ásamt ógrynni af gömlum skófatnaði, þá loksins glitti í hitaveitumælinn.

Hann hamaðist á öllum krönum. Flesta krana var ekki hægt að hreyfa.

Að lokum, innst inn í horni var krani sem honum tókst að loka og þurfti ekki nema kvarthring til.

Eftir flóð varð fjara, að lokum hætti að renna úr gatinu á ofninum.

Það var skelfilegt um að litast, vatn út um allt.

Slökkviliðið kom ekki, ekki heldur lögreglan, Gunna hafði í örvæntingunni ekki getað svo mikið sem flett símaskránni. Frændi kom og gömul frænka, þau númer voru föst í minni.

Dísa dóttir var á tónleikum hjá Megas, heyrði hvorki né sá, kom ekki að sök.

Það leið langur tími þar til allt var komið í lag hjá Jóni og Gunnu. Tryggingarnar voru hinar örlátustu það var lagt nýtt parket og gardínur bættar.

En ofninn vildu þeir ekki bæta, margt er skrítið í kýrhausnum, hugsaði Gunna.

Jón var ekki allur þar sem hann var séður.

Ekkert af dótinu fór inn í geymsluna aftur og lagt var blátt bann við að þar væri nokkuð sem hindrað gæti för.

Kraninn góði, sem lokaði fyrir allt rennsli á heitu vatni, var merktur rækilega og ekki nóg með það; að lokum fann hann hvar kalda vatnið kom inn í húsið, merkti einnig þann krana rækilega.

Og nú hófst ratleikurinn. Áberandi merki á hurð geymslunnar, á ganginum fyrir framan hana, þrjú merki á veggnum meðfram stiganum niður í kjallarann. Áberandi merki á hurðina fyrir framan stigann.

Þegar Jón ætlaði að setja merki á píanóið, stóra ör sem benti á kjallaradyrnar, sagði Gunna stopp.

Þó aðeins eftir að hún gekkst inn á að taka þátt í skyndiæfingum einu sinni í mánuði; hlaupa frá píanóinu niður í kjallara, loka fyrir báða krana, heitan og kaldan, með Jón á hælunum.

Tíminn tekinn með vandaðri skeiðklukku, sífellt betri tími eins og á Laugardalsvelli, síðan skiptu þau um hlutverk.

En án gamans.

Veist þú hvar á að loka fyrir heita og kalda vatnið ef ofninn springur eða ef slangan við þvottavélina fer í sundur?

Fleira áhugavert: