8 stórar virkjanir munu rísa – Um 10MW og stærri..

Heimild:   

Júlí 2017

Vinna er langt komin við að reisa sex stórar virkjanir á Íslandi á næstu árum, samkvæmt upplýsingum frá Orkustofnun. Auk þess er víðar fyrirhugað að reisa minni virkjanir á næstunni. Fréttastofa tók saman lista yfir átta virkjanakosti sem eru á teikniborðinu. Sex þeirra eru stærri en 10 MW og tveir rétt tæplega 10 MW. Samanlagt afl þeirra er tæp 419 MW, sem er um 60% af afli Kárahnjúkavirkjunar.

Raforkuframleiðsla miðað við höfðatölu er hvergi meiri í heiminum en á Íslandi, eða 53.832 kílóvattstundir á mann á ári miðað við tölur OECD ríkjanna frá árinu 2014 . Noregur er í öðru sæti með 23.000 kílóvattstundir á mann. Mörgum þykir nóg um og vilja draga úr virkjanaframkvæmdum á Íslandi en aðrir telja eðlilegt að virkja meira. Fyrir vikið eru virkjanaframkvæmdir eilíft þrætuepli á Íslandi.

Stórar virkjanir hafa framleiðslugetu upp á meira en 10 MW. Þessar virkjanir eru háðar flokkun í rammaáætlun Alþingis en þær sem minni eru þurfa ekki að fara í gegnum mat rammaáætlunar.

 
 

Orkustofnun gefur út virkjana- og rannsóknarleyfi fyrir virkjanir. Samkvæmt upplýsingum frá þeim er vinna langt komin við stórar virkjanir á sex stöðum á landinu. Þetta eru Hvammsvirkjun í Þjórsá, Hvalárvirkjun í Ófeigsfirði á Ströndum, Blönduveita sem er viðbót við Blönduvirkjun, Þeistareykir, stækkun við Búrfellsvirkjun og Eldvörp á Reykjanesi. Orkustofnun hefur þegar gefið út virkjanaleyfi fyrir tvo af þessum kostum.

Auk þess er vinna langt komin við Brúarvirkjun í Tungufljóti í Biskupstungum og Svartárvirkjun í Bárðardal sem eru báðar tæp 10 MW að stærð. Þegar hefur verið gefið virkjanaleyfi fyrir Brúarvirkjun en búist ef við virkjanaleyfi fyrir Svartárvirkjun í haust.

Ásgeir Margeirsson, forstjóri HS Orku, bendir einnig á í samtali við fréttastofu að Orkustofnun hafi þegar gefið út virkjunarleyfi fyrir stækkun Reykjanesvirkjunar um 60 til 80 MW. Hann segir þó hæpið að þar verði ráðist í framkvæmdir á næstu árum og því fellur stækkun Reykjanesvirkjunar utan ramma þessarar umfjöllunar.

Framkvæmdir hafnar
Framkvæmdir eru hafnar við jarðvarmavirkjun á Þeistareykjum og stækkun Búrfellsvirkjunar (Búrfellsvirkjun tvö). Gert er ráð fyrir að virkjanirnar verði tilbúnar og komnar í notkun á næsta ári.

Landsvirkjun fékk virkjanaleyfi frá Orkustofnun árið 2014 fyrir 100 MW jarðhitavirkjun að Þeistareykjum í Þingeyjasveit. Framkvæmdir hófust árið 2015 við 90 MW jarðvarmastöð og var kostnaður vegna fyrsta áfanga virkjunarinnar á bilinu 20 til 24 milljarðar króna.

Gert er ráð fyrir að orkan frá Þeistareykjum renni að stórum eða mestum hluta til kísilvers PCC á Bakka. Áætluð árleg framleiðslugeta kísilversins er 32.000 tonn í fyrri áfanga en 66.000 tonn eftir að verið verður fullbúið.

Þá fékk Landsvirkjun einnig virkjanaleyfi frá Orkustofnun árið 2015 fyrir stækkun Búrfellsvirkjunar um allt að 100 MW. Gert er ráð fyrir að stækkunin auki orkugetu raforkukerfisins um allt að 300 gígavattstundir á ári. Framkvæmdir við stækkunina hófust vorið 2016 og ráðgert er að gangsetja stækkunina í apríl árið 2018.

 

Landsvirkjun áformar að reisa Hvammsvirkjun í Þjórsá, en hún er flokkuð í nýtingarflokk í 3. áfanga rammaáætlunar Alþingis. Hvammsvirkjun yrði sjöunda og neðsta vatnsaflsvirkjunin á Þjórsár- og Tungnasvæðinu. Uppsett afl virkjunarinnar er 93 MW og verður árleg orkugeta hennar allt að 720 gígavattstundir.

Lengi hefur staðið til að reisa Hvammsvirkjun. Mat á umhverfisáhrifum virkjunarinnar var upphaflega gert árið 2003. Skipulagsstofnun ákvað í desember árið 2015 að endurskoða áhrif á tvo umhverfisþætti, annars vegar landslag og ásýnd lands og hins vegar á ferðaþjónustu og útivist. Samkvæmt frummatsskýrslu Lansvirkjunar verða áhrifin neikvæð á landslag og ásýnd lands, en áhrifin á ferðaþjónustu eru ekki talin neikvæð. Umhverfismatið var í kynningarferli í sumar en athugasemdafrestur rann út 6. júlí í ár.

Landsvirkjun hefur þrjá virkjanakosti á teikniborðinu í Þjórsá, það eru Hvammsvirkjun, Urriðafossvirkjun og Holtavirkjun. Virkjanakostirnir voru allir flokkaðir í nýtingarflokk í síðasta áfanga rammaáætlunar, sem á eftir að samþykkja á Alþingi. Vinna Landsvirkjunar við Hvammsvirkjun er lengst komin en í áætlun Landsvirkjunar um framkvæmdir og orkuvinnslu á tímabilinu 2015-2024 kemur fram að Holtavirkjun og Urriðafossvirkjun séu í undirbúningi hjá Landsvirkjun (sjá bls. 12 á þessum hlekk)

Styr hefur staðið um virkjanaáform í Þjórsá. Vefurinn Verndum Þjórsá var opnaður árið 2015 en þar er barist gegn því að Landsvirkjun reisi fleiri virkjanir í Þjórsá.

 

Virkjanaáfrom í Hvalá í Ófeigsfirði hafa verið áberandi í fjölmiðlum að undanförnu. Þar gerir VesturVerk ráð fyrir því að reisa 55 MW vatnsaflsvirkjun í samvinnu við HS Orku. Áformað er að virkja afl þriggja vatnsfalla með fimm stíflum sem koma til með að mynda þrjú lón. Virkjunin er flokkuð í nýtingarflokk.

Skipulagsstofnun skilaði áliti um umhverfisáhrif Hvalárvirkjunar í vor. Niðurstaðan var að áhrif virkjunarinnar á landslag og víðverni verði verulega neikvæð þrátt fyrir mótvægisaðgerðir.

Vesturverk er ekki komið með virkjanaleyfi í Hvalá. Hins vegar hefur það fengið rannsóknarleyfi frá Orkustofnun. Hreppsnefnd hefur einnig fyrir sitt leyti gefið grænt ljós á að rannsóknarvinna til undirbúnings virkjuninni hefjist.

Virkjunaráformin eru mjög umdeild, bæði í Árneshreppi þar sem virkjunin mun rísa og víðar á landinu.

Ein af forsendum þess að ráðist verði í virkjun Hvalár er að raforkudreifikerfi verði eflt á Vestfjörðum. Það yrði gert með því að búa til nýjan tengipunkt í Ísafjarðardjúpi sem tengir raforkukerfi Vestfjarða við Landsnetið. Ef þessi tengipunktur verður til opnar hann möguleika á meiri virkjanaframkvæmdum á Vestfjörðum. Ásgeir Margeirsson, forstjóri HS Orku, staðfestir í samtali við fréttastofu að þrír minni virkjanakostir við Ísafjarðardjúp séu til skoðunar hjá fyrirtækinu. Þeir yrðu samanlagt um 40 MW að stærð, en eru allir háðir því að nýi tengipunkturinn verði til í Ísafjarðardjúpi.

Blönduveita er einnig á teikniborðinu hjá Landsvirkjun. Blönduveita er í nýtingarflokki í rammaáætlun Alþingis. Gert er ráð fyrir því að nýta 68 metra fall á núverandi veituleið Blönduvirkjunar, frá Blöndulóni að Gilsárlóni. Fyrirhugað er að reisa allt að þrjár smáar vatnsaflsvirkjanir á þessari veituleið, en samanlagt afl þeirra yrði allt að 31 MW.

Á vef Landsvirkjunar kemur fram að gert sé ráð fyrir að sótt verði um virkjanaleyfi fyrir þessum framkvæmdum árið 2015. Ekki fást upplýsingar að svo stöddu um hvort það var gert á sínum tíma en Orkustofnun hefur ekki veitt virkjanaleyfi enn sem komið er.

HS Orka áformar að reisa um 30 MW jarðvarmavirkjun við Eldvörp á Reykjanesi, sem er flokkuð í nýtingarflokk rammaáætlunar. Ásgeir Margeirsson, forstjóri HS Orku, segir í samtali við fréttastofu að fyrirtækið sé komið með öll leyfi til rannsókna á svæðinu. Næsta skref er að hefja rannsóknarboranir sem gætu hafist á næsta ári.

Eldvörp eru um tíu kílómetra löng gígaröð á Reykjanesi sem myndaðist í sprungugosi í Reykjaneseldum á þrettándu öld. Gígaröðin á enga hliðstæðu fyrr en í Lakagígum. Eldvörp er skammt vestan við Grindavík. Þar er jarðhiti sem hefur verið nýttur til orkuframleiðslu í Svartsengi. Náttúruverndarsinnar hafa barist fyrir því að Elvörp verði látin ósnortin. Ómar Ragnarsson segir að Eldvörp séu í efsta sæti yfir þau svæði sem hann vill friðlýsa.

Ásgeir Margeirsson, forstjóri HS Orku segir að þótt ráðist verði í rannsóknarboranir á svæðinu sé enn tiltölulega langt í að svæðið verði virkjað. Fyrst þurfi að setja framkvæmdina í umhverfismat og sækja um virkjunarleyfi hjá Orkustofnun.

HS Orka fékk á þessu ári virkjanaleyfi frá Orkustofnun til að reisa 9,9 MW vatnsaflsvirkjun í efri hluta Tungufljóts í Biskupstungum sem mun nefnast Brúarvirkjun. Í ljósi þess að virkjunin er undir 10 MW að stærð var hún ekki til umfjöllunar í rammaáætlun Alþingis.

Ásgeir Margeirsson, forstjóri HS Orku, segir í samtali við fréttastofu að þar séu framkvæmdir að hefjast á næstu dögum. Búið er að leggja vegi á svæðinu fyrir framkvæmdina og gert er ráð fyrir að virkjunin verði tilbúin fyrri hluta ársins 2019. Ásgeir segir að sveitarfélagið Bláskógabyggð hafi þegar gefið út framkvæmdaleyfi fyrir undirbúningsframkvæmdum fyrir Brúarvirkjun.

Gert er ráð fyrir því að flatarmál lóns við virkjunina yrði um átta hektarar miðað við venjulegt rekstrarvatnsborð. Skipulagsstofnun fjallaði um framkvæmdina í skýrslu sem birtist í september árið 2016. Þar kom fram að áhrif framkvæmdanna á ásýnd og landslag væru talsvert neikvæð. Þar segir einnig að gróið svæði raskist og mikilvægt sé að ráðast í endurheimt votlendins og birkikjarrs. Einnig er talið að framkvæmdirnar gætu haft áhrif á fuglalíf á svæðinu, sér í lagi varp straumandarinnar, sem er tegund á válista sem einungis verpir á Íslandi.

Loks hyggst SSB orka ehf. reisa 9,8 MW vatnsaflsvirkjun í Svartá í Bárðardal. Samkvæmt upplýsingum frá SSB orku ehf. eru áformin langt komin og gerir fyrirtækið ráð fyrir að fá byggingarleyfi frá Skipulagsstofnun nú í haust. Þá verður strax ráðist í framkvæmdir, að sögn Heiðars Guðjónssonar eins eigenda SSB Orku. Framkvæmdatíminn verði um eitt og hálft til tvö ár.

Í ljósi þess að virkjunin í Svartá verður minni en 10 MW að stærð var hún ekki háð flokkun rammaáætlunar Alþingis. Virkjunarframkvæmdirnar voru sendar í umhverfismat en samkvæmt Heiðari er matið væntanlegt fljótlega og gerir hann ráð fyrir því að það verði jákvætt.

Verkefnisstjórn lagði til að Skjálfandafljót yrði sett í verndarflokk en byggingarsvæði Svartárvirkjunar er innan verndaðasvæðisins. Forsvarsmenn SSB orku ehf. hafa ekki áhyggjur af því að þetta kollvarpi áformum þeirra um virkjun Svartár. Fiskistofa veitti umsögn um virkjunina í Svartá sem var fremur neikvæð og talið var að virkjunin gæti raskað fiskigengd í ánni.

Ísland framleiðir, líkt og áður segir, meiri raforku en nokkur önnur þjóð í heiminum miðað við höfðatölu, eða 53.832 kílóvattstundir á mann á ári. Til samanburðar þarf um 3.000 til 10.000 kílóvattstundir af rafmagni árlega til að reka venjulegt heimili á flestum stöðum landsins.

Fram kom í umfjöllun fréttastofu um leyfisveitingar Orkustofnunar á síðasta ári að stofnunin hefði veitt 21 leyfi á árunum 2014 og 2015 til virkjana eða rannsókna vegna undirbúnings virkjana.

Hér að ofan má sjá mynd af vef Orkustofnunar sem sýnir virkjanaframkvæmdir á Íslandi síðastliðin 90 ár. Á myndinni sjást einungis virkjanir sem eru stærri em 5 MW.

Fleira áhugavert: