Vatnsmælir fyrir hverja íbúð?

Heimild:  

 

Nóvember 2003

Um þetta hefur verið spurt á mörgum húsfundum, þessa spurningu fá pípulagningamenn og auðvitað veitukerfin.

Því ekki að mæla heita vatnið, sem hver íbúi notar eða réttara sagt notað er í hverri íbúð.

Í dag er nokkuð víst að í fjögurra íbúða fjölbýlishúsi mundi verða lagt sérstakt hitakerfi í hverja íbúð og þá auðvitað einnig sérstök leiðsla frá einkamæli hverrar íbúðar fyrir heitt kranavatn.

Kalda vatnið er hinsvegar alltaf sameiginlegt kerfi, enda virðast margir hérlendis vaða í þeirri villu að kalda vatnið sé ókeypis eða því sem næst.

Það er nú öðru nær, en ekki meira um það að þessu sinni.

Víkjum aftur að sérstökum hitaveitumælum fyrir hverja íbúð.

Þegar í fjölbýlishúsi eru fleiri en segjum fjórar íbúðir er reglan ætíð sú að hitaveitumælirinn er aðeins einn, hann mælir allt vatn sem notað er til upphitunar, þvotta og annars hreinlætis.

Kostnaði er síðan skipt milli íbúða eftir rúmmáli án tillits til þess hve margir eru í heimili.

Image result for fjölbyliEflaust getur þetta orðið misklíðarefni, hvað getur ekki valdið misklíð nú til dags, en hún er svo sem engin nýlunda, misklíðin. Nú er það vitað að mörg fjölbýlishús á veitusvæði Orkuveitu Reykjavíkur eru með sérstöku hitakerfi í hverri íbúð og sérstökum heitavatnsmæli.

Þessi fjölbýlishús eru frá ákveðnum tíma, eru líklega 40 – 50 ára gömul, þau kunna að vera við Háaleitisbraut eða Kaplaskjólsveg svo eitthvað sé nefnt.

Er þetta ekki hið fullkomna réttlæti?

Þá getur hver og einn ákveðið hvað hann eyðir af vatni, hann getur sparað upphitun og dregið úr notkun á heitu kranavatni eða eytt eins og hann vill án þess að hann sé að ganga í buddu annar.

Já, það er engin furða að spurt sé.

Langar lagnir og vafasamt réttlæti

Það hlýtur að liggja í augum uppi að það krefst fleiri og lengri lagna ef hver íbúð á að hafa sitt sérstaka hitakerfi og sinn sérstaka hitaveitumæli. Allar yrðu þær lagnir þó frekar grannar, en þegar allar koma saman þurfa þær sannarlega sitt rými. Þær þarf einnig að einangra vel og vandlega, því gæta verður þess að sem minnstur hiti glatist á leið vatnsins frá tækjarými í kjallara og kannski upp á fjórðu hæð.

Svo kemur annað til sögunnar sem sýnir að það hallar talsvert á réttlætið þegar í fjölbýlishúsum eru sérkerfi og einkamælar hitaveitu fyrir hverja íbúð.

Mörg íbúðarhús í höfuðborginni frá árunum 1950 – 1970 eru stöðluð hús, oft þrjú sambyggð stigahús, oftast þrjár hæðir.

Gerum okkur í hugarlund að í hverri íbúð sé sér hitakerfi með sér hitaveitumæli.

Heimsækjum nú nokkrar íbúðir í þessari samstæðu. Í sitt hvorum enda á 3. hæð, sem er sú efsta, eru þrír útveggir, yfir loftplata og þar yfir þak.

Í þessari íbúð þarf mikla upphitun til að mæta því varmatapi sem óhjákvæmilega verður um útveggi og loftplötu.

Förum í íbúðina fyrir neðan.

Þar þarf þó nokkru minna til hitunar að kosta því yfir þeirri íbúð er önnur íbúð, þangað tapast enginn hiti því þar uppi er sama hitastig.

En förum nú í íbúð á miðhæð í stigahúsinu í miðið.

Þar eru aðeins tveir útveggir. Á báðar hliðar eru íbúðir, svo er einnig fyrir ofan og neðan.

Liggur ekki í augum uppi að þarna þarf miklu minna að kosta til upphitunar en í þeirri sem við nefndum fyrst?

Vissulega, sá sem þarna býr er svo heppinn að fjórir nágrannarnir halda á honum hita um leið og þeir halda hita á sjálfum sér.

Þetta sýnir að réttlætið er best með einu sameiginlegu hitakerfi þar sem kostnaði er skipt eftir rúmmáli.

Þetta eru ástæðurnar til að horfið var frá því að hafa sérmæli fyrir hverja íbúð.

Ástæðurnar eru raunar fleiri, má þar nefna mikinn kostnað vegna mæla sem í fyrrnefndu fjölbýlishúsi hefði verið 1 með sameiginlegu hitakerfi, en 18 ef hver hefði sitt einkakerfi.

 

Fleira áhugavert: