Pípulagnir – Tíska og slæm ráðgjöf..

Heimild:  

 

Desember 2003

Hvað dettur flestum í hug þegar minnst er á tísku? Líklega margskonar klæðnaður, ýmiss konar spjarir sem hanga utan á renglulegum stelpugopum, sem verða að líta út eins og þær hafi ekki fengið ætan bita árum saman, leggjalangar og beinaberar, andlitin eins og á vofum og augun stjörf.

Eins og Miklabæjar-Sólveig og Gunna Ívars, frægustu kvendraugar Íslandssögunnar, hafi verið klónaðir til að skrölta um á pöllum í París og Róm innan um úrkynjaða evrópska elítu.

En ekki aldeilis, það var ekki ætlunin að ræða slíka tísku þó gjarnan hefði mátt flytja eina mergjaða draugasögu í svartasta skammdeginu, gott ef ekki kemur nákaldur gustur frá Stokkseyri eftir Óseyrarbrúnni alla leið til Þorlákshafnar.

En ekki meira um drauga, hvorki látna né lifandi, það á að ræða svolítið um tísku.

Það er nefnilega tíska til í pípulögnum rétt eins og annarsstaðar, en til að sýna hana þarf ekki skröltandi líflitla kvendrauga.

Fyrr á árum þótti enginn maður með mönnum nema klósettið hjá honum væri bleikt, blátt, gult eða grænt. Svo kom næsta tímabil þar sem menn reyndu jafnvel að kaupa hvíta málningu til að hylja þennan hvimleiða og þreytandi lit.

En ætli litaða klósettið sé ekki að koma aftur, hver veit? Það þótti mikil framför þegar vatn fór að renna eftir pípum í mundlaug, áður var vaskafat á servanti sjálfsagt á bestu bæjum og vinnukona kom með vatn í stórri könnu og hellti í fatið.

Nú segir tískan að allar mundlaugar, sem við nú köllum handlaugar, verði að líta út eins og gömul vaskaföt hjá sýslumönnum og faktorum eða svo segir Vala, sú sem kíkir grimmt út og inn.

„Únit“ skal það vera

Þetta er nýjasta tískan, en „únít“ er varmaskiptir sem búið er að hlaða á allskonar stýrigræjum, ventlum, rörum og tengjum. Allt er þetta sett saman af láglaunuðum Tyrkjum og Aröbum í Danmörku, Finnlandi eða einhverju öðru Evrópulandi.

En hvaða galdratæki er þetta kann einhver að spyrja? Varmaskiptir er mjög gott og gagnlegt tæki þegar hans gerist þörf, sem kemur fyrir. Í þessu tæki er hægt að leiða hita frá heitu vatni yfir í kalt eða öfugt án þess að vatnið blandist. Munurinn á venjulegum varmaskipti og „únít“ varmaskipti er sá að þann fyrrnefnda hefur íslenskur pípulagningamaður skrúfað á allan búnað en á „únítið“ farandverkamaður, oftast úr íslamska heiminum.

En hvor varmaskiptirinn sem valinn er þá ætti sú spurning að koma fyrst hvort þörf sé fyrir hann.

Í nýlegu húsi í nágrenni Reykjavíkur ákváðu ungu hjónin, að ráði sérfræðinga, að fá sér „únít“ til að hita upp vatnið sem skyldi renna í baðkerið, handlaugina, sturtuna, pottinn og hvarvetna sem þörf væri fyrir heitt vatn.

Ástæðan lá í augum uppi eða svo fannst þeim eftir að hafa hlustað á ráð margra fróðra manna.

Þau ætluðu ekki að láta falla á fína sturtuklefann, pottinn og allra síst á vaskafatið sem þau þvoðu sínar hendur í, en auðvitað var það tengt við heitt og kalt vatn og frárennsli, þetta var ekki í neinum torfbæ.

Hér átti að koma í veg fyrir að kísill og aðrar útfellingar úr hitaveituvatni eyðilegðu gjáann á tækjunum.

Og allir voru ánægðir.

Svo fór að vakna grunur um að ekki væri allt með felldu.

Hvernig rör voru í neysluvatnskerfinu? Það var kannað og húseigendum til mikillar skelfingar reyndust þær lagnir vera galvaniseruð stálrör, einmitt rörin sem ekki þola upphitað kalt vatn.

Þetta átti ekki að geta gerst í svona nýju húsi.

En þó varð ungu hjónunum nóg boðið þegar þau voru upplýst um það að heita vatnið sem rann inn í hús þeirra var ekkert hitaveituvatn, heldur kalt vatn sem vel hefði mátt drekka, og var hitað upp með gufu á Nesjavöllum.

Þá var ekki um annað gera en rífa niður varmaskiptinn góða og tengja heita vatnið beint inn á leiðslurnar.

Og allt endaði vel nema það vantaði bara hálfa milljón í hússjóðinn.

Fleira áhugavert: