Rörabyltingin – Það erum við sem ráðum!

Heimild:  

 

Janúar 2004

Var hún góð eða var hún vond? Það má rífast endalaust um kvikmynd Hrafns, Opinberun Hannesar, en eitt er víst; það verður engin niðurstaða í því máli í bráð og lengd.

Það er ekki ætlunin að dæma verk þeirra Davíðs og Hrafns hér á þessum vettvangi, það verða nógu margir aðrir til þess.

Eftir stendur inntakið, hinn allt um vefjandi embættismaður sem af einskærri hjartagæsku hefur það að hugsjón og ævistarfi að vernda meðborgara sína, koma í veg fyrir að þeir fari út í einhverja déskotans vitleysu og fávisku, auðvitað eftir hannesarmati.

Þeir sem komnir eru yfir miðjan aldur, eða öllu heldur vel það, muna gullöld hannesinga. Þeir sátu í sínum skömmtunarskrifstofum, hvort sem þær voru raunverulegar skömmtunarskrifstofur sem úthlutuðu skömmtunarseðlum fyrir brauði, sykri, mjöli, fötum, skóm eða sápu, nei hættum að telja, eða ráku bílaskoðun sem kom venjulegum mannræfli til að skjálfa svo skall í tönnum, nei reynum ekki að lýsa því, þeir vokuðu yfir öllu lífi eins og hrægammar.

Auðvitað er þetta löngu liðið, eða er ekki svo? Nú skulum við ganga hægt um gleðinnar dyr og fullyrða ekki of mikið.

Er Hagsmunafélag hannesinga dautt og tröllum gefið eða eru þeir aðeins í felum í einhverjum holum eins og vinsælar eru til hvíldar nú til dags?

Tölum um lagnir

Auðvitað gerum við það, það er okkar hlutverk, hér á hvorki að „krítisera“ sjónvarps/bíómyndir eða „fílósófera“ um útdauða þjóðfélagshópa.

Þeir sem hafa unnið við pípulagnir síðustu áratugi hafa lifað spennandi tíma. Fyrir um þrjátíu árum var „rörabyltingin“ í hámarki, þetta var á svipuðum tíma og „menningarbylting“ Maós stóð sem hæst, en sú bylting kom auðvitað rörum ekkert við.

Þá fengum við lagnamenn í hendur ný efni til að leggja hitakerfi, neysluvatnskerfi og frárennsliskerfi að ógleymdum öllum stýri- og stjórntækjunum, Danfoss-lokunum og Grundfos-dælunum, ofnarnir urðu léttir sem fis, það voru að renna upp spennandi tímar. Við sáum fram á að nú mættum við nota plaströr til neysluvatnslagna, hvort sem það var kalt eða heitt.

Við sáum fram á að zinkát Íslendinga væri á enda, galvaniseruð rör mundu nú gleymast. Við sáum fram á að engin ástæða væri til að leggja hitalagnir úr eir sem allir vissu að þoldu ekki hitaveituvatnið. Við sáum fram á að snittolíudrullan væri úr sögunni, þunnveggja stálrör með þrykktum tengjum væru komin til að vera.

Engin furða þó við værum borubrattir þessir gömlu rörakallar.

Hingað og ekki lengra

En Adam var ekki lengi í Paradís, honum var snögglega kippt niður á hinn harða grunn forsjárinnar.

Hannesarherinn fylkti liði og sagði: „Hingað og ekki lengra, það erum við sem ráðum! Hvort þeir réðu, á því var enginn vafi. Þeir bönnuðu allt sem hægt var að banna, þvældust fyrir öllum sem hægt var að þvælast fyrir, voru skaðlegir hvarvetna, að segja að þeir væru skaðlegir er vægt til orða tekið.

Að öllu gamni slepptu; það væri freistandi að draga þá fram í dagsljósið hvern á fætur öðrum, málaliðana í hannesarhernum. Birta nafn þeirra, kennitölu, vinnustað og ekki síst skólagöngu, segjum ekki menntun því þeir sem hafa barið niður allar framfarir í lögnum í 30 ár eiga vart skilið að kallast menntaðir menn.

Það þurfti sterkt afl til að brjóta þá á bak aftur og það afl var það umdeilda en sterka fyrirtæki Orkuveita Reykjavíkur.

Á þeim degi sem Orkuveitan ákvað að leggja hitaveitur um heilar sveitir úr plaströrum, á þeim degi sem hún ákvað að allar heimæðar hitaveitunnar á höfuðborgarsvæðinu yrðu úr plasti, varð her hannesinga að láta undan síga.

Fullnaðarsigur? Látum okkur ekki detta það í hug. Þeir eru í holum sínum tilbúnir til að leggja steina á veg framfaranna.

Ef þeir láta á sér kræla skulum við draga þá upp úr holunum og aflúsa þá endanlega.

Reisum þeim minnisvarða, hann skal vera okkar viðvörun um að láta þá aldrei ná aftur þeim heljartökum, sem þeir hafa haft, á lagnamálum þessarar þjóðar.

Fleira áhugavert: