Engin upphengt klósett ..en saltað, reykt og súrsað

Heimild:  

 

Apríl 2005

Smella á mynd til að stækka

Þau eru enn í fullu fjöri og ekki annað að sjá en þau ætli að lifa fram í háa elli. Búin að lifa langa ævi, sum hver við strit myrkranna á milli til að sjá sér og sínum farborða. Aldrei fengu þau seríós að morgni eða pitsu að kvöldi, nei óekki, slíkur munaður var ekki til á landi hér í þeirra bernsku.

En samkvæmt öllum kenningum mannfræðinga jafnt sem matvælagúrúa áttu þau aldrei að komast til manns, síst þau sem fæddust og ólust upp í innstu dölum norðan lands eða langt inn á lendum sunnan heiða. Samt ganga þau um, karlar og konur, og ólust upp á því að brjóta lögmál hollustunnar, ekki af því að það væri nein ástríða hjá þeim eða þeirra fólki, heldur eingöngu af þörf og löngun til að lifa.

Já, það er enn til fólkið sem át af áfergju frá blautu barnsbeini saltað hrossakjöt í eitt mál og saltfisk í hitt, að kveldi kom góðgætið, súrsað slátur, bæði blóðmör og lifrarpylsa, kindalappir og jafnvel lundabaggi á hátíðum, skyr var ábætisréttur í öll mál. Á engjum á sumrum voru rifnir hertir þorskhausar af mikilli kúnst sem fáir kunna í dag, hver einasta arða étin, jafnvel beinin látin morkna í sýru og slöfruð af áfergju.

Og hvaða möguleikar voru til hreinlætis? Engin voru til vegghengd klósett, hins vegar stóð úti kamarinn keikur á palli yfir hlandforinni. Ekkert var baðkerið eða sturtan, en karið sem ullin var þvegin í úr keitu gat jafnvel bjargast sem baðker fyrir jólin, eða þá stóri þvottabalinn sem þó var ekki nema fyrir konur og rindilslega karla.

Ung kona skrifaði nýlega lítið lesendabréf hér í þetta ágæta blað allra landsmanna. Ekki var það langt en yfirmáta tilfinningaríkt svo næstum mátti heyra kjökrið og finna og sjá sölt tárin trilla niður kinnar. Það var ekki nema von að blessaðri konunni væri mikið niðri fyrir þegar séð er hvað hleypti út hjá henni þessari líka miklu geðshræringu.

Það var sá skelfilegi og ógeðfelldi verknaður, sem var bannfærður (að mestu) við kristnitöku landmanna árið 1000, sem sagt að éta hrossakjöt. Það er sannarlega ekki í fyrsta sinn sem deilur rísa um slíkt mataræði af trúarlegum og siðferðilegum ástæðum, en hér var ástæðan fagurfræðileg, folöldin eru svo yndislega falleg. Satt er það, þetta er ætíð það sem ungviðinu fylgir hjá öllum dýrategundum og er maðurinn þar ekki undan skilinn.

En hvað skyldi blessuð konan borða, auðvitað verður að nota þessa síðrómantísku sögn að borða, enginn maður með sjálfvirðingu segir að einhver éti. Hinsvegar er æði skondið að heyra ýmsa spámenn meðal fjölmiðla og skríbenta tönnlast á því að dýrin borði. Það væri sannarlega stórskemmtileg sjón að sjá þorskinn í bugtinni eða rottuna í ræsinu sitja til borðs með hníf og gaffal og disk líka.

En þetta var útúrdúr, spurningin var hvað blessuð konan hefur sér til lífviðurværis, ekki nokkur vafi á því að hún hefur nóg að bíta og brenna í okkar allsnægtaþjóðfélagi þó hún leggi sér ekki til munns fallegu folöldin. Lambakjöt kemur tæplega til greina, eru þau ekki falleg, spræku lömbin, þegar þau renna af fjalli? Grísinn er í fjarlægum löndum hafður sem gæludýr, tæplega svínakjöt og hvað er fallegra en lítill kálfur, nei ekki nautakjöt.

En það er af nógu að taka, það þarf ekki að vera að drepa falleg dýr. Hamborgari með öllu þykir mörgum hnossgæti ekki síst þegar búið er að brasa hann í gamalli fitu á skítugri pönnu. Þá er það pitsan, ekki amalegt að fá nýbakaða pitsu með skinku, pepperoni og öllu því góðgæti sem á hana er raðað. Hvað gerði ekki Clinton sjálfur í miðborg Reykjavíkur, át pylsu í brauði frá Bæjarins bestu af hjartans lyst. Að vísu fór víst svo að hjarta forsetans fyrrverandi þoldi þetta tæpast, hvort sem aukaslögunum olli pylsan frá SS eða íslenska snótin sem handlangaði í hann góðgætið.

Enn ganga hér um götur og móa gamlar hrossakjötsætur og að minnsta kosti einn af þeim gömlu syndurum á góðar minningar frá ágætri tíð sem reyndar var kölluð í þá daga sláturtíð. Þá voru til heimilisnota skotin og skorin tvö hross, jafnvel komin til ára sinna. Nokkrar gamlar skjátur fengu sömu útreið og auðvitað sauðir, hvaða jól hefðu það orðið ef ekki hefði verið reykt sauðakjöt á borðum. Ekki var snáði orðinn hár í loftinu til að fá embætti í sláturtíðinni. Trénað ramfang var skorið og bundið í písk. Þegar kindin var skotin og síðan skorin spýttist blóðið úr strjúpanum í bala.

Þá var um að gera að vera duglegur og hræra í svo ekki storknaði, annars hefði ekki orðið til neinn rjúkandi blóðmör eða ilmandi lifrarpylsa, Gorið varð að hreinsa úr vömbinni og garnirnar þurfti að tæma, rista upp og skafa.

Síðan var hátíð á þessum eina árstíma sem nýmeti var á borðum, brátt var étin ilmandi kjötsúpa og síðan aðrar krásir, svo sem kindasvið og kindalappir En hátíð nýmetisins stóð ekki lengi, engin voru ráðin til að verja þessi dýrmætu matvæli með öðru en að salta, súrsa og reykja.

Í þá daga þótti ekki í kot vísað þar sem hægt var að fá hafragraut með súrsuðum blóðmör, saltað hrossakjöt að ekki sé talað um reykt hrossabjúgu, í einni tunnu leyndist kannski enn meira sælgæti; súrsaðir selshreifar.

En nú er þessi villimennska að baki, það er meira að segja búið að banna bændum landsins að stunda slíka ósvinnu sem þá að drepa dýr heima í skemmu, verknaður sem nú er nefndur heimaslátrun getur varðað næstum því tugthúsvist.

En þá kemur þessi bjánalega spurning; hvaðan kemur hamborgarinn, SS pylsan, pepperrónið, skinkan og spægipylsan? Þvílík bjánaspurning, þetta veit næstum barnið í vöggunni.

Þessi munaðarvara kemur úr búðinni, að sjálfsögðu.

 

Vinsælast á vefnum 2016-2017

nr.02

Engin upphengt klósett ..en saltað, reykt og súrsað

 

Fleira áhugavert: