Hreinsun skólps – Reglugerðir eru brotnar..

Heimild:      

 

September 2017 – Mbl

Litlu áorkað og regl­um ekki fylgt

Vegna bilunar í neyðarlúgu í fráveitukerfinu fór skólp út í ...

Vegna bil­un­ar í neyðarlúgu í frá­veitu­kerf­inu fór skólp út í sjó við Faxa­skjól í Reykja­vík í sum­ar. Búið er að gera við neyðarlúg­una. mbl.is/​Golli

Árið 2014 var 68% skólps frá þétt­býl­um hreinsað með eins þreps­hreins­un, tvö% með tveggja þrepa og eitt% með frek­ari hreins­un en tveggja þrepa. Aft­ur á móti var 24% skólps­ins ekk­ert hreinsað og ekki er vitað hvernig 5% þess var hreinsað eða hvort það hefði yf­ir­leitt fengið nokkra hreins­un.

Ann­ars staðar á land­inu skort­ir t.d. hreins­un á öll­um stærri frá­veit­um (með yfir 2.000 p.e.) í þétt­býli á Vest­ur­landi, Vest­fjörðum, Norður­landi vestra og Norður­landi eystra en upp­færðar upp­lýs­ing­ar vant­ar um stöðu á hreins­un skólps á Vest­ur­landi. Þetta kem­ur fram í sam­an­tekt um stöðu frá­veitu­mála á Íslandi árið 2014 sem Um­hverf­is­stofn­un vann.

Af því skólpi sem myndaðist í þétt­býli á land­inu var 94% losað í sjó, 5% í ár og stöðuvötn og 1% í ár­mynni eða grunn­vatn. Af því skólpi sem var talið hreinsað með eins þreps hreins­un var um 84% hreinsað í sam­eig­in­leg­um hreins­istöðvum sveit­ar­fé­laga á höfuðborg­ar­svæðinu við Ánanaust og Klettag­arða. Um er að ræða tæp­lega 60% þess skólps sem verður til í land­inu. Seg­ir jafn­framt í skýrsl­unni.

Ekki farið eft­ir reglu­gerðum

„Niður­stöður skýrsl­unn­ar benda til að frem­ur litlu hafi verið áorkað í frá­veitu­mál­um síðan síðasta stöðuskýrsla var gef­in út árið 2010 og mikið hafi vantað upp á að ákvæði reglu­gerðar um frá­veit­ur og skólp væru upp­fyllt. Það fyr­ir­komu­lag sem stuðst er við í dag hef­ur ekki skilað þeim til­ætlaða ár­angri sem kraf­ist er í lög­um og reglu­gerðum.“ Þetta kem­ur fram í skýrsl­unni.

Sýni ekki tek­in nægi­lega oft

Hreins­istöðvar sinna ekki nægi­lega reglu­bundnu eft­ir­liti. Rétt fram­kvæmd sýna­taka og nægi­leg­ur fjöldi mæl­inga er nauðsyn­leg­ur til að skera úr um hvort til­tek­in hreins­istöð nær þeim ár­angri sem að var stefnt.

„Sam­an­tekt­in leiddi í ljós að  los­un­ar­mæl­ing­ar voru al­mennt ekki gerðar í sam­ræmi við kröf­ur reglu­gerðar um frá­veit­ur og skólp og því erfitt að draga álykt­an­ir um hvort hreinsi­virki séu í raun að skila þeim ár­angri sem þeim var ætlað.“ Í sam­an­tek­inni er vísað til ný­legr­ar skýrslu sem unn­in var fyr­ir Orku­veitu Reykja­vík­ur sem er m.a. rekstr­araðili tveggja helstu hreins­istöðva á höfuðborg­ar­svæðinu. Í henni kem­ur fram að mæl­ing­ar í hreins­istöðvun­um við Ánanaust og Klettag­arða eru ekki jafn tíðar og ákvæði reglu­gerðar mæla fyr­ir um.

Upp­fært kl 17:35: Eft­ir að skýrsl­an og frétt­in voru birt vilja Veit­ur koma því á fram­færi að ekki séu um að ræða aðeins fjög­ur sýni sem tek­in voru á ári, held­ur hefði verið farið í fjór­ar ferðir til að taka sýni og sam­tals meira en 50 sýni tek­in í þau skipti.

Skýra ábyrgðaskipt­ingu og fjár­mögn­un

Í skýrsl­unni eru bent á úr­bæt­ur sem þyrfti að fara í. Það eru meðal ann­ars bent á að skýra þurfi ábyrgðar­skipt­ingu milli sveit­ar­fé­laga sem rekstr­araðila frá­veitna, fyr­ir­tækja, heim­ila í dreif­býli og eft­ir­litsaðila þ.e. heil­brigðis­nefnda sveit­ar­fé­laga og Um­hverf­is­stofn­un­ar.

Einnig verður farið í átak í því að að fá sveit­ar­fé­lög til að sækja um starfs­leyfi til viðkom­andi heil­brigðis­nefnd­ar. Tryggt verði að heil­brigðis­nefnd­ir gefi út starfs­leyfi þar sem þau eru ekki fyr­ir hendi og að starfs­leyf­is­hafi sinni innra eft­ir­liti og eft­ir at­vik­um vökt­un viðtaka. „Ef með þarf beiti heil­brigðis­nefnd­ir þving­unar­úr­ræðum til að tryggja að aðilar upp­fylli skyld­ur sín­ar.“ seg­ir enn­frem­ur.

Í skýrsl­unni kem­ur fram að flutn­ingsaðilar og  mót­töku-  og meðferðaraðilar seyru  virðast ekki all­ir hafa haft starfs­leyfi heil­brigðis­nefnda auk þess sem aðeins 10% safn­ræsa og 21% hreins­istöðva höfðu starfs­leyfi.

 

 

Maí 2017 – Kjarninn

Nánast engin síun er á örplasti og fara agnir, sem eru minni en millimetri og niður í hundrað míkrómetra, gegnum hreinsistöðvar og út í umhverfið. BÁRA HULD BECK

Sér­fræð­ingar virð­ast flestir vera sam­mála um að frá­veitu­málum og skólp­hreinsun sé ábóta­vant í mörgum sveit­ar­fé­lögum á Íslandi. Þrátt fyrir reglu­gerðir og lög hvernig frá­veitu­málum eigi að vera háttað er pottur brot­inn víða varð­andi þau mál­efni. Eitt brýn­asta mál­ið, tengt mengun vegna frá­rennsl­is, er svo­kallað örplast sem rennur með skólpi og frá­veitu­vatni út í sjó­inn óhindr­að. Fleiri þættir hafa áhrif á mengun og mætti nefna aukna ferða­mennsku, stór­iðju og ofan­vatns­meng­un.

Fremur reglan en und­an­tekn­ingin að þétt­býli hunsi reglur

Tryggvi Þórð­ar­son, vatna­vist­fræð­ingur hjá Umhverf­is­stofn­un, segir að það sé fremur reglan en und­an­tekn­ingin að þétt­býli á land­inu hafi ekki upp­fyllt lög og reglu­gerð um frá­veitur og skóp þó að þau hefðu átt að vera búin að því í síð­asta lagi árið 2005 en þá rann út síð­asti frest­ur­inn.

Tryggvi segir að nauð­syn­legar fram­kvæmdir séu dýrar og til dæmis sé venju­legt að veitu­kerfið sé ein­ungis tvö­faldað um leið og verið sé að taka upp ein­hverja göt­una og end­ur­nýja í henni. Hann telur að miðað við þró­un­ina hingað til muni lík­leg­ast taka ein­hverja ára­tugi fyrir sveit­ar­fé­lögin að fram­fylgja kröfum laga og  reglu­gerðar að fullu.

Að sögn Tryggva eru áhrif meng­unar af völdum skólps mis­jöfn eftir því hversu við­kvæmur stað­ur­inn í nátt­úr­unni sem skólpið er leitt út í er. Hann segir að meng­unin fari líka eftir fjölda íbúa­í­gilda eða svoköll­uðum per­sónu­ein­ingum sem geta verið tals­vert fleiri en íbú­arn­ir. Magn meng­un­ar­efn­anna er metið út frá per­sónu­ein­ingum en ein per­sónu­ein­ing jafn­gildir því sem einn maður lætur frá sér á einum sól­ar­hring. Hann bendir á að vegna atvinnu­rekstrar sé oft tvö til þrefalt meira af per­sónu­ein­ingum en íbú­um.

Einnig eru bakt­er­íur í skólp­inu sem hafa ekki bein áhrif á vist­kerfið en segja aðal­lega til um smit­hættu. Tryggvi segir að kröfur séu um að saur­bakt­er­íur þurfi að vera undir ákveðnum mörkum í vatni eftir los­un. Kerfið sé við­kvæm­ast fyrir mengun af völdum nær­ing­ar­efna, þ.e. áburð­ar­efna eða líf­ræns efn­is. Ein helsta meng­unin af völdum þess­ara efna er skólp­mengun og telur hann að þörf sé á úrbótum í þeim mál­u­m.

 

Tryggvi Þórðarson

Tryggvi Þórðarson

Ferða­mennska eykur álag á kerfið

Fleiri þættir spila inn í skólp­mengun og einn þeirra er fjölgun ferða­manna. Sam­kvæmt Ferða­mála­stofu komu tæp­lega 1.800.000 ferða­menn til lands­ins á síð­asta ári og jókst um 39 pró­sent frá árinu áður en ekk­ert lát virð­ist vera á þeirri fjölg­un. Einn ferða­maður sem dvelur á Íslandi er eins og einn íbúi eða ein per­sónu­ein­ing; sama mengun kemur frá honum og venju­legum íbúa. Tryggvi segir að ferða­mennskan auki álagið á stað­inn í nátt­úr­unni þar sem skólpið er leitt út í og á hreinsi­stöðv­arn­ar. Hann segir að hreinsi­stöðv­arnar nái aldrei nema hluta af meng­un­inni, mis­mikið eftir því hvort um eins þreps, tveggja þrepa eða ítar­legri hreinsun en tveggja þrepa er að ræða. Öll umframmengun sem hreinsi­bún­að­ur­inn ræður ekki við sleppi því í gegn og kom­ist út í umhverf­ið.

Annar þáttur sem Tryggvi bendir á í sam­bandi við vanda með kerfið er vatns­notkun hjá almenn­ingi. „Ef ekki er hugsað um þetta og ef verið er að fara óspar­lega með vatn og það notað í of miklu magni þá kostar það stærri leiðsl­ur. Bæði vatns­leiðslur þar sem þarf að leiða vatnið inn í borg­ina og bæina og eins í lögn­unum fyrir frá­rennsl­i,“ segir hann. Kostn­aður sé gríð­ar­legur í stórum hreinsi­stöðvum en sá kostn­aður mið­ist við vatns­magnið en ekki beint mengun vatns­ins. Hann segir að þannig auk­ist umfangið vegna auka­vatns á öllum bún­aði bæði í lögnum og í hreinsi­bún­aði sé hann til stað­ar.

Örplast fer beint út í sjó

Sum­arið 2016 vann MATÍS skýrslu um losun örplasts með skólpi í sam­starfi við Sænsku umhverf­is­rann­sókn­ar­stofn­un­ina (IVL), Finnsku umhverf­is­stofn­un­ina (SYKE) og Aalto-há­skól­ann í Finn­landi. Rann­sakað var hvort skólp­hreinsi­stöðvar væru gátt fyrir öragnir út í umhverf­ið. Plast­agnir mynd­ast með tvenns konar hætti, ann­ars vegar með nið­ur­broti af stærra plasti og hins vegar geta þetta verið öragnir sem not­aðar eru í til dæmis snyrti­vör­ur. Að mati sér­fræð­inga ógna þær líf­ríki hafs­ins en í skýrsl­unni er greint frá því að eina hreins­unin sem fram­kvæmd er á Íslandi, meðal ann­ars í Kletta­garða­stöð­inni og skólp­hreinsi­stöð­inni í Hafn­ar­firði, sé gróf­sí­un. Agnir sem eru minni en milli­metri og niður í hund­rað míkró­metra fara gegnum stöðv­arnar og út í umhverf­ið. Annað er upp á ten­ingnum í Sví­þjóð og Finn­landi þar sem 99 pró­sent öragna setj­ast í óhrein­indin sem skilj­ast frá frá­veitu­vatni eftir for­hreins­un. Ljóst er því að úrbóta er þörf í hreinsi­stöðvum á Ísland­i.

Hrönn Jörundsdóttir Mynd: LynkedIn

Hrönn Jörundsdóttir Mynd: LynkedIn

Hrönn Jör­unds­dótt­ir, sviðs­stjóri og sér­fræð­ingur hjá MAT­ÍS, vann að skýrsl­unni en hún segir að rann­sóknir á örplasti séu til­tölu­legar nýjar af nál­inni og því sé enn verið að bæta við þekk­ing­una á þessu sviði. Áhrif stærra plasts sé aug­ljós­ara og þess vegna sé örplastið lúm­skara ef svo mætti að orði kom­ast og smæð þess því sér­stakt áhyggju­efni. Hún segir að örplast sé talið hafa tvenns konar áhrif á umhverf­ið. Í fyrsta lagi inni­heldur plast fjölda óæski­legra efna. Mikið af efna­sam­böndum séu í plasti, eins og mýk­ing­ar­efni og lit­ar­efni, sól­ar­vörn og svo fram­veg­is, sem geta lekið úr því. Það geti gerst inni í lík­ama dýr­anna og þá séu meng­andi efnin komin inn í fæðu­keðju okk­ar. Plast sé í eðli sínu feitt efni og mengun í sjónum sem er fitu­sækin sæki í plast­ið. Það dragi í raun í sig meng­andi efni úr sjónum sem geti losnað þegar þau koma inn í lík­amann.

Vanda­málið hverfur ekki 

Í öðru lagi segir hún að áhrifa gæti sem minna hafa verið rann­sökuð og vitað er um. Hrönn segir að hugs­an­lega hafi plast­ögnin sjálf áhrif á líf­ver­ur. Þegar plast­ögnin sé orðin mjög lítil þá getur hún mögu­lega kom­ist yfir þarma­vegg­ina, út úr þörm­unum og inn í blóð­rás­ina. Og þegar hún sé farin að flakka um lík­amann með blóð­rásinni þá geti hún kom­ist hvert sem er. Ekki er vitað um áhrifin af því, að sögn Hrann­ar, og erfitt að meta.

Hrönn segir að Íslend­ingar verði að hugsa skólp­hreinsun upp á nýtt og fara að taka ábyrgð á þessum hlut­um. Ekki sé ein­ungis mik­il­vægt að huga að líf­rænni mengun heldur verði að skilja að plast­agnir og lyfja­leifar komi úr skólp­inu sem fer út í sjó og menga út frá sér. Plastið brotni ekki niður og því hverfi vanda­málið ekki þrátt fyrir að því sé dælt út í sjó.

Fleira áhugavert: