Skolpmaur (húsamaur) – Kvikindislegar boðflennur?

Heimild:  

 

Febrúar 2001

Nútímamaðurinn vill lifa í hreinu umhverfi og hann trúir því að svo sé, grápöddur, járnsmiðir, köngulær og annar slíkur ófögnuður var aðeins til í hlóðareldhúsum þar sem brennd var sauðaskán og mykjuhaugur var steinsnar frá húskofunum, sem oft voru ekki upp á marga fiska.

Á gljáfægðu parketti eða íðilmjúkum gólfteppum er allt hreint og fágað, sængurlín hrein að ekki sé talað um kroppinn eftir freyðibað og ilmolíur.

En ekki er allt sem sýnist; það er miklu fjölbreyttara líf inni á hinum fáguðustu heimilum og við því er ekkert að gera, við erum einu sinni hluti af náttúrunni og því lífi sem þrífst hvarvetna. Meðan við ekki sjáum hina smávöxnu heimilisvini eða verðum ekki vör við þá er ekki um annað að ræða en viðurkenna tilvist þeirra og gleyma þeim síðan.

En að sjálfsögðu köstum við ekki hreinlætinu á dyr, það er ágætt en þó án alls ofstækis.

Búir þú ekki á jarðhæð eða í kjallaraíbúð munu þeir ekki banka upp á hjá þér, raunar banka þeir aldrei, þeir bara koma si svona, dansa á parkettinu og gólflísunum og una hag sínum sæmilega, annars væru þeir tæplega á þessu flakki.

Þessi kvikindi eru maurar, oft einnig kallaðir húsamaurar eða skólpmaurar, og ef þeir eru komnir í heimsókn hafa þeir frá tíðindum að segja eins og hefur verið skylda gesta lengst af.

Sumir gestir segja góð tíðindi, aðrir slæm og þessi litlu kvikindi eru einmitt í síðarnefnda hópnum.

Heimkynni þeirra eru skólplagnirnar í grunni hússins, þar er nóg að bíta og brenna enda dýralífið talsvert fjölskrúðugt, allt frá þessum agnarsmáu maurum upp í stórar, feitar, loðnar rottur.

En meðan allt er með felldu í skólplögnunum þarf vart að búast við heimsókn.

Tíðindin sem þessir kvikindislegu gestir eru að segja gestgjafanum, sem þó hefur engum boðið úr þessum ættbálki, eru þau að eitthvað er að bila í skólplögnunum undir húsinu, það hafa myndast glufur þar sem skólpið jafnvel rennur út úr leiðslunni og þá bregða þessir íbúar á leik og fara í heimsreisu.

Og nú eru þeir komnir „upp“ á gólf, íbúum hússins til mikillar hrellingar.

 

Grípa þarf til aðgerða

Þetta gerist tæplega í húsum sem eru yngri en svo sem aldarfjórðungs gömul, eða með öðrum orðum, í húsum þar sem skólplagnir í grunni eru úr steinrörum, en þó er þetta ekki algilt.

Hér er sett fram sú alhæfing að steinrör í grunni húss, sem eru 40-50 ára gömul, séu ónýt og þá sé ekki annað að gera en endurnýja lögnina.

En ef húsið, og þar með lögnin, er nokkuð yngri er mögulegt að hún sé ekki með öllu ónýt og þá er tvennt nærtækast.

Í fyrsta lagi að skoða lagnirnar að innanverðu með því að senda myndavél inn í þær, en hún sýnir á skjá ástand þeirra og þetta ferðalag er hægt að taka upp á myndband og skoða vel og vandlega.

Í öðru lagi, ef lagnirnar virðast að mestu heillegar er hægt að fóðra þær að innan með þar til gerðu plastefni, sem getur lengt líftíma þeirra umtalsvert.

En sú leið, að endurnýja lagnirnar algjörlega, er samt sú sem er öruggust.

 

En hvers vegna fara lagnirnar svona?

Steypan í rörunum morknar með árunum, gæði þeirra voru takmörkuð á fyrri árum, þetta er eðlileg hrörnun.

Vís maður kom með þá tilgátu að jarðskjálftarnir á síðasta ári hafi kannski orsakað gliðnun gamalla skólpröra.

Það er alls ekki galin hugmynd.                   

 

Vinsælast á vefnum 2016-2017

nr.13

Skolpmaur (húsamaur) – Kvikindislegar boðflennur?

Fleira áhugavert: