Þjófræði náttúruauðlinda – Þaðan koma þjófsaugun..

Heimild:  

.

Ágúst 2017

Þorvaldur Gyflason

Þaðan koma þjófsaugun

Hún heitir Isabel dos Santos og er sögð vera ríkasta kona Afríku. Eignir hennar eru metnar á 3,5 milljarða Bandaríkjadala eða 375 milljarða íslenzkra króna. Fjárhæðin er stjarnfræðileg: hún jafngildir samanlögðum skuldum íslenzkra sjávarútvegsfyrirtækja í árslok 2015 skv. upplýsingum Hagstofu Íslands. Isabel dos Santos er einn valdamesti viðskiptajöfurinn í Portúgal í krafti eignarhalds á umtalsverðum hlut í bönkum, fjölmiðlum og orkufyrirtækjum Portúgals að ekki sé minnzt á eignir hennar heima fyrir.

Og hver skyldi hún vera þessi kona? Hún segist vera athafnaskáld. Ég byrjaði að selja egg þegar ég var sex ára gömul, segir hún hróðug. Hún er forstjóri ríkisolíufélagsins í landi sínu og á ráðandi hlut í stærsta bankanum. Faðir hennar heitir José Eduardo dos Santos og var forseti Angólu í 38 ár samfleytt þar til um daginn að hann vék hálfáttræður að aldri fyrir nýjum forseta en þó ekki fyrr en hann hafði falið dóttur sinni stjórn olíufélagsins.

Isabel dos Santos

Fólkið er fátækt þótt landið sé ríkt
Angóla á sér blóði drifna sögu. Þar var fyrst háð frelsisstríð gegn portúgölskum nýlenduherrum 1961-1974 og síðan borgarastyrjöld 1975-2002 svo hvergi stóð steinn yfir steini. Þegar friður brauzt út 1975 breytti Lúanda undrafljótt um svip og varð ein dýrasta borg heims. Kókdósin kostaði tíu dali sem er vel yfir þúsundkall. Skýjakljúfar flugu upp í krafti olíuútflutningstekna sem námu samtals 600 milljörðum dala 2002-2015. Summan jafngildir um 80.000 dölum eða 8,5 mkr. á hverja 4ja manna fjölskyldu í landinu. Féð skilaði sér þó ekki nema að sáralitlu leyti til fólksins, rétts eiganda olíuauðsins skv. alþjóðasáttmálum um mannréttindi. Stjórnarskrá Angólu frá 2010 er því marki brennd að náttúruauðlindir landsins eru þar lýstar ríkiseign frekar en þjóðareign. Þessi galli auðveldar handhöfum ríkisvaldsins að hlunnfara þjóðina í eigin þágu.

Fólkið er því enn sem fyrr bláfátækt þótt landið sé ríkt. Helmingur vinnandi fólks þarf að skrimta á þrem dölum á dag, röskum 300 krónum. Sjötta hvern barn deyr áður en það nær fimm ára aldri sem er mesti barnadauði sem þekkist um heiminn. Lýðræði er ábótavant svo fólkið getur ekki vegna fátæktar og skorts á mannréttindum borið hönd fyrir höfuð sér. Yfirstéttin með fjölskyldu forsetans fv. í broddi fylkingar kemst því upp með að láta greipar sópa. Þegar rannsókn var hafin í Portúgal á fjárböðun og mútum Angóla í Portúgal og Angólar kvörtuðu undan rannsókninni baðst ríkisstjórn Portúgals afsökunar á ónæðinu. Portúgal er þvottavél, segja Angólar.

Frá auðræði til þjófræðis
Skýringarinnar á því sem gerzt hefur í Angólu er ekki langt að leita. Olíu er auðstolið. Ef fátækt og skortur á lýðræði og mannréttindum veita almenningi ekki nauðsynlega vernd getur spillt og gráðugt fólk gengið á lagið og farið sínu fram. Image result for AngólaÞannig getur fáræði (e. oligocracy) snúizt upp í auðræði (e. plutocracy) og þaðan í þjófræði (e. kleptocracy) eins og gerzt hefur í Angólu og ekki bara þar heldur einnig t.d. í Nígeríu, Rússlandi, Sádi-Arabíu og Úkraínu. Þannig var þetta í Kongó sem hét þá Saír á löngum valdatíma Móbútús forseta 1965-1997 og er enn. Yfirleitt eru ríkulegar náttúruauðlindir, einkum olía og góðmálmar, uppspretta ófagnaðarins eins og í löndunum að framan, en þó koma önnur hlunnindi, ríkiseignir og upptaka þeirra einnig við sögu eins og t.d. í Kína og miklu víðar. Tyrkland og Ungverjaland færast nú nær þjófræði þótt hvorugt landið eigi umtalsverðar náttúruauðlindir. Þar reyna stjórnarherrarnir að koma málum svo fyrir að þeir sitji helzt einir að öllum helztu gögnum og gæðum og andstæð öfl eigi litla sem enga möguleika á að ná völdum eftir leikreglum lýðræðis.

Þrjú einkenni þjófræðis
Mörkin milli auðræðis og þjóf­ræðis eru stundum óljós. Einn skýr vottur þjófræðis er auðsöfnun stjórnmálamanna, vina þeirra og vandamanna langt umfram framtaldar tekjur þeirra af stjórnmála- og embættisstörfum. Annar vottur er þverrandi virðing stjórnmálamanna fyrir lýðræði, gagnsæi, lögum og rétti og ágeng eftirsókn þeirra og vina þeirra eftir yfirráðum yfir eða eignarhaldi á bönkum og ríkisfyrirtækjum auk náttúruauðlinda. Þriðji vottur þjóf­ræðis er pilsfaldakapítalismi, öðru nafni sósíalismi andskotans sem gengur út á að hirða allan ávinning í eigin vasa en varpa áhættu og tapi yfir á saklausa vegfarendur með ríkisvaldið að vopni.

Þessi einkenni skarast. Þeim sem sölsa undir sig og sína auðlindir í þjóðareigu er t.d. varlega treystandi fyrir sölu ríkiseigna. Kannast nokkur við það?

Fleira áhugavert: