Svíar ætla að búa til jarðvarma..

Heimild:  

 

Júlí 2004

Úr útvarpstækinu berast heldur hrollvekjandi fréttir á hverjum degi.

Ekki einungis um stríð og manndráp, það koma skuggalegar fréttir af sældarlífi okkar Vesturlandabúa.

En koma ekki einungis góðar fréttir frá þeim sem búa við allsnægtir? Því miður er mannskepnan engan veginn fullkomin þó hún virðist geta þolað flest.

Okkur finnst með ólíkindum hvað fólk í stríðshrjáðum löndum þolir, fólk sem lifir við sárustu fátækt í hreysum birtist oft á skjánum með reisn í framgöngu og klæðaburði. En það sem erfiðast gengur að höndla er velmegun, þá fer að halla undan fæti.

Það fer litlum sögum af því að menn taki eigið líf í löndum þar sem stríð geisa, þar reynir hver og einn að halda lífi, það eru aðrir sem eru tilbúnir að murka úr þeim lífið. Hins vegar virðast margir verða saddir lífdaga í bílífinu þar sem allt er til af öllu.

Fréttin sem varð tilefni þessara hugleiðinga er af ungum börnum, að eitt af því sem hrjáir okkar yngstu afkomendur meir og meir sé sykursýki. Orsakir þessa sjúkdóms er ekki skortur af neinu tagi, heldur ofgnótt alls. Þannig er líf okkar að verða að þeir sem mest njóta gæðanna taka þau eins og sjálfsagðan hlut, gæði sem forfeður okkar börðust fyrir með svita og tárum teljum við svo sjálfsögð að við erum búin að gleyma þeim fyrir löngu.

Enn eru ofan moldu Íslendingar sem muna tímana tvenna, muna köld hýbýli, lýsingu af skornum skammti, það þarf ekki að fara aftur til grútarlampans til að finna slíka tíma. Steinolíulampar og luktir þóttu mikið þing á sinni tíð, bændur og búalið gengu til gegninga með luktina í annarri hendi og mjólkurfötu eða mykjuskóflu í hinni í svartasta skammdeginu og þótti sú birta sem þar gafst ágæt.

Það eru ekki allar þjóðir svo heppnar að geta dælt upp úr jörðinni heitu vatni sem rennur inn í húsin ár og síð og streymir um ofna og kroppa. Eru þetta ekki gæði sem eru svo sjálfsögð að við tökum tæpast eftir þeim nema og þá fyrst ef þau hætta að streyma?

Sænskt hugvit

Nágrannar okkar í Skandinavíu eru ekki svo heppnir að heitt vatn streymi upp úr þeirra fósturjörð. Norðmenn dæla vissulega upp ógrynni af olíu og eru að verða svo ríkir að til vandræða horfir, en það er önnur saga. En hjá nágrönnum þeirra er enga olíu að finna, þar leggja menn stöðugt höfuðið í bleyti til að finna nýja orkugjafa. Nú eru Svíar í fúlustu alvöru að fara að nýta sér jarðvarma þó ekkert heitt vatn, eða sáralítið, sé að í finna í sænskri grund.

Undanfarið hafa sænskir lagnamenn flykkst á námskeið þar sem námsefnið er að búa til jarðvarma og er talsverður hugur í mönnum. Þarna er um að ræða borholur við einstök hús þar sem plaströr eru sett í borholurnar og vatni dælt niður og upp aftur. Þar með hefur vatnið náð í nokkurn varma í neðri jarðlögum eða vatnsæðum þar niðri. Þetta er þó enginn háhiti svo það er nauðsynlegt að vinna þann varma í varmadælum sem einfaldast er að lýsa sem öfugum kæliskáp.

En menn hugsa einnig stórt þar í landi og í Malmö við Eyrarsund, sem við köllum á íslensku Málmey, eru uppi stærri plön. Þar er ætlunin að fara í djúpborun eins og gert er hérlendis, bora 2 km holur.

En þarna niðri er ekki búist við neinu heitu vatni að ráði en talsverðum hita í sandsteinslagi sem bora á niður í. Þess vegna verður sænski jarðvarminn í Málmey til á þann hátt að vatni er dælt niður um eina borholu og upp um aðra, þetta verður sem sagt hringrásarkerfi.

Hvatinn að þesum framkvæmdum er af tvennum toga. Í Svíþjóð er stefnt að því að loka öllum kjarnorkuverum, sem framleiða stóran hluta af þeirri orku sem notuð er í landinu. Í öðru lagi er leitað með logandi ljósi að orku sem ekki eykur koltvísýring (CO2) í andrúmslofti.

Á meðan þessar áætlanir Svía eru að verða að veruleika sóum við okkar heita jarðvarma og lítum á hann sem hver önnur sjálfsögð gæði. En erum við ekki þjóða best sett með litla mengun og sleppum við ekki sáralitlu af koltvísýringi út í andrúmsloftið? Því miður erum við ekki svo vel sett, bílaflotinn og skipastóllinn sjá til þess.

Fleira áhugavert: