Sumarhús – Sól, orka og lífræn salerni

Heimild:  

.

Apríl 2017

Smella á mynd til að stækka

Þá er sumardagurinn fyrsti liðinn, hugurinn er þegar kominn inn í sumarið, menn eru farnir að huga að görðum og ekki síður að sumarhúsum.

Þeim hefur fjölgað mjög mikið á síðustu árum, bæði sumarhúsum í einkaeign og ekki síður í eigu félaga og fyrirtækja.

Okkur, sem búsett erum á höfuðborgarsvæðinu, er tamt að hugsa um tvö landsvæði þar sem sumarhúsabyggð er hvað mest; uppsveitir Árnessýslu og Borgarfjörð.

En sumarhúsabyggðir eru til í öllum landshlutum, að sjálfsögðu.

Í flestum sumarhúsum eru öll þægindi, þau eru tengd hitaveitu, rafveitu, þar eru fráveitukerfi, oft með rotþróm og ekki má gleyma heita pottinum ómissandi.

Innanhúss er sömu sögu að segja, öll heimilistæki fyrir hendi, útvarp og sjónvarp og bað með öllum þægindum.

Þannig er í flestum tilfellum sumarhús Íslendinga, landinn er lítið gefinn fyrir meinlæti, slíkir lífshættir henta ekki nútímamanninum.

Sumarhús án tengingar við nútímann

Enn finnast þó nokkrar sálir sem vilja breyta algjörlega um lífsstíl þegar farið er úr þéttbýlinu og í sumarhúsið. Þar láta menn sér nægja takmarkaðri þægindi, þótt ekki verði hjá því komist að hafa einhverja orku til eldunar og ljósa og einhversstaðar verða menn að geta gengið örna sinna, seint verður hjá því komist.

Oft er þetta vegna þess að sumarhús er byggt á fögrum stað fjarri annarri byggð þar sem ekki er hægt að komast í þjónustu almenningsveitna, þannig vilja margir hafa það, þetta er ákveðinn lífsstíll sem vissulega getur verið eftirsóknarverður.

En það fer þó aldrei hjá því að einhver þægindi fljóta með lengst inn á öræfi og þar er gasið efst á lista, einstaklega þægileg orka sem umgangast verður með varúð.

Með skynsemi og þekkingu að vopni ættu allir að geta komið ósárir frá notkun gass, en því miður er stundum misbrestur á að þetta tvennt sé tekið með í ferðalagið og þá getur voðinn verið vís. Því miður verða á hverju ári einhver óhöpp af gastækjum í tjöldum og sumarhúsum, óhöpp sem hægt er útrýma gjörsamlega ef hver og einn kynnir sér rækilega leiðbeiningar og varnaðarorð varðandi notkun gastækja.

En nóg um predikanir í bili, gasið er sjálfsagður ferðafélagi sem nýtist til eldunar, ljósa og hitunar.

Sólin og setan

Fyrir þá sem eiga sumarhús úr alfaraleið, þar sem engin tenging er möguleg við almenningsveitur, er þó hægt að gera sér ýmislegt til, nokkuð sem getur orðið sjálfstætt verkefni sem eykur ánægju af dvölinni.

Öll orka kemur beint eða óbeint frá sólinni, kraftur kola og olíu í jörðu er þaðan kominn, einnig orkan í fallvötnunum.

En bein notkun á sólskini til orkuframleiðslu er sífellt að aukast og það er nokkuð sem svo sannarlega gæti verið til mikilla þæginda og einnig öryggis í afskekkta sumarhúsinu.

Orku sólarinnar er þá safnað í sólarpanela, sem oftast nær er komið fyrir upp á þaki, þar safnast orkan saman með því að vökvi hitnar og beinasta notkunin er upphitun hússins, en tæknin gefur einnig möguleika á að breyta orkunni í raforku.

Þegar rætt er um sólarorku hérlendis kemur oftast það andsvar að sólskin hérlendis sé svo takmarkað að slík kerfi komi að litlu gagni. Svo er aldeilis ekki, hvarvetna á norðurhveli jarðar eru sólarorkuver, stór sem lítil, og þeim fer fjölgandi.

Annað, sem undarlega litla útbreiðslu hefur fengið, eru þurrsalerni. Þau eru aðallega af tvennum toga, annars vegar salerni þar sem saur er eytt með efnum og hins vegar salerni þar sem saurinn safnast saman í tanki og umbreytist í þar á alllöngum tíma í moldarlíki, sem verður einhver magnaðasti áburður sem völ er á.

Sú skoðun virðist ríkjandi að allt annað en vatnssalernið sé molbúaháttur eða jafnvel sóðaskapur.

Það er langt frá því og í sumum sumarhúsabyggðum í Svíþjóð er vatnssalernið bannað, aðeins leyfð þau salerni sem fyrr er lýst, aðallega sú gerðin sem brýtur niður úrganginn á lífrænan hátt, ekki með ýmiss konar aukaefnum.

Hvort tveggja, lítil sólarorkuver og lífræn salerni, ættu að vera góðir kostir fyrir þá sem vilja komast svolítið frá hinum stöðluðu lífsháttum borgarbúans þegar í sumarhúsið er komið.

Fleira áhugavert: