Heilbrigð hús – Peningamaskínur ..minni útgjöld

Heimild:  

 

Maí 2006

Ég skildi, að orð eru á Íslandi til um allt, sem er hugsað á jörðu,“ kvað Einar Benediktsson í kvæðinu „Móðir mín“. Að vísu mun einnig vera hægt að finna texta eftir þjóðskáldið í óbundnu máli þar sem hann kvartar undan orðfæð íslenskunnar. Hvorutveggja eflaust rétt ályktað hjá þeim merka manni. Hann skorti aldrei orð þegar hann orti sín mögnuðu ljóð, en þegar Einar horfði sínum haukfránu augum inn í framtíðina hefur eflaust stundum verið erfitt fyrir hann að orða hugsunina, sem oftar en ekki fjallaði um tækni sem ekki þekktist hérlendis á þeim tíma.: Þetta kemur upp í hugann þegar tvö alþjóðleg orð skjóta upp kollinum vegna þess að um þau er meiningin að fjalla, að minnsta kosti að nokkru.

Þessi tvö orð eru klima og miljö.

Vissulega eru til íslensk orð sem eiga að túlka það sem að baki orðunum býr, en sumum finnst þau íslensku heiti ekki ná nægilega vel utan um hugtökin.

Hugtakið sem ber hið alþjóðlega heiti klima hefur á íslensku nafnið loftslag, en miljö þýðum við hinsvegar sem umhverfi. Hvorutveggja gildir jafnt utan dyra sem innan og þó að okkur finnist að umhverfi sé að mestu úti í guðs grænni náttúrunni, þá skulum við ekki síður beina sjónum okkar að hugtakinu umhverfi innanhúss.

Fyrir nokkru mættust mætir menn og konur í Kaupmannahöfn, konurnar auðvitað í minnihluta. Fólkið hafði á einhvern hátt látið sig varða loftslag og umhverfi. Slíkar samkomur eru svo sem engin tíðindi þar ytra, fólk er alltaf að finna sér tilefni til að koma saman, gleðjast, lyfta glösum og veita hvert öðru viðurkenningu. Tilefni þessa fundar var einmitt að veita viðurkenningar og þar voru talsverðar upphæðir afhentar verðugum mönnum. Fyrirtækið sem reiddi peningana fram, að jafnvirði 5 millj. kr. íslenskar, er eitt þekktasta fyrirtæki í heiminum sem framleiðir og selur steinull, fyrirtæki með enska heitinu Rockwool að sjálfsögðu. Framleiðsla þess sést ekki lengur hérlendis, Steinullarverksmiðjan á Sauðárkróki sér landanum fyrir nægri steinull.

Hús þar sem allt er eins og best verður á kosið með hita, hreinu loft og raka eru hús sem eru hreinar peningamaskínur

En áfram með smjörið. Þeir sem skiptu á milli sín milljónunum voru tveir prófessorar, annar danskur en hinn finnskur. Viðurkenningarnar voru fyrir rannsóknir þeirra á klima eða loftslagi innanhúss og þar kom ýmislegt fróðlegt í ljós þegar þeir kynntu sín fræði.

Mörgum mun eflaust koma á óvart að þeir fullyrtu að hinn venjulegi maður í iðnvæddu landi ver 90% af tíma sínum innanhúss, ýmist á heimili eða í vinnu. Frá þessu eru að sjálfsögðu undantekningar, þeir eru talsvert margir til lands og sjávar sem puða dag- eða næturlangt utandyra. En þegar litið er á þennan langa tíma innanhúss þá er skiljanlegt að það skipti miklu máli hvernig loftslagið er þar og það hafa þeir einmitt verið að rannsaka.

En hvernig þarf loftslagið innanhúss að vera til að mannlegum verum líði þar vel? Auðvitað er fyrst bent á hæfilegan, jafnan og góðan hita. En það þarf fleira til. Það þarf hreint loft og hæfilegan raka í lofti. Hérlendis er enginn vandi að hafa nægilegan hita, en þá kemur spurningin, er hann ekki of mikill, er hann jafn eða kemur hann í bylgjum? Er nægilegt af hreinu og góðu lofti og er rakinn hæfilegur? Þessir tveir verðlaunuðu prófessorar höfðu svo sannarlega unnið sína vinnu og sökkt sér niður í sínar rannsóknir. Þar kemur fram að hreint loft og réttur raki er jafnvel mikilvægari fyrir þá sem í húsum búa og vinna en nokkurn tíma réttur hiti. Það er einnig sláandi að þeir sýndu fram á að það hefur afgerandi áhrif á heilsufar, og þar með fráveru vegna veikinda, ef hreint loft og réttur raki er ekki nægjanlegt á vinnustað.

En því miður þá er það mjög algengt að þessu er í engu sinnt og eitt er víst; ástandið er ekki betra hérlendis.

En svo komu varnaðarorðin. Of mikill raki er einnig slæmur, getur valdið skemmdum á húshlutum, valdið myglu sem aftur getur haft slæm áhrif á heilsuna. En of mikill raki kemur oftast vegna þess að þá eru hlutföll raka og loftræsingar ekki rétt, næg rakagjöf en ekki næg loftskipti.

Víða í norrænum löndum eru menn hættir að treysta á gluggana til loftræsingar, koma sér upp búnaði sem skiptir um loft í skólastofunni eða hver sem íveru- og vinnustaðurinn er.

En þá má rakagjöfin ekki gleymast, þetta er samspil þriggja mikilvægra þátta, varma, lofts og raka.

Og aftur til upphafsins. Vinnustaður í húsi þar sem allt er eins og best verður á kosið með hita, hreinu loft og raka eru hús sem eru hreinar peningamaskínur sagði annar verlaunaþeginn. Betra heilbrigði þeirra sem þar starfa og færri veikindadagar eru uppspretta arðsemi fyrir alla.   

Fleira áhugavert: