Frárennsli – Skólp flæddi inní samkomuhúsið

Heimild:  

 

Janúar 2017

Skólp flæddi inn í samkomuhúsið á Arnarstapa

„Það er ljóst að Samkomuhúsið á Arnarstapa verður ekki opnað á næstunni. Í gær hafði flætt upp um öll niðurföll á báðum hæðum og upp úr starfsmannasalerni í kjallara. Í dag hafði aftur tekið að flæða og þegar ég fór úr húsinu í kvöld var stríður straumur vatns sem flæddi upp úr niðurfalli sturtubotns í kjallara.“ Þetta ritar Ólína Gunnlaugsdóttir, eigandi og framkvæmdastjóri Samkomuhússins á Arnarstapa, á Facebook-síðu sína í gær, miðvikudag. Hún segir að samband hafi verið haft við bæjartæknifræðing þann dag en segir enga aðstoð hafa borist fyrr en kl. 19:00 að kvöldinu þegar menn frá Stífluþjónustu Lárusar mættu á staðinn. „Samkomuhúsið er tengt frárennsliskerfi á vegum Snæfellsbæjar en það er búið að vera ljóst í langan tíma að frágangi þess er ábótavant,“ segir hún. „Seyra flæðir úr rotþróm og hefur gert frá því að þrærnar voru settar niður fyrir nokkrum árum. Ólykt er alltaf úr þrónum og leggur yfir svæðið.“ Hún segir að um sé að ræða fitustíflur frá nærliggjandi veitingahúsi. Ólína bætir því við að sveitarfélagið hafi lengi vitað af ástandinu en ekkert aðhafst. „Starfsfólk og stjórnendur Snæfellsbæjar hafa lengi vitað að um vandamál er að ræða en hafa hunsað það hingað til,“ segir hún.

 

Ferskvatn leiðir í rótþró

„Okkur þykir afskaplega leitt að þetta skyldi hafa gerst og að sjálfsögðu mun sveitarfélagið bæta það tjón sem því ber að bæta,“ segir Kristinn Jónasson, bæjarstjóri í Snæfellsbæ, í samtali við Skessuhorn. „Það er tvennt sem gerðist þarna. Í fyrsta lagi stíflaðist bæjarlögnin fyrir framan húsið, þornaði upp vegna lítillar notkunar og það varð til þess að frárennslið frá Samkomuhúsinu komst ekki frá húsinu. Hins vegar var allt í lagi með rotþróna. Í öðru lagi, og það er vandamálið sem við þurfum að leita uppi, þá var heilmikið ferskt vatn sem flæddi upp úr niðurföllunum, eins og sást á myndbandi sem Ólína birti, og það er þetta ferska vatn sem tekur með sér úrgang sem fyrir er í lögnunum frá Samkomuhúsinu þegar flæðir inn í húsið. Ferskt vatn á ekki að vera í þeim frárennslislögnum bæjarins sem liggja út í rotþrær,“ segir Kristinn. „Það sem við munum gera í dag, bæði starfsmenn áhaldahúss og sérfræðingar, er að reyna að finna hvaðan þetta ferska vatn kemur sem veldur þessu tjóni. Það gengur ekki að ferskt vatn komist inn í lagnir sem liggja að rotþróm. Rotþrær eiga bara að taka við saur og síðan sígur vatnið frá og massinn verður eftir í þrónni, annars myndu þær bara fyllast strax af vatni. Þess vegna verðum við að finna hvaðan þetta vatn kemur,“ segir Kristinn.

Hann segir bæjaryfirvöld hafa brugðist tafarlaust við erindinu. „Við fengum fyrsta símtal rétt fyrir kl. 17:00 í gær frá eigendum og rétt fyrir kl. 18:00 var tekin ákvörðun að senda okkar mann úr Stífluþjónustunni af stað í samráði við eigendur, en í millitíðinni höfðu farið fram nokkur símtöl á milli aðila. Okkur þykir afskaplega leiðinlegt að eigendur Samkomuhússins  hafi orðið fyrir tjóni og sveitarfélagið mun leita allra leiða til að finna lausn á þessu máli,“ segir Kristinn að lokum.

Skjáskot úr myndbandi sem Ólína birti með færslunni þar sem sést hvar ferskt vatn flæðir upp um niðurfall.

Fleira áhugavert: