Er íslensk raforka strönduð og lítil arðsemi?

Heimild:  mbl

 

Október 2015

Strönduð orka og lítil arðsemi

ketill sigurjónson 1

Ketill Sigurjónson

Í kjölfar nýlegs fundar Bresk-íslenska viðskiptaráðsins um mögulegan sæstreng milli Íslands og Bretlands hafa orðið nokkrar umræður og skrif um ágæti eða ómöguleika slíks verkefnis. Í þessu sambandi er vert að árétta nokkur atriði sem valda því að sæstrengur af þessu tagi er áhugavert tækifæri fyrir Íslendinga.

Þau jákvæðu tækifæri sem sæstrengur býður okkur upp á felast m.a. í möguleikanum á aukinni og jafnvel stóraukinni arðsemi af raforkusölu. Eins og útskýrt var í síðustu grein minni hér á viðskiptavef mbl.is. Að auki býður sæstrengur t.d. upp á aukið orkuöryggi á Íslandi og að ná betri nýtingu af orkufjárfestingunum hér. Þarna er þó ýmis óvissa fyrir hendi og afar mikilvægt að skoða málið vel og af kostgæfni og fagmennsku. Hér verður fjallað um nokkur mikilvæg atriði vegna sæstrengsverkefnisins.

Sæstrengur skapar Íslandi tækifæri til að losna af strandstað

Ísland er langstærsti raforkuframleiðandi heims miðað við höfðatölu. En vegna þess að Ísland er aflokað raforkukerfi er orkan hér strönduð. Skortur á aðgangi okkar að stærri raforkumarkaði með mikla eftirspurn er líkt og ef t.d. Noregur eða Katar ættu enga möguleika á að selja olíu eða jarðgas til útlanda.

Ef Noregur og Katar væru í slíkri stöðu væri e.k. offramboð af olíu og gasi í þessum löndum – og verðið lágt og arðsemin miklu lægri en ella. Sama má segja um íslensku orkuna. Eins og staðan hér er, og hefur verið, er orkan hér strönduð. Og mikilvægt hagsmunamál fyrir þjóðina alla að a.m.k. hluti orkunnar eigi aðgang að erlendum mörkuðum, þar sem gott verð býðst.

Norðmenn sjá eðlilega mikinn hag í útflutningi á bæði jarðgasi og olíu (og það jafnvel þó svo þetta séu ekki endurnýjanlegar auðlindir). Ef við Íslendingar höfnum tækifæri til raforkuútflutnings væri það álíka eins og Norðmenn höfnuðu því að flytja út olíu og gas.

Ættu Norðmenn ekki að stunda útflutning á orku?

Með slíkri einangrunarstefnu væri eldsneytisverð vissulega mögulega eitthvað lægra í Noregi en er – vegna mikils framboðs af olíu í landinu. En með slíkri stefnu nytu Norðmenn miklu minni skatttekna – og ættu engan olíusjóð. Sá mikli sjóður og skatttekjurnar, sem tryggja þeim stöðu og lífskjör sem einhver allra auðugasta þjóð heims, væru þá ekki svipur hjá sjón.

Það er reyndar svo að með sömu rökum og þeim sem beitt hefur verið gegn útflutningi á raforku frá Íslandi, þá ættu þjóðir yfirleitt ekki mikið að vera að stússa í útflutningi. Því það sé svo áhættusamt – eða þá að svoleiðis leiði bara til þess að sama vara verði dýrari en ella á heimamarkaðnum. Slíkur málflutningur stenst auðvitað ekki hagfræðilega. Ef það er unnt tæknilega að flytja út íslenska raforku og selja hana þannig á háu verði, þá er þar um að ræða mjög áhugavert efnahagslegt tækifæri fyrir Íslendinga. Eðlilegt er að skoða þetta tækifæri af alvöru og fordómalaust.

Nánari könnun og viðræður eru mikilvægar

Einangrunarstefna Norðmanna gagnvart olíu og jarðgasi væri augljóslega firra. Sama gildir um málflutning þeirra sem tala gegn sæstrengshugmyndinni. Sá málflutningur er að megninu til tóm vitleysa, þar sem farið er rangt með staðreyndir um breska hvatakerfið um endurnýjanlega orku og nefndar kostnaðartölur um sæstreng sem styðjast ekki við neinar haldbærar röksemdir.

Einnig má oft sjá í skrifum gegn sæstrengshugmyndinni að menn setji fram fyrirframgefnar niðurstöður. Svo sem um að útilokað sé að fá nógu hátt verð fyrir orkuna, sæstrengurinn verði alltof dýr og/eða að stórkostlegar tækniframfarir séu handan við hornið sem muni tryggja heiminum ótakmarkaða raforku á lágu verði.

Þetta er skrýtinn málflutningur. Því það er augljóst að umræddri óvissu um t.d. orkuverð og kostnað verður ekki eytt nema með ítarlegri könnun og viðræðum. Hið eina rétta í stöðunni er að ganga þar til verks, þ.e.a.s. að kanna málið ítarlega. Og þ.á m. að eiga viðræður við bresk stjórnvöld og fá á hreint hvort þarna væri unnt að ná saman um orkuverð og orkumagn.

Ýmislegt bendir til þess að þarna sé afar áhugavert tækifæri fyrir hendi, sem geti skipt miklu fyrir hagsmuni Íslendinga og verið jákvætt fyrir íslenskan efnahag. Það er samt ekki víst að verkefnið sé raunhæft eða nægjanlega arðbært. Það mun koma í ljós með nánari athugun og viðræðum.

Þjóðarhagsmunir að leiðarljósi

Auðvitað veit allt hugsandi og fordómalaust fólk að það er skynsamlegt að huga að slíkum möguleikum til aukinna útflutningstekna – og kanna hvort slíkt geti verið ábatasamt og farsælt fyrir þjóðina. Fólk veit líka að málflutningur gegn því að slík tækifæri séu könnuð til hlítar er fyrst og fremst til kominn vegna þess að verið er að gæta einhverra sérhagsmuna.

Þar virðist einkum og sér í lagi markmiðið að hygla hagsmunum erlendra stóriðjufyrirtækja á Íslandi. Vissulega eru svo aðrir sem tala gegn strengnum sem einfaldlega virðast ekki skilja hvað hugmyndin gengur út á eða misskilja hana. Ég vil taka það skýrt fram að ég lít á málið út frá hreinum þjóðarhagsmunum og engu öðru. Og vona svo sannarlega að stjórnvöld geri það líka.

Könnum tækifærið af kostgæfni og gætum okkur á sérhagsmunum

Það er alls ekki víst að hugmyndin um sæstreng gangi upp. Verkefnið er of skammt á veg komið til að hægt sé að fullyrða um það. En að hafna tækifærinu og sleppa því að kanna það til hlítar væri bæði tákn um kjánaskap og yfirgengilegt metnaðarleysi.

Hagsmunabarátta í íslensku atvinnulífi er oft ansið mikil. Og það eru til bæði fyrirtæki hér og atvinnugreinar sem myndu sennilega fagna því mjög að þetta tækifæri til tengingar við annan raforkumarkað væri skoðað sem minnst. Þar kemur áliðnaðurinn kannski fyrst upp í hugann.

Sá iðnaður notar hátt í 3/4 allrar þeirrar raforku sem framleidd er á Íslandi – og kærir sig af eðlilegum ástæðum alls ekki um að fá þar umtalsverða samkeppni. Enda nýtur áliðnaðurinn hér og stóriðjan þess að fá raforkuna á afar lágu verði vegna lítillar eftirspurnar sem hér er miðað við orkumagnið. Í sumum tilvikum er þar um að ræða sannkallað botnverð. Og sökum þess að þar eru stórir raforkusamningar að losna eftir einungis örfá ár (2019) er nú kominn í gang mikill áróður gegn sæstrengshugmyndinni.

Áróður gegn sæstreng til að vernda sérhagsmuni

Fólk ætti að spyrja sig af hverju allt í einu eru komin fram svo mikil skrif gegn sæstreng og reyndar líka gegn Landsvirkjun eins og raun ber vitni. Hvað eru menn hræddir við? Gæti kannski komið í ljós að sæstrengur sé bæði geysilega arðsamt tækifæri fyrr Ísland og raunhæft verkefni?

Þarna eru geysilegir hagsmunir í húfi. Í því sambandi er t.d. ágætt að hafa í huga að bara á síðustu átta árum nam rekstrarhagnaður Norðuráls (EBITDA) meira en einum milljarði USD. Þetta er í reynd að megninu til auðlindaarður af nýtingu íslenskra orkuauðlinda. Staðan í dag er sem sagt sú að þarna þjónar arðurinn af nýtingu umræddra vatnsafls- og jarðvarmaauðlinda fyrst og fremst þeim tilgangi að halda uppi hlutabréfaverði Century Aluminum. Og um leið hífa upp hlutabréfaverð stærsta eiganda Century; hrávörurisans Glencore. Þetta er ástand sem umrædd fyrirtæki vilja og reyna af öllum mætti að viðhalda. Og vilja koma í veg fyrir alla umtalsverða aukna samkeppni um orkuna. Til að tryggja sér sterka samningsstöðu í tengslum við endurnýjun orkusamninga.

Vert er að minna á að umræddur áróður gegn sæstreng færðist mjög í aukana í kjölfar þess að ég skrifaði grein þar sem ég benti einmitt á að stórir orkusamningar væru senn að renna hér út. Það var þá sem framkvæmdastjóri hjá Norðuráli spratt fram með afar ósvífna grein þar sem reynt var að gera lítið úr mínum málflutningi. Sú grein var uppfull af rangfærslum og útúrsnúningum og var sannkallað vindhögg. Í kjölfarið komu svo fótgönguliðarnir – með hverja þvælugreinina á fætur annarri. Taki þeir til sín sem eiga.

Upplýst og hlutlaus ákvörðun mikilvæg

Slíkur áróður er til allrar hamingju dæmdur til að mistakast. Þ.e. að skila engum árangri til handa viðkomandi stóriðjufyrirtækjum. Fótgönguliðar viðkomandi fyrirtækja geta hamast eins og þeir vilja í fjölmiðlum og annars staðar með barnalegan áróður sinn og rökleysu. Stjórnvöld og skynsamur almenningur sér léttilega í gegnum þann áróður. Og veit að eðlilegt er að kanna sæstrengstækifærið til fulls.

Slík skynsamleg viðhorf komu einmitt skýrt fram hjá fjármálaráðherra í erindi hans á áðurnefndum fundi Bresk-íslenska viðskiptaráðsins. Ráðherrann er vel að merkja sá sem skipar stjórn ríkisfyrirtækisins Landsvirkjunar. Sem undanfarið hefur ásamt stjórnendum Landsvirkjunar leitast við að auka arðsemi fyrirtækisins og auka arðgreiðslur í ríkissjóð. Slíkt er öllum landsmönnum til heilla.

Með upplýstri umræðu og meiri athugun á sæstrengsverkefninu getum við vitað hvaða skref er farsælt að þjóðin taki með þetta mál. Það er alls ekki víst að sæstrengsverkefnið reynist framkvæmanlegt. En það er ekki fyrr en slík vinna hefur farið fram, að komnar verða góðar forsendur til að komast að niðurstöðu í málinu – og taka ákvörðun um framhaldið. Hver sú ákvörðun verður er ómögulegt að sjá fyrir. En vonandi mun sú ákvörðun byggja á staðreyndum og þjóðarhagsmunum en ekki á áróðri og sérhagsmunum.

 

Fleira áhugavert: