Íran er orkustórveldi

Heimild:  

 

Janúar 2016

Smella á myndir til að stækka

Íran er orkustórveldi. Landið hefur að geyma næstmestu gasbirgðir veraldarinnar og þar í jörðu liggja fjórðu stærstu olíubirgðir af öllum löndum heimsins. Einungis Rússland á meira jarðgas og löndin sem eru með meiri olíu í jörðu eru Venesúela, Saudi Arabía og Kanada. Og þegar litið er til verðmætis allra kolvetnisauðlinda í jörðu er Íran í öðru sæti (næst á eftir Rússlandi).

Oil_Proven-reserves-largest-2014Auk þess að vera með geysilegt magn af olíu og gasi í jörðu er mikið af þessum auðlindum Írana mjög ódýrar í vinnslu. Meðalkostnaður við að sækja eina olíutunnu þar í jörðu er metinn á bilinu 10-15 USD. Sem er með því lægsta í heimi.

Þess vegna skilar olíuútflutningur Íran dágóðum hagnaði jafnvel núna þegar olíuverð er mjög lágt. Gallinn er bara sá að útflutningstekjur af olíu og gasi eru langmikilvægasta tekjulind íranska ríkisins. Til að reka ríkissjóð landsins hallalausan þarf mjög hátt olíuverð. Áætlað er að Íran þurfi, miðað við núverandi olíuframleiðslu, olíuverð nálægt 130 USD/tunnu til að ná hallalausum fjárlögum!

Ein leið til að auka tekjur ríkissjóðs er að auka olíuframleiðslu og flytja meira út af olíu. Og það mun einmitt vafalítið gerast núna þegar létt hefur verið á viðskiptahindunum þeim, sem settar voru á Íran vegna kjarnorkuáætlunar stjórnvalda.

Iran-Oil-Exports-2011-and-2014Viðskiptabannið hafði mjög mikil áhrif á olíuútflutning frá Íran (sbr. grafið hér til hliðar svo og grafið hér næst fyrir neðan). Árið 2011 nam útflutningur Íran á hráolíu og olíuafurðum um 2,6 milljónum tunna á dag. Vegna viðskiptahindrana (sem settar voru á 2012) féll þessi útflutningur smám niður í um 1,4 milljón tunnur pr. dag (þar af var útflutt hráolía komin niður í um milljón tunnur).

Tapaður útflutningur Íran á olíu og olíuafurðum var því orðinn sem nemur rúmlega einni milljón tunnum á dag, þegar loks var leyst úr kjarnorkudeilunni. Til marks um hversu mikið tap þetta er, má nefna að einungis fimmtán ríki í heiminum framleiða milljón tunnur eða meira af olíu á dag. Þar að auki er framleiðslukostnaðurinn óvíða lægri en í Íran, þ.a. tapaðar tekjur og tapaður hagnaður er þarna gífurlegur.

Iran_Oil-and-Petroleum_Production-and-Consumption_2011-2015Ekki er vitað fyrir víst hversu hratt Íranar geta aukið olíuútflutning sinn á ný. Það á eftir að koma í ljós. Talið er að miklar olíubirgðir séu nú þegar á risavöxnum tönkum í landinu. Og almennt virðist búist við því að á skömmum tíma geti útflutningur Íran á olíu aukist um 500 þúsund tunnur.

Þá færi hráolíuútflutningurinn úr núverandi 1 milljón tunna á dag í um 1,5 milljónir tunna. Með aukinni fjárfestingu og endurnýjun í íranska olíuiðnaðinum gæti framleiðslan svo vaxið ennþá meira. Og útflutningur á olíu og olíuafurðum frá Íran farið á ný í um 2,5 milljónir tunna pr. dag eða jafnvel meira. Þar með myndi Íran á ný verða eitt allra mikilvægasta olíuútflutningsríki heims og stærri olíuútflytjandi en t.a.m. Noregur.

Iran-President_Hassan-Rouhani

Iran-PresiHassan-Rouhani

Þessi þróun mun þó taka sinn tíma. Þar að auki blasir við að aukinn olíuútflutningur frá Íran mun varla verða til þess að lyfta olíuverði upp. Líklegt er að næstu misseri muni einkennast af verðstríði milli Saudi Arabíu og Íran og það virðist ólíklegt að OPEC komi sér saman um samdrátt í framleiðslu. En hvernig þetta æxlast er þó ómögulegt að spá.

Til að olíuverð hækki þarf að draga saman með olíuframboði og olíunotkun og ennþá virðist nokkuð í að það verði. Í næstu grein Orkubloggsins verður svo útskýrt að í árslok 2017 verður olíuverð sennilega nálægt 20 USD/tunnu – nema það verði þá nálægt 100 USD/tunnu. Stay tuned!

 

Fleira áhugavert: