Sjálfkeyrandi rafbílar – Samgöngubylting?

Heimild:  

 

Borgarlína og fluglest eru úrelt þar sem sjálfakandi leigubílar munu taka yfir almenningssamgöngur með ógnarhraða á næstu árum. Þetta segir Frosti Sigurjónsson rekstrarhagfræðingur og fyrrverandi alþingismaður í fréttum Stöðvar 2 og hvetur sveitarstjórnarmenn til að hugsa málin upp á nýtt.

Þýski bílaframleiðandinn Volkswagen kynnti nýlega sjálfkeyrandi rafbílinn Sedric en margir telja að með slíkum sjálfrennireiðum hylli undir samgöngubyltingu, eins og lesa má um í skýrslu RethinkX. Með framþróun í rafhlöðum, sjóntækni og gervigreind taki slíkir vagnar yfir stóran hluta fólksflutninga.

Rekstrarhagfræðingurinn Frosti Sigurjónsson segir nýjustu spár gera ráð fyrir að þetta gerist mjög hratt.  Nú líti út fyrir að sjálfakandi rafbílar verði komnir á göturnar árið 2020.

„Og þeim muni fjölga með ógnarhraða eftir það, miklu hraðar en ný tækni venjulega. Þetta verði svokölluð umbylting bílgreinarinnar,” segir Frosti.

Hann telur sjálfakandi leigubíla taka yfir almenningssamgöngur. Það verði ódýrara og þægilegra fyrir fólk að fá slíkan rafbíl beint heim að dyrum fremur en að nýta sér kerfi almenningsvagna í núverandi mynd með tilheyrandi biðstöðvum.

Volkswagen kynnti Sedric á bílasýningu í Sviss fyrir tveimur mánuðum.MYND/VOLKSWAGEN GROUP.

„Það þurfa að vera stoppistöðvar þar sem við geymum fólk, farþegana, á lager. Þeir þurfa að bíða í sjö mínútur eða tíu mínútur, – eða í hálftíma um helgar. Allt þetta er úrelt. Við eigum ekki að þurfa að hafa þessa framtíðarsýn. Hún er fortíðin.”

Á sama hátt sé fluglest til Keflavíkur óþarfa sóun. Markmiðum um minni mengun, öryggi og góða þjónustu sé öllum hægt að ná með sjálfakandi rafknúnum leigubílum, að mati Frosta.

„Það er bara framtíðin sem er að koma.

Og það væri mjög sorglegt að daginn sem við erum að opna léttlestakerfið, eða sporvagnakerfið, – búin að eyða í það 50 til 100 milljörðum, – þá komum við í þá opnun á sjálfakandi leigubíl því það ætlar enginn að nota léttlestina, eða léttvagnana. Það væri sorglegt.

Endurskoðum þetta. Það er það sem ég segi.”

 

 

 

Spá því að við yfirgefum einkabílinn innan 15 ára fyrir þægindi og sparnað

Ný bandarísk skýrsla spáir stórfelldri fækkun einkabíla innan fimmtán ára og að árið 2030 fari Bandaríkjamenn 95 prósent sinna ferða í sjálfkeyrandi rafbílum í eigu leigubílafyrirtækja. Frétt Stöðvar 2 um þessa framtíðarsýn má sjá hér að ofan.

Í stað þess að sitja við stýrið og aka eigin bíl mun fólk velja margfalt ódýrari þægindi; að láta sjálfstýrðan rafbíl frá akstursþjónustu skutla sér.MYND/MERCEDES BENZ.

Svona hljóðar framtíðin í samgöngum, ef spáin rætist: Sjálfkeyrandi rafmagnsbíll sem kemur heim til þín þegar þú óskar, skutlar þér í vinnuna eða út í búð, og svo kemur annar bíll og sækir þig þegar þú vilt komast heim aftur. Nýútkomin skýrsla sérfræðinga Rethinkx hefur þegar vakið athygli helstu fjölmiðla Bandaríkjanna enda eru leidd þar sannfærandi rök fyrir því að samgöngubylting sé handan við hornið.

Rótgrónir bílaframleiðendur, sem og nýir eins og Tesla, en einnig fyrirtæki á borð við Google og Apple, keppast við að þróa sjálfakandi rafbíla og skýrsluhöfundar telja að þeir muni slá í gegn sem þægilegur, öruggur og hagkvæmur samgöngumáti. Sérfræðingar Rethinkx telja þetta gerast svo hratt að árið 2030, eftir aðeins þrettán ár, verði 95 prósent allra ferða á bandarískum vegum farnar í sjálfstýrðum rafbílum, sem verði ekki einkaeign heldur aðallega í eigu akstursþjónustufyrirtækja.

Það sem drífi þessa bílabyltingu verði hvorki boð né bönn að ofan heldur efnahagslegir þættir. Þetta verði einfaldlega hagkvæmasti og þægilegasti ferðamátinn, 4-10 sinnum ódýrari en að kaupa nýjan bíl, og leigurafbíllinn verði 2-4 sinnum ódýrari en að reka eigin bíl. Meðalheimili í Bandaríkjunum er sagt spara 5.600 dollara á ári, eða um 600 þúsund krónur.

Tilraunabíll frá Google. Kerfi sjálfkeyrandi rafbíla stórfækkar bílum, að mati sérfræðinga Rethinkx.

Það sem gerir gæfumuninn er að sjálfkeyrandi bíllinn er á ferðinni allan sólarhringinn og getur þjónað tugum viðskiptavina meðan einkabíllinn stendur óhreyfður á bílastæði mestan hluta dagsins. Þetta segja skýrsluhöfundar að muni fækka bílum í Bandaríkjunum úr 247 milljónum árið 2020 niður í 44 milljónir árið 2030 og stórbæta nýtingu landrýmis. Afleiðingin verði hrun olíuiðnaðar og hefðbundins bílaiðnaðar. 

Sjálfakandi rafbílar eru einnig taldir geta leyst af strætisvagna og sporvagna, – og ef þessi framtíðarsýn rætist, gæti farið svo að Reykvíkingar sætu uppi með úrelta borgarlínu daginn sem hún yrði tilbúin.

Hér má sjá skýrslu Rethinkx.

Fleira áhugavert: