Sorpkvarnir – Góð ráð eða óráð..

Heimild:  mbl

 

sorpkvornSá sem á völina á kvölina segir gamalt spakmæli. Húsbyggjandi leitar eftir góðum ráðum og eðli málsins samkvæmt ætti hann að geta gengið að þeim hjá hönnuðum í mismunandi fögum. En það er nú einu sinni svo að þótt grundvallarreglur séu í gildi í öllum fögum eru menn síður en svo sammála um útfærslur eða val á því hvaða leiðir skuli fara. Þetta er að sjálfsögðu eðlilegt, hver og einn hönnuður eða iðnaðarmaður vegur og metur allar lausnir, sumar eru léttvægar fundnar, aðrar þykja lífvænlegar og þeim er auðvitað haldið á lofti. Svo er þeir til sem eru að finna eigin leiðir og þá kemur það oft fyrir að það sem hefur verið talið gott og gilt fram að þessu, jafnvel besta lausnin, fellur í ónáð og önnur betri leið er valin. Þetta sést best í útfærslu á gólfhitakerfum. Þar er um mismunandi leiðir að ræða, sumir telja gólfhitann engan veginn góða lausn, aðrir eru algjörlega ósammála. Það er því ekki að undra þótt húsbyggjandinn sé æði ringlaður og viti ekki í hvorn fótinn hann á að stíga, geti ekki gert sér grein fyrir því hvað eru góð ráð og hvað eru óráð. En hvað gólfhitann varðar er bernskan að baki og reynslan er orðin það mikil af lagningu slíkra kerfa að það ætti að vera hægt að koma sér niður á meginlínur í vali á lausnum, vali á lagnaefni og hvernig lagt skuli. Þó eru þeir enn til sem eru ekki sannfærðir. Sumir vilja ganga með axlabönd og belti, hafa bæði ofna og gólfhita hvarvetna í húsinu eða þá hafa gólfhita í stofu, baði og skála en ofna í svefnherbergjum. Auðvitað er hverjum og einum í sjálfsvald sett hvaða lausnir hann velur en þær eru ekki alltaf byggðar á bestu fáanlegu rökunum. Hins vegar er rétt að skjóta því hér inn af því að gólfhiti er nefndur sem nýjung að hann er í rauninni eldri en tvævetur. Fyrstu gólfhitakerfin voru lögð hérlendis fyrir rúmum 40 árum og ekki er vitað annað en að þau kerfi sum hver séu enn í gildi.

En ekki meira um gólfhita að sinni heldur aftur að því sem byrjað var á; hvernig getur hinn almenni húsbyggjandi og húseigandi vitað hvort hann er að fá góð ráð eða slæm þegar hann er að finna t.d. lausnir á lagnamálum? Í þessum pistlum hefur verið reynt að uppfræða um ýmislegt sem á húseigendum brennur, en samt er ekki vafi á því að ekki eru allir lagnamenn sammála því sem hér er á blað sett. Það getur stafað af því að reynsla manna er mismunandi og svo eru allir mannlegir, taka í sig ýmiss konar sérvisku sem sumum finnst, en viðkomandi finnst það sönn speki.

kvarnirÞað kemur fyrir að í fjölmiðlum birtast auglýsingar eða greinar sem bjóða ýmiss konar lausnir. Stundum er þetta hrein og klár sölumennska og ekkert reynt að fela það, stundum undir hatti fræðimennskunnar svo sem eins og í þessum pistlum.

Fyrir allt að hálfri öld var til tæki á heldri manna heimilum í Reykjavík, sem mörg hver voru þá á Melunum og við Ægisíðu, síðar í Laugarási. Þetta tæki var vaskakvörn en hún var tengd neðan á eldhúsvaskinn í stað vatnsláss og raftengd enda með öflugan búnað til að mylja flest sem í hana var sett, svo sem bein af nánast öllum dýrum. Í hana fóru einnig allir matarafgangar hvort sem um var að ræða fisk, kjöt, grænmeti eða ónýta ávexti. Þetta hakkaði kvörnin í sig með bestu lyst, því var jafnharðan skolað út í skólplögnina og fór síðan sína leið.

Þessi kvörn var frá guðs eigin landi, Bandaríkjum Norður-Ameríku, en þar hagar svo til sumstaðar að í stað þess að safna sorpi er því einfaldlega fargað á þennan hátt, malað undir eldhúsvaskinum og því skolað burt.

Öðru hvoru skjóta upp kollinum tilboð frá innflytjendum sem lýsa þessum kvörnum sem bestu lausn fyrir okkur hérlendis en þar ættum við að gá að okkur.

Í fyrsta lagi eru skólpkerfi í þéttbýli engan veginn hönnuð né lögð með það fyrir augum að taka við því magni af „súpu“ sem þannig félli til, skólpkerfin anna engan veginn þessu aukna álagi.

Í öðru lagi yrði, með almennri notkun á vaskakvörnum, loðnum ferfætlingum boðið til herlegrar veislu neðanjarðar, sem eflaust mundi auka þar niðri kyngetu og frjósemi og er víst ekki á það bætandi.

Það er því hægt að fullyrða það að þetta er tæki sem almennt ætti ekki að nota hérlendis, skólpkerfi eru ekki hönnuð fyrir notkun þeirra svo það er allt sem mælir gegn þeim.

Sem dæmi um frekari „óráð“ er hægt að benda á eitt slíkt sem birtist nýlega í Fréttablaðinu. Þar var fullyrt að ekkert væri því til fyrirstöðu að nota fiskiker úr plasti sem heitan pott og það getur svo sem verið í lagi. En öllu verra var að þar var sagt berum orðum að ættu menn völ á fiskikeri til þessa brúks væri ekki annað en að taka vatnsslönguna frá heita krananum og láta renna í kerið.

Það er nákvæmlega sama hvert kerið er sem notað er til þess að baða kroppinn; það verður ætíð að tryggja það að ekki verði brunaslys, af þeim er komið nóg við heita potta hérlendis. Það er ótrúlegt að láta slíkt „óráð“ á prent í fjölmiðli sem vill láta taka sig alvarlega. Vatni sem rennur í heitan pott, hvort sem það er fiskiker eða annað, verður að vera stýrt með vönduðum hitastýrðum tækjum, þarna má ekki þola neitt kæruleysi.

Fleira áhugavert: