Verða arðgreiðslur Landsvirkjunar 20 milljarðar?

Heimild:  Ketill Sigurjónsson

 

Apríl 2017

Veruleg hækkun á arðgreiðslu Landsvirkjunar strax á næsta ári?

Landsvirkjun boðar að arð­greiðslur muni brátt hækka úr 1,5 milljarði í 10–20 milljarða króna og að þetta muni ger­ast á næstu 3–4 árum. Þ.e. að arð­greiðsl­urnar tí­fald­ist og jafn­vel rúm­lega það á einungis örfáum árum. Það yrði gríð­ar­lega mik­il og snögg hækk­un arð­greiðslna. Og þessi sviðs­mynd Lands­virkj­un­ar virð­ist raun­hæf. Það hljóta að vera afskap­lega ánægju­leg tíð­indi fyrir eig­anda fyrir­tækis­ins; íslenska ríkið.

Úr 1,5 milljarði 2017 í 10–20 milljarða á næstu 3–4 árum

Arðgreiðsla Lands­virkj­unar undan­far­in ár hef­ur ver­ið 1,5 milljarður króna. Sam­kvæmt rúm­lega mán­að­ar­gam­alli kynn­ingu fyr­ir­tæk­is­ins á upp­gjöri árs­ins 2016 á að byrja að auka arð­greiðsl­urnar eftir 1–2 ár. Og að þær muni fara í 10–20 milljarða króna á næstu 3–4 árum.

Ekki hefur komið fram hvern­ig þetta á ná­kvæm­lega að ger­ast. Stefn­an virðist þó sú að á næsta ári eða ekki síðar en 2019 verði unnt að auka arð­greiðsl­una um þó nokkra milljarða. Og brátt muni svo arð­greiðslan fara yfir milljarða­tug­inn og svo teygja sig í átt að u.þ.b. 15 milljörðum króna og jafn­vel í 20 milljarða króna. Á ör­fá­um árum.

Arðgreiðslur áttu að aukast jafnvel strax 2017

Það er vel að merkja svo að væntingar Lands­virkj­un­ar frá ár­inu 2015 um vax­andi arð­greiðsl­ur eftir „tvö til þrjú ár“ eiga ennþá eftir að raun­ger­ast. Núna tveim­ur ár­um síð­ar er arð­greiðsl­an ennþá í 1,5 milljarði króna, rétt eins og ver­ið hef­ur und­an­far­in ár. Og sá arð­ur sem greidd­ur er núna, sbr. árs­reikn­ingur fyrir rekstrar­árið 2016, er minni í USD en greidd­ur var vegna rekstrarársins 2014 (USD er upp­gjörs­mynt Lands­virkj­un­ar). Að því leyti hefur arð­greiðsla Lands­virkj­un­ar í reynd minnkað síð­an 2014. Og bæði rekstrar­hagn­að­ur og nettó­hagn­að­ur fyr­ir­tæk­is­ins vegna ársins 2016 var minni en vegna ársins 2015.

Lágt álverð heldur aftur af arðgreiðslugetu Landsvirkjunar

Markmið eða væntingar Lands­virkj­unar frá 2015 um hækk­andi arð­greiðsl­ur eftir 2–3 ár geta enn­þá geng­ið eftir. Þ.e. ef arð­greiðsl­an eykst árið 2018, þ.e. vegna rekstrar­árs­ins 2017. Það er því ekki svo að vænt­ing­ar Lands­virkjunar um aukn­ar arð­greiðsl­ur hafi ekki geng­ið eft­ir. En spyrja má af hverju arð­greiðsl­an jókst ekki strax nú í ár?

Svarið við þeirri spurningu er senni­lega að álverð hafi verið lægra en vænt­ing­ar voru um, svo og gengi krón­unn­ar. Hvort tveggja hef­ur hald­ið aft­ur af arð­greiðslu­mögu­leik­um Lands­virkj­un­ar. Hefði ál­verð hækk­að hrað­ar og meira en raun­in hef­ur ver­ið hefði arð­greiðsl­an senni­lega auk­ist strax árið 2017. Og Lands­virkj­un hef­ur vel að merkja ekki sleg­ið af vænt­ing­un­um og boð­ar núna að hækka arð­greiðsl­ur úr 1,5 milljarði í 10–20 milljarða króna á næstu 3–4 árum.

Mikil vikmörk

Vikmörkin þarna eru mikil; mikill munur er á því hvort arð­greiðsla eftir 3–4 ár verði 10 milljarðar eða 20 milljarðar króna. Þessi miklu vik­mörk skýr­ast senni­lega fyrst og fremst af óviss­unni um þró­un raf­orku­verðs og þró­un ál­verðs. Það hvort arð­greiðsl­ur nái brátt 10 eða 20 milljörðum króna strax um eða upp úr 2020 mun sem sagt ráð­ast mjög af þró­un tekna Lands­virkj­un­ar af raf­orku­söl­unni og þar er ál­verð stór áhrifa­þátt­ur. Fleira kem­ur þó til og óvissu­þætt­irnir eru margir.

Minni framkvæmdir, minni afborganir skulda og hækk­andi orku­verð

Fari arðgreiðslur Landsvirkjunar vel yfir 10 milljarða króna strax á næstu árum yrði það mun hrað­ari aukn­ing arð­greiðslna en grein­ar­höf­und­ur gerði ráð fyr­ir í ný­legri grein hér á Kjarn­an­um. Mun­ur­inn þarna felst eink­um í því að meiri sam­drátt­ur virð­ist áætl­aður í fram­kvæmd­um Lands­virkj­un­ar en grein­ar­höf­und­ur bjóst þá við. Þar með verða meiri fjár­mun­ir fyrir hendi til að greiða arð.

 

Samkvæmt áður­nefndri nýlegri kynn­ingu fyr­ir­tæk­is­ins kem­ur fram að þeir fjár­mun­ir sem muni skapa þessa miklu aukn­ingu á arð­greiðsl­um eigi sér þrenns kon­ar upp­sprettur:

a) Samdráttur í fram­kvæmd­um, þ.e. minna virkj­að en ver­ið hefur og minna tek­ið af veltu­fé til fram­kvæmda.

b) Minni afborganir skulda, enda hafa skuld­ir farið lækk­andi (og láns­hæfi fyrir­tækis­ins batnað og vext­ir því orð­ið lægri en ella).

c) Aukning á rekstrar­tekjum, sem kem­ur til vegna hækk­andi raf­orku­verðs, þ.e. hærra meðal­verð fæst fyrir hverja selda fram­leiðslu­einingu.

Lítið virkjað á næstu árum

Eins og áður sagði skiptir hér veru­legu máli að Lands­virkj­un hyggst nú verja minna fjár­magni í virkjun­ar­fram­kvæmd­ir. Einn­ig skipt­ir miklu að vegna lækk­andi skulda fer nú almennt minna fé í af­borg­an­ir lána og vaxta­greiðsl­ur og það skap­ar auk­ið svig­rúm til arð­greiðslna.

Sú þróun að nú muni hægja á virkjunar­fram­kvæmd­um af hálfu Lands­virkj­un­ar kem­ur kannski sum­um á óvart. Sér­stak­lega í ljósi þess að und­an­far­in misseri hef­ur tals­verð um­ræða ver­ið um það hér­lend­is að það jaðri við raf­orku­skort í land­inu.

Á móti kem­ur að næstu árin má nýta til að und­ir­búa nýjar fram­kvæmd­ir, sem svo gætu far­ið á fullt eftir fá­ein ár. Það ætti því að vera óþarfi að ótt­ast raf­orku­skort. Svo er það vel að merkja Lands­virkj­un sem út­veg­ar kísil­veri United Silicon raf­magn, en þar mun nú allt vera stopp og nokk­uð óvíst um framhaldið. Það er því ekki úti­lok­að að þar losni um raf­orku, sem að vísu er ekki mjög mikið magn. Þetta er auka­atriði en gæti sem sagt skipt máli.

Tekið skal fram að ekki liggja fyrir ná­kvæm­ar upp­lýs­ing­ar um áætl­að­ar fram­kvæmdir Lands­virkj­un­ar á næstu ár­um. Þess vegna er erfitt að áætla af ná­kvæmni t.a.m. hversu stór­um hluta af veltu­fé sínu Lands­virkj­un hyggst verja til slíkra verkefna. Og því aug­ljós­lega vand­kvæð­um bund­ið fyrir utan­að­kom­andi að meta hversu mik­il áhrif fram­kvæmd­ir koma til með að hafa á arð­greiðslu­getuna.

Tekjuóvissa gæti haldið aftur af arðgreiðslum

Áætlanir Lands­virkj­unar um að arð­greiðsla geti far­ið í allt að 20 milljarða króna eft­ir ein­ung­is 3–4 ár er háð marg­vís­leg­um óvissu­þátt­um og ytri skil­yrðum. Það er t.a.m. óvíst hversu góð­ur áráng­ur næst í að auka tekjur Lands­virkj­un­ar af raf­orku­söl­unni. Og til að vel gangi má raf­orku­verð­ið á norræna orku­mark­aðnum helst ekki verða mjög lágt og slæmt væri ef ál­verð yrði mjög lágt. Þá er enn­þá óvíst hvort end­ur­sam­ið verð­ur við Elkem á þeim nót­um sem Lands­virkj­un gerir ráð fyrir. Og ekki er held­ur víst hverju raf­orku­samn­ing­ur Lands­virkj­un­ar við Norð­ur­ál muni nákvæmlega skila í tekjur eft­ir að hann gengur í gildi á árinu 2019; það ræðst af verð­þró­un­inni á norræna raf­orku­markaðnum. Þarna eru því marg­ir óvissu­þætt­ir fyrir hendi.

Þá er líka óvíst hversu mikl­um tekj­um um helm­ing­ur­inn af raf­orku­sölu Lands­virkj­un­ar muni skila, þ.e. vegna þess að þar er orku­verð­ið tengt ál­verði. Hér er að sjálf­sögðu átt við orku­samn­ing Lands­virkj­un­ar og Fjarða­áls (Alcoa), ásamt raf­orku­söl­unni til Norð­ur­áls (Century) fram á 2019. Um þess­ar tekjur rík­ir veruleg óvissa og sú óvissa veld­ur mikl­um vik­mörkum um það hvaða arð­greiðslna megi vænta frá Lands­virkj­un á kom­andi ár­um. Ál­verð er sem sagt enn­þá mikil­væg­ur þátt­ur í af­komu Lands­virkj­un­ar. Svo er gengis­þróun líka ávallt óvissu­þátt­ur; hér er jú rætt um arð­greiðslu í ísl­ensk­um krónum.

Aukning í arðsemi Landsvirkjunar er eðli­leg og að­kallandi

Vert er að hafa í huga að miðað við stærð (fram­leiðslu­magn) Lands­virkj­un­ar yrðu arð­greiðsl­ur af þess­ari stærð­ar­gráðu, þ.e. 10–20 milljarðar, eng­in ósköp. Frem­ur mætti þar tala um eðli­legan arð­, svo sem ef mið­að er við sam­bæri­leg­an rekst­ur á Norð­ur­lönd­un­um. Lands­virkj­un hef­ur í ára­tugi skil­að lítilli arð­semi og hefur þar að jafn­aði stað­ið tals­vert að baki t.d. norræn­um raf­orku­fyr­ir­tækj­um í ríkis­eigu.

Góð tíðindi fyrir eiganda Landsvirkjunar

Hér í lokin má svo sjá töflu sem sýnir hvern­ig arð­greiðsl­ur Lands­virkj­un­ar gætu mögulega þró­ast á kom­andi ár­um. Þarna er vel að merkja um að ræða mögu­lega sviðs­mynd en ekki spá. Þessi sviðs­mynd er raun­hæf að gefnum tilteknum forsendum, en þær for­sendur geta hæg­lega breyst. Þess vegna er t.a.m. ekki víst að það muni ganga svona hratt að auka arð­greiðsl­urnar og kannski enn­þá síð­ur lík­legt að ná­kvæm­lega þessi spá muni ganga eftir.

Möguleg þróun á arðgreiðslun Landsvirkjunar a næstu árum.

Í töfl­unni er t.d. gert ráð fyrir því að ár­leg­ar tekj­ur Lands­virkj­un­ar af Norð­ur­áli og Elkem auk­ist brátt um hátt í sex milljarða króna. Sem er að sjálf­sögðu óvíst og kann að vera full bjart­sýnt f.h. Lands­virkj­un­ar, m.a. með hlið­sjón af því að nú er ver­ið að spá mjög lágu raf­orku­verði á norræna orku­mark­aðn­um á kom­andi árum. Um­rædd sviðs­mynd er því háð marg­vís­leg­um fyrir­vör­um. En er engu að síð­ur vís­bend­ing eða til­laga um það hvaða staða gæti verið fram­undan hjá Lands­virkj­un m.t.t. arð­greiðslna.

Möguleikinn á 10–20 milljarða króna arð­greiðslu Lands­virkj­un­ar á allra næstu ár­um er sem sagt til stað­ar þó svo að marg­vís­leg­ir óvissu­þætt­ir séu fyr­ir hendi. Það hljóta að vera ánægju­leg tíð­indi fyrir eig­anda fyrir­tækis­ins, sem er ísl­enska rík­ið. Meiri og ná­kvæm­ari upp­lýs­ing­ar um arð­greiðsl­ur Lands­virkj­un­ar kunna svo að koma fram á árs­fundi fyrir­tækis­ins sem fer fram í dag; mið­viku­dag­inn 26. apríl. Áhuga­söm­um um orku­mál má einn­ig benda á skrif á vefn­um Medium.com.

Fleira áhugavert: