Rafbílar – Gjaldtaka fjármagnar uppbyggingu innviða?

Heimild:  

 

Maí 2017

Hlutfall endurnýjanlegs eldsneytis í samgöngum á landi hefur þrjátíufaldast frá árinu 2010 og er nú 6%. Skoðað verður hvort gjaldtaka verði notuð til að fjármagna uppbyggingu innviða vegna aukinnar rafbílanotkunar.

Í þingsályktunartillögu Þórdísar Kolbrúnar Gylfadóttur iðnaðarráðherra um aðgerðaáætlun um orkuskipti, sem atvinnuveganefnd Alþingis tekur á fund sínum í dag, kemur fram að árið 2020 eigi þetta hlutfall að vera komið í 10% og árið 2030 40%.

Í tillögunni kemur fram að stefnt skuli að því að Ísland verði framarlega í notkun á endurnýjanlegum orkugjöfum á öllum sviðum. Hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa á fiskiskipum sé 0,1% nú en skuli verða 10% fyrir haftengda starfsemi árið 2030.

Í tillögunni er gert ráð fyrir að gjaldtaka í samgöngum verði endurskoðuð þannig að hún tryggi ríkissjóði nægar skatttekjur til að standa undir uppbyggingu og viðhaldi samgöngumannvirkja. Nauðsynlegt sé að tryggja að innviðir verði til staðar fyrir nýjar tæknilausnir. „Ef ekki eru til staðar innviðir, þá myndast vandamálið með eggið og hænuna, þar sem skortur á innviðum er hindrun í vegi sölu á bifreiðum og öfugt,“ segir í athugasemdum við tillöguna. Mismikil þörf sé á uppbyggingu nýrra innviða eftir því hvaða tæknilegan valkost um ræðir. Til að mynda geti eldsneyti eins og lífeldsneyti í mörgum tilvikum notast við núverandi innviði og tæki, upp að vissu marki.

Rafbílar og metanbifreiðar geti hins vegar ekki nýtt núverandi innviði heldur þurfi nýja. Orkuskipti þar sem jarðefnaeldsneyti sé skipt út fyrir raforku auki jafnframt aflþörf í raforkukerfinu. Nauðsynlegt sé að huga að styrkingu flutnings- og dreifikerfisins svo hægt verði að koma til móts við komandi orkuskipti á landi. Þá þurfi einnig að vera til staðar nægjanlegt raforkuframboð til að mæta eftirspurninni.

Fleira áhugavert: